Hermun raforkumarkaða
Orkuskipti, Rafmagn, Raforkukerfi,
Orkuskipti og breytt rekstrarumhverfi raforkumarkaða kalla á sérhæfða hermun á markaðsaðstæðum.
Hjá EFLU starfar þverfaglegt teymi verk- og hagfræðinga sem veitir aðilum á markaði sérfræðiráðgjöf á þessu sviði.
Tengiliðir
Rekstrarumhverfi raforkukerfa hefur breyst mikið frá aldamótum með tilkomu orkukosta sem byggja á ótryggum og veðurháðum frumorkugjöfum. Auk þess standa nú yfir orkuskipti þar sem jarðefnaeldsneyti er óðum skipt út fyrir umhverfisvænni orkukosti.
Við fjárfestingar í nútíma raforkukerfi þarf að taka tillit til fjölmargra þátta til að tryggja arðbærni. Veruleg óvissa ríkir í raforkukerfinu þar sem bæði tiltæk framleiðslugeta og eftirspurn breytast hratt með tíma auk þess sem framleiðslueiningar eru sífellt að verða fleiri, fjölbreyttari og dreifðari en áður hefur verið. Hlutverk eftirspurnarhliðar markaðarins tekur einnig breytingum með snjöllum lausnum og tækjum sem geta t.a.m. tekið mið af stundarverði á markaði.
Breyttur raforkumarkaður
Yfirvofandi breytingar á raforkumarkaðnum á Íslandi kalla á faglega nálgun við hermun sem tekur mið af aukinni fjölbreytni á markaðnum.
EFLA býr yfir yfirgripsmikilli sérþekkingu og getu til hermunar á orkumörkuðum sér í lagi raforkumörkuðum. Beiting fágaðra hermunaraðferða og bestunaralgríma, sem taka tillit til allra helstu óvissuþátta í rekstri raforkukerfisins, tryggir grundvöll fyrir fjárfestingum í kerfi og sjálfbæran rekstur þess.
Á meðal þjónustusviða eru
- Mat á arðsemi fjárfestinga í raforkukerfi
- Mat á LCOE (e. Levelized Cost Of Energy) fyrir framleiðslueiningar
- Mat á áhrifum aukinnar framleiðslu með vindafli
- Ítarlegt mat á verðmyndun og spá um raforkuverð
- Mat á nýtingartíma framleiðslu- og flutningseininga
- Bestun á framleiðsluskipulagi aflstöðva
- Bestun á rekstri orkugeymslueininga