Vinnuvistarkönnun

Könnun fyrir vinnustaði, Innivist á vinnustað

Upplýsingar um líðan og upplifun starfsmanna á vinnuumhverfi sínu geta hjálpað stjórnendum að greina þá þætti sem þarf að bæta úr og viðhalda því sem mælist vel. 


Vinnuvistarkönnun EFLU byggir á stöðluðum spurningalista sem er þróaður í samstarfi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina og eru athugaðir þættir í vinnuumhverfi starfsfólks.

Tengiliður

  Vinnuvistarkönnun þykir gefa góða raun sem fyrsti útgangspunktur ef grunur leikur á að vandamál varðandi innivist á vinnustað sé til staðar. 

  Starfsfólk er beðið um að meta vinnuumhverfi sitt með tilliti til hitastigs, loftgæða, hávaða, lýsingar og fleiri þátta sem tengjast innivist. Með því að leggja fyrir vinnustaðakönnun er starfsfólk vinnustaðarins upplýst um að verið sé að skoða innivist fyrirtækisins með það fyrir augum að bæta úr, ef vandamál greinist. 

  Niðurstöður könnunarinnar eru túlkaðar með því að bera svörin saman við viðurkennd gögn fyrir vinnustaði þar sem ekki eru vandamál varðandi innivist. Í kjölfarið er hægt að leggja mat á hvers eðlis vandamálið er ef það er þá til staðar. 

  Starfsfólkið mikilvægasta auðlindin

  Vinnuveitendur þurfa að huga að vellíðan og góðri heilsu starfsmanna því það hefur jákvæð áhrif á frammistöðu einstaklingsins sem og vinnustaðarins. 

  Á meðal þjónustusviða eru

  • Mat á innivist 
  • Mat á upplifun starfsmanna
  • Reglulegt eftirlit
  • Úrvinnsla, ráðgjöf og næstu skref

  Algengar spurningar og svör

  Hvaða þættir eru skoðaðir í vinnuvistarkönnuninni?

  Starfsmenn eru beðnir um að meta vinnuumhverfi sitt með tilliti til hitastigs, loftgæða, hávaða, lýsingu og fleiri þátta. Einnig er beðið um mat á því hvort starfsmenn finni fyrir einkennum og hvort þeir tengi þessi einkenni við vinnuumhverfi sitt.

  Einkenni sem beðið er um mat á eru t.d. þreyta, höfuðverkur, erfiðleikar við einbeitingu, þurrkur og kláði.

  Hver er tilgangurinn með vinnuvistarkönnun?

  Tilgangur vinnuvistarkönnunar er að meta upplifun starfsmanna á vinnuumhverfi sínu. Könnunin hentar vel sem fyrsta skref í að meta innivist. Niðurstöður könnunarinnar geta gefið upplýsingar um það hvort vandamál séu til staðar og ef svo er hver þau eru.

  Niðurstöður nýtast stjórnendum við að taka góðar ákvarðanir snemma til að viðhalda því sem gott er og bæta það sem er ábótavant. Einnig getur könnun sem þessi nýst til þess að meta árangur úrbóta í tilfellum þar sem könnun var gerð fyrir framkvæmdir.

  Hvers konar ráðgjöf má búast við í kjölfar könnunar?

  Tillögur að næstu skrefum ráðast af niðurstöðum könnunarinnar. Ef vandamál með innivist koma í ljós þá mælir EFLA með sérfræðingi til að skoða þá þætti sem að tengast vandamálinu. Hvort sem vandamálið tengist rakaskemmdum og myglu, loftræsingu, hljóðvist eða lýsingu.

  Sérfræðingar leggja svo til í kjölfarið hvernig best sé að bæta innivist.

  Er hægt að fá reglubundnar kannanir?

  Já og það getur verið gott að framkvæma könnunina reglulega til að fylgjast með frávikum og meta árangur úrbóta, þ.e. ef könnunin hefur verið lögð fyrir áður en ráðist er í aðgerðir við að bæta innivist.

  Hvernig berst könnunin starfsmönnum?

  Hugbúnaðarsérfræðingar EFLU hafa þróað forrit sem sendir starfsmönnum tengil á könnunina í tölvupósti. Forritið sendir áminningar á þá sem hafa ekki svarað. Öll svör eru órekjanleg.

  Eru upplýsingarnar persónugreinanlegar?

  Forritið sem EFLA hefur þróað til þess að halda utan um framkvæmd könnunarinnar gefur hverri svörun órekjanlega kóða. Þannig er komið í veg fyrir að hægt sé að rekja einstaka svör til tölvupóstfanga starfsmanna. 

  Forðast er að spyrja spurninga sem geta gert svör persónugreinanleg, s.s. spurninga um aldur, kyn, stöðu og svo framvegis. Þegar spurt er um staðsetningar starfsmanna í húsnæði er þess gætt að nægjanlega margir starfsmenn séu á skilgreindum svæðum til að koma í veg fyrir að hægt sé að rekja svör til einstaklinga.

  Tengd þjónusta


  Var efnið hjálplegt? Nei