Hvað segir fólkið okkar?

Alltaf tækifæri til að þróa nýjar lausnir
Ragnhildur Gunnarsdóttir, umhverfisverkfræðingur á samfélagssviði.
„Hjá EFLU er svo mikil breidd í sérfræðiþekkingu starfsfólks og hefur það nýst vel í þróun nýrra lausna. Samstarfsfólkið er alltaf til í að prófa nýja hluti og vinna að nýsköpun og það veitir manni tækifæri til að vaxa og þróast í starfi.“
Það var eitthvað ferskt og nýstárlegt við EFLU sem heillaði Ragnhildi og gerði það að verkum að hún sótti um starf. „Mér fannst EFLA spennandi kostur því starfsemin er svo fjölbreytt. Það kom mér líka á óvart hversu mikið og fjölbreytt félagslíf er í boði. Nánast mánaðarlega er boðið upp á einhverja viðburði; menningarviðburði, íþróttanámskeið eða fjölskylduviðburði.“ Hún segist hiklaust mæla með EFLU sem vinnustað fyrir aðra þar sem maður fær tækifæri til að vaxa og þróast í starfi og vinna með skemmtilegu og hæfu fólki.
Ragnhildur, sem er með doktorspróf í umhverfisverkfræði, segir að menntunin hafi nýst vel í fjölmörgum verkefnum og við þróun nýrra umhverfislausna sem hafa jafnvel ekki verið prófaðar áður á Íslandi. „Það er góður stuðningur varðandi endurmenntun og hef ég fengið tækifæri til að sækja margvísleg námskeið og ráðstefnur til að efla mig í starfi“. Þó svo að fyrirtækið sé stórt er starfsandinn léttur og góður og nýtist vel hin mikla breidd á sem býr meðal starsfólks. „Maður þarf sjaldnast að leita út fyrir húsið þegar maður þarf að leita svara varðandi verkfræði- og tæknilegar spurningar.“
Ragnhildur Gunnarsdóttir, umhverfisverkfræðingur á samfélagssviði.

Verkefnin draga mann í óvæntar áttir
Kristleifur Guðjónsson, vélverkfræðingur á iðnaðarsviði
„Það er mjög gefandi að leysa úr áskorunum viðskiptavina okkar. Ég legg mikið upp úr góðu samstarfi og virðisaukandi þjónustu þannig að viðskiptavinurinn vilji koma aftur til EFLU næst þegar hann þarf á þjónustu að halda.“
Aðspurður um ástæðu þess að hefja störf hjá EFLU segir Kristleifur. „Ég sótti um hjá EFLU vegna þess að ég hafði áhuga á að víkka sjóndeildarhringinn með ráðgjafarvinnu fyrir traust fyrirtæki með jákvæða ímynd.“ Honum finnst fjölbreytni og þverfagleg þekking einkenna vinnustaðinn og hjá EFLU sé meiri sérfræðiþekking á fleiri sviðum heldur en í öðrum einkareknum fyrirtækjum hérlendis. Það sem kom honum mest á óvart þegar hann byrjaði að vinna hjá EFLU var raunveruleg fjölbreytni verkefna á flestum sviðum verkfræðinnar. „Jákvætt félagslegt viðhorf er mjög ríkjandi hjá EFLU og litlu hlutirnir, s.s. föstudagsfótboltinn hefur verið ótrúlega eflandi fyrir starfsandann.“
Starfið og verkefnin hafa oft dregið Kristleif í óvæntar áttir og nefnir hann einnig að starfsfólk hafi töluvert frelsi til að bæta við sig þekkingu og þróast í aðrar áttir innan fyrirtækisins. Kristleifur mælir hiklaust með EFLU sem vinnustað „EFLA er frábært fyrirtæki. Ef verkefnin eru við þitt hæfi er þetta æðislegur vinnustaður því umhverfið og umgjörðin eru frábær. Samstarfsfólkið er einstaklega jákvætt og verð ég sérstaklega að nefna starfsfólk mötuneytis okkar sem gefur okkur frábæran mat alla daga.“

Fjölbreytileiki starfsins afar hvetjandi
Jón Valgeir Halldórsson, rafiðnfræðingur hjá hjá EFLU Norðurlandi.
EFLA er áhugaverður staður að vinna á og eru verkefnin spennandi og krefjandi þar sem ríkir mikið traust til starfsfólks. Jón Valgeir hefur starfað á hinum ýmsu starfsstöðvum innanlands og í erlendum verkefnum og starfaði meðal annars í Dubai í sex ár. „Ég byrjaði sem hönnuður, því næst fór ég í forritun og hef þróast í meira í átt að stjórnun síðastliðin ár. Verkefnin eru skemmtileg og krefjandi og myndi ég hiklaust mæla með að vinnu hjá EFLU því hér er gott og gaman að vera.“
Það kom honum helst á óvart þegar hann hóf störf hjá EFLU var hversu fjölbreytt starfið var og hversu mikið væri búið að vinna í verkefnum áður en þau fara í eiginlega framkvæmd. Hann nefnir samheldni og jákvætt viðhorf til starfsfólks sem einkennandi fyrir vinnustaðinn og þykir honum flatt skipulag fyrirtækisins gera allar samskiptaleiðir stuttar.
Jón Valgeir Halldórsson, rafiðnfræðingur hjá hjá EFLU Norðurlandi.

Fjölþætt starfsþróun og afar lærdómsríkur tími
Reynir Sævarsson, byggingarverkfræðingur á samfélagssviði.
Reynir hefur á tæpum 20 ára starfsferli hjá EFLU fengist við margt og á að baki fjölþætta starfsþróun innan fyrirtækisins. „Í upphafi kom ég inn í umhverfismálin nánast fyrir tilviljun en fann síðan hjá mér þörf fyrir að prófa fleira. Úr varð að mér bauðst að vinna við verkeftirlit sem var mjög lærdómsríkur tími en ráðgjöfin kallaði sterkt til mín og varð ég hluti af teymi sem vann við að koma Búðarhálsvirkjun í framkvæmd. Að því loknu fór ég í nýsköpunarverkefni og svo aftur í umhverfismálin þar sem ég byrjaði og er þar ennþá og er núna fyrirliði þess teymis.“
Það sem kom honum mest á óvart þegar hann hóf störf hjá EFLU var það hugarfar að allir eru jafnir og hluti af sterkri heild „Mér er það mjög minnisstætt að þegar ég var nýbyrjaður og kominn á fullt í eitthvað spennandi verkefni sem mér var fyllilega treyst fyrir lenti ég á spjalli við mér mun eldri samstarfsmann. Ég ræddi þó nokkuð lengi við hann um málið og hann var mjög áhugasamur. Síðar komst ég að því að þetta var aðaleigandi stofunnar á þeim tíma og stýrði öllu en það var engin leið að skynja það á honum. Þessi andi hefur ætíð verið til staðar hjá EFLU og nú þegar ég hef sjálfur tekið að mér stjórnunarhlutverk hjá fyrirtækinu reyni ég að hafa þetta alveg eins.“
Honum finnst einkenna EFLU að hvatt er til skoðanaskipta, öllum leyft að hafa sína skoðun og hafa þannig áhrif á gang mála. „Við hjálpumst mikið að sem leiðir alltaf til betri niðurstöðu. Ég tel að teymisfyrirkomulagið sem við höfum tekið upp styðji mjög við þetta, við leysum málin saman og stýrum hlutunum saman.“
„Ég mæli hiklaust með EFLU sem vinnustað, hér hefur mér alltaf liðið vel og fundið fyrir skilning og sveigjanleika þegar á slíkt hefur reynt.“
Reynir Sævarsson, byggingarverkfræðingur á samfélagssviði.