• Starfsfólk EFLU

Kraftmikil teymi

Starfsfólkið er verðmætasta auðlind okkar og leggjum við mikla áherslu á að því líði vel í vinnunni, njóti jafnréttis og fái tækifæri til að þróast í starfi. Við störfum í krefjandi umhverfi þar sem verkefnin eru fjölbreytt og síbreytileg. Við sækjumst eftir því að fá til liðs við okkur kraftmikið og metnaðarfullt fólk sem skarar fram úr á sínum sviðum. Við treystum starfsfólkinu okkar, veitum því tækifæri til að axla ábyrgð og þjálfum það hratt og örugglega til ábyrgðar. 

Við vinnum í fagteymum. Teymin eru af ýmsum stærðum og gerðum en eiga það sameiginlegt að vera samstilltur hópur einstaklinga sem vinna að sameiginlegum markmiðum og veita hver öðrum stuðning og endurgjöf. Hjá okkur starfa ólíkir einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn og starfsaldur í faginu. 

Samvinna, þátttaka og samábyrgð í sterkri liðsheild eru grundvallaratriði í teymishugsuninni hjá okkur.


Framúrskarandi aðstaða

Lögð er mikil áhersla á að skapa gott starfsumhverfi hjá okkur. Starfsstöðvar eru í öllum landshlutum og lagt er upp úr góðri samvinnu milli þeirra. Unnið er í opnum vinnurýmum en fjölbreytt fundar- og vinnuherbergi eru til staðar bæði fyrir stutta fundi og stærri vinnufundi. 

EFLA leitast við að stuðla að jafnvægi milli einkalífs og vinnu og er vinnutími því sveigjanlegur. Einnig stundar hluti starfsmanna fjarvinnu til móts við vinnu á starfsstöð. Góð samskipti eru lykilatriði og notum við m.a. Microsoft Teams sem umgjörð teymisvinnu og samskiptatól.


  • Starfsfólk EFLU

Sjálfbærni

Sjálfbærni og umhverfismál skipa mikilvægan sess í rekstrinum. Metnaðarfullri umhverfisstefnu er framfylgt þar sem við vinnum markvisst að því að minnka úrgang og sóun af öllu tagi. Mikið er lagt upp úr góðri innivist á starfsstöðvum og eru höfuðstöðvar EFLU á Lynghálsi í BREEAM umhverfisvottun. Haldið er grænt bókhald og upplýsingar veittar um kolefnisspor máltíða í frábæru mötuneyti fyrir starfsfólk.

Við stuðlum að vistvænum samgöngum starfsmanna og í boði eru grænir samgöngustyrkir. Reiðhjól og rafmagnsbílar eru til reiðu á starfsstöðvum fyrir ferðir á fundi. Aukin fjarvinna starfsmanna er einnig liður í okkar framlagi til umhverfismála þar sem stuðlað er að því að draga úr umferðarþunga og loftmengun. Starfsemi EFLU er kolefnisjöfnuð og upplýsingar um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð birtar í samfélagsskýrslu .


  • Starfsfólk EFLU

Fjölbreytt starfsþróun

Lögð er rík áhersla á að skapa farvegi innan fyrirtækisins sem stuðla að aukinni hæfni hvers starfsmanns. Frumkvæði og ábyrgð hvers og eins á eigin þekkingu og færni skiptir þar höfuðmáli. Við leggjum okkur fram við að skapa uppbyggilegan starfsanda sem byggir á virðingu og góðum samskiptum. Hvatt er til samvinnu innan EFLU og að starfsmenn leiti hver til annars og deili þekkingu sinni og reynslu. Starfsfólki gefst kostur á að sækja um styrki til að sinna endurmenntun og starfsþróun. 

Innan fagteyma EFLU eru margvísleg hlutverk og getur starfsþróun falið í sér breytingu á hlutverki innan teymis eða aukna ábyrgð í verkefnum. Einnig eru unnin margvísleg nýsköpunarverkefni innan EFLU í þverskipulegum teymum. Hvetjandi menning og teymishugsun eykur forvitni og frumkvæði starfsfólks við að leita framsýnna lausna og gefur hugrekki til að fara ótroðnar slóðir. Við hlökkum til að takast á við framtíðina og leita stöðugt betri lausna fyrir samfélagið.


  • EFLA starfsfólk

Félagslíf

Þegar fólkinu okkar líður vel gengur okkur vel. Starfsfólk heldur uppi virku og afar fjölbreyttu félagslífi. Öflungur, starfsmannafélag EFLU, stendur fyrir ýmsum viðburðum og lagt er upp úr fjölskylduvænum samverustundum með vinnufélögum. Starfræktar eru margar nefndir sem standa fyrir námskeiðum, fjallgöngum, tónleikum, leik- og bíósýningum, útilegum og bjórkvöldum svo fátt eitt sé nefnt.
Ávinningurinn af öflugu félagslífi er mikill og þar hittist fólk alls staðar úr fyrirtækinu, vinasambönd myndast og starfsandinn verður enn betri fyrir vikið.

Vilt þú sækja um starf?

Við erum alltaf að leita að áhugasömu og hæfileikaríku starfsfólki. Ef þú vilt slást í hópinn hvetjum við þig til að sækja um vinnu hjá okkur. Hægt er að senda okkur almenna umsókn eða sækja um auglýst störf.

Öllum umsóknum verður svarað og farið með þær sem trúnaðarmál. Einnig er velkomið að senda fyrirspurn til okkar um störf. 

Skoða starfasíðu 


Var efnið hjálplegt? Nei