Matarspor: Fræðilegar forsendur

Fræðilegar forsendur, Matarspor

Matarspor er þjónustuvefur fyrir mötuneyti og matsölustaði þar sem reikna má út og bera saman kolefnisspor mismunandi máltíða og rétta. Vefurinn samanstendur af reikni og gagnagrunni sem EFLA hefur útbúið. 


Gagnagrunnurinn samanstendur af niðurstöðum vistferilsgreininga (e. Life Cycle Assessment, LCA) fyrir erlend matvæli og vistferilsgreiningar sem og aðrar greiningar á kolefnisspori fyrir íslensk matvæli. EFLA sér um að viðhalda gagnagrunninum og uppfæra eftir því sem niðurstöður fyrir fleiri matvæli liggja fyrir.

Vistferilsgreining er stöðluð aðferðafræði til að meta umhverfisáhrif vöru yfir líftíma vörunnar „frá vöggu til grafar“ og reikna út vistspor og kolefnisspor vörunnar. EFLA er leiðandi ráðgjafi í gerð vistferilsgreininga og útreikningi á kolefnisspori á Íslandi.

Gögn fyrir íslensk matvæli koma úr vistferilsgreiningum sem EFLA hefur unnið og öðrum greiningum sem hafa verið gerðar fyrir íslensk matvæli. Gögn fyrir matvæli framleidd erlendis eru fengin úr alþjóðlegri safngreiningu sem byggir á mörg hundruð vistferilsgreiningum fyrir rúmlega 30.000 býli í fleiri en hundrað löndum. 

Til viðbótar hefur EFLA safnað saman niðurstöðum úr fleiri vistferilgreiningum fyrir þau matvæli sem eru ekki í ofangreindum gagnagrunni. Ef valin eru innlend matvæli í reikninum þá notar reiknirinn íslensk gögn ef þau eru til en annars styðst hann við erlend gögn.

Almennt er tekið tillit til losunar gróðurhúsalofttegunda vegna breytinga á landnotkun (t.d. vegna ruðnings skógar), framleiðslu fóðurs, býlis, vinnslu, flutninga, umbúða og sölu, eftir því sem á við. Í sumum af íslensku greiningunum vantar einstaka þætti en það verður uppfært um leið og betri gögn liggja fyrir.

Kolefnisspor matreiðslurjóma, rjóma og smjörs var metið út frá kolefnisspori erlendrar mjólkur með því að reikna með sama kolefnisspori á hvert gramm af þurrefni (fita, prótein og kolvetni). Það er í samræmi við reglur um gerð umhverfisyfirlýsinga fyrir mjólkurvörur (Product Category Rules). Sömu aðferð var beitt til að reikna út kolefnisspor hveitis, spaghettís og pasta út frá kolefnisspori brauðs. Nokkur matvæli voru sett saman út frá uppskrift en þá vantar losun vegna samsetningarinnar sjálfrar og tilheyrandi vinnslu. Þau matvæli eru eftirfarandi: Kjötfars, lambakæfa, majónes, rjómaís, smjörblanda, smjörlíki, kaffi, brjóstsykur, karamellur, kartöflusnakk og popp.

Til að aðlaga niðurstöðurnar að íslenskum aðstæðum tekur reiknirinn einnig inn sjóflutninga eða flug til Íslands frá þeirri heimsálfu sem notandinn velur. Gróðurhúsaáhrif vegna sjóflutninga byggja á kolefnissporsreikni Eimskipa og fyrir flug eru notuð gögn úr GaBi Professional LCA gagnagrunninum. Fyrir hverja heimsálfu er reiknað með flutningi frá viðmiðunarborg en þær eru eftirfarandi: Rotterdam (N-Evrópa), Lissabon (S-Evrópa), New Oreans (N-Ameríka), Quito (S-Ameríka), Addis Ababa (Afríka), Hong Kong (Asía) og Perth (Ástralía). 


Var efnið hjálplegt? Nei