Orka

Ylgarður

Nordic Independent Challenge, Rannsóknarverkefni

Ylgarður er innigarður sem þægilegt er að nota allt árið. Verkefnið er frumkvöðlaverkefni sem miðar að því að þróa tæknilega fullkomið mannvirki sem hleypir inn dagsljósi, skartar mismunandi gróðri allt árið um kring, hitastig og loftgæði eru í jafnvægi og lýsing er vekjandi og falleg. Öllum þessum þáttum er stýrt af stjórntölvu, tengdri við mæla og annan búnað ylgarðsins.

Upplýsingar um verkefnið

Verktími
2014 - 2016

Tengiliður


Um hvað snýst verkefnið

Verkefnið varð til í kringum norræna frumkvöðlasamkeppni, Nordic Independent Challenge 2015, sem fjallaði um nýsköpun í tæknigeiranum til að bæta lífsgæði eldri borgara. Tillaga EFLU í samkeppninni gekk út á að gera ylgarð fyrir notendahópa sem hafa takmörkuð tækifæri til að komast út í náttúruna. Einnig er mikilvægt á norðlægum slóðum að gefa íbúum tækifæri til að njóta dagsbirtu á veturna þegar hennar nýtur í skamman tíma. Þessa lausn er hægt að útfæra í hvaða byggingum sem er fyrir alla notendahópa.

Lagt var í áframhaldandi vinnu eftir samkeppnina. Gerð var frumhönnun á ímynduðum ylgarði til að skoða alla þætti hans og meta umfang framkvæmdarinnar. EFLA vinnur nú að verkefnum fyrir annars konar húsgerðir þar sem frumhönnunin nýtist vel.

Hlutverk EFLU

Byggingarefni og -eðlisfræði: Leitað að bestu fáanlegu byggingarefnum á markaðinum til að byggja ylgarð og hleypa inn dagsbirtu en jafnframt að tryggja varmaeinangrun. Val á gleri og gluggaprófílum er sérstaklega mikilvægt. Einnig var skoðað annað efnisval fyrir ylgarð, bæði innan- og utanhúss.

Lýsingarhönnun: Lýsing miðar að því að hægja á framleiðslu melatonin hormóns (svefnhormón) hjá notendum til að tryggja árvekni og vellíðan. Lýsingin er hugsuð bæði fyrir notendur og plöntur.

Lagnir og loftræsing: Leitast var við að finna bestu lausnina á hitakerfi. Neysluvatn, frárennsli og loftræsing eru mikilvægir þættir loftgæða og innivistar.

Gróður: Gróður í formi gróðurveggja, gróður á gróðurgrindum, í beðum og öðrum ílátum er notaður til að skapa sem mestan sveigjanleika í notkun rýmisins. Skoðaðir eru ýmsir þættir gróðurs við þessar aðstæður eins og val á heppilegum plöntum , hætta á meindýrum  og sjúkdómum og umfang viðhalds og umhirðu.

Stýribúnaður: Skoðaðar lausnir til notkunar á stjórntölvu sem stjórna myndi öllum nauðsynlegum búnaði mannvirkisins. Hún myndi tryggja þau gæði innivistar sem nauðsynleg eru og koma í veg fyrir að vankunnátta hafi áhrif á virkni ylgarðsins.

Hljóð- og brunahönnun: Skoðaðar kröfur til mannvirkis varðandi hljóðvist og brunahönnun fyrir ákveðnar aðstæður.

Verkefnastjórnun og áætlanagerð: Tíma- og kostnaðaráætlanir fyrir byggingu ylgarðs.

Ávinningur verkefnis

Rannsóknir sýna að nægjanleg dagsbirta og tengsl við náttúru og gróður hefur jákvæð áhrif á mannfólkið, bæði andlega og líkamlega. Ef aðgengi notendahópa eins og eldri borgara, hreyfihamlaðra eða sjúklinga að ylgarði er tryggt hefur það jákvæð áhrif til sparnaðar, t.d. í minni lyfjanotkun og færri innlagnardögum. Ylgarður er góð leið til að bjóða hvetja til samveru í indælu umhverfi.

Frumkvöðlar frá Norðurlöndunum sendu inn 417 hugmyndir í samkeppnina Nordic Independent Challenge 2015 og komst ylgarður EFLU  í 25 liða úrslit.



Var efnið hjálplegt? Nei