Þórustaðanáma í Ingólfsfjalli
Ingólfsfjall, Þórustaðir, Þórustaðanáma, Ölfus
Efnistaka hefur átt sér stað í Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli frá árinu 1957. Núverandi framkvæmdaraðili og rekstraraðili Þórustaðanámu er Fossvélar ehf. og hafa þeir rekið starfsemina frá árinu 1975. Fyrir núverandi rekstur er í gildi framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Ölfusi og starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands en til stendur að stækka vinnslusvæði námunnar til að geta uppfyllt efnisþörf samfélagsins á svæðinu til ársins 2050. Nauðsynlegt er að fjalla um viðbótina í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
Framkvæmdin er matsskyld skv. tölulið 13.01 í 1. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 þar sem umfang efnistökunnar er yfir þeim viðmiðum sem þar eru tilgreind. Í drögum að tillögu að matsáætlun sem hér liggja fyrir er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdarsvæði lýst og fjallað um umfang og áherslur umhverfismatsins. Fjallað er um þá umhverfisþætti sem teknir verða til skoðunar í matinu. Þeir eru landslag og ásýnd, loftgæði og útivist.
Gert er ráð fyrir að nýja efnistökusvæðið verði um 11,3 ha að flatarmáli, þ.a. heildarstærð efnistökusvæðis verði þá um 34 ha og að tekið verði um 27,5 milljónir m3 af malarefni.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að mæta framtíðarþörf fyrir malarefni (fyllingarefni og annað unnið efni) á svæðum umhverfis efnistökuna. Staðsetning námunnar þykir heppileg fyrir þéttbýliskjarna Suðurlands, bæði í Árborg og á Ölfusi sem og uppsveitum og vesturhluta Rangárvallasýslu ef þess er óskað. Er því talið hentugt að halda áfram efnistöku á því svæði sem hefur nú þegar verið nýtt undir sambærilega starfsemi á síðustu áratugum.
Mat þetta nær til sambærilegrar starfsemi, að mestu leyti innan sama svæðis og er því að stórum hluta um sömu umhverfisáhrif að ræða. Að auki hafa staðhættir og aðstæður á framkvæmdasvæði breyst lítið. Því byggir mat þetta að hluta til á því mati sem áður hefur verið unnið fyrir starfsemina en að teknu tilliti til breytinga á grunnástandi og lagaramma frá því að síðasta matsferli fór fram.
Drög að tillögu að matsáætlun
Drög að tillögu að matsáætlun fyrir efnistökusvæðið hefur nú verið lögð fram til kynningar á vefsíðum EFLU og Fossvéla. Allir geta kynnt sér drögin og lagt fram athugasemdir.
Athugasemdir skal merkja „Þórustaðanáma – efnistaka úr Ingólfsfjalli“ og senda með tölvupósti á netfangið snaevarr.georgsson@efla.is
Athugasemdir í bréfpósti skal senda á:
EFLA verkfræðistofa
B.t. Snævarrs Arnar Georgssonar
Lyngháls 4
110 Reykjavík
Athugasemdafrestur er til og með 26. apríl 2019.