Rakaöryggi byggingaframkvæmda

16.04.2020

Blogg
Bygging að rísa, byggingakrani vinstra megin

Umfjöllun um byggingargalla í húsnæði sem leiða af sér rakavandamál og ótímabært viðhald hefur verið áberandi upp á síðkastið. EFLA hefur látið sig málið varða og átt fjölmörg samtöl við hagsmunaaðila í byggingariðnaðnum til að leita leiða til úrbóta í þessum efnum. Hlutaðeigandi aðilar eru sammála um að auka þurfi gæði þegar kemur að rakaöryggi í byggingum, en greinarhöfundar skilgreina hugtakið rakaöryggi sem „líkur á því að rakaástand í byggingarhlutum fari út fyrir skilgreind öryggismörk sem ráðast af rakaþoli byggingarefna“.
Starfsfólk byggingarsviðs EFLU skrifaði greinina

Rakavandamál hérlendis

Afleiðingar þess að rakaástand fari út fyrir öryggismörk geta til dæmis verið fúi í timbri eða trjákenndum efnum, örveru/mygluvöxtur í byggingarefnum, frostskemmdir, tæring málma, aukin útgufun frá byggingarefnum, aukin varmaleiðni í einangrandi byggingarefnum, rakabólgur og neikvæð áhrif á loftgæði og heilsu.

Til þess að reyna að leggja mat á umfang rakavandamála hérlendis er hægt að líta til rannsókna frá nágrannalöndum þar sem ummerki um rakaskemmdir fundust í 30% húsa í Noregi1 og 55% húsa í Finnlandi.2 Björn Marteinsson, dósent hjá Háskóla Íslands, hefur greint tíðni rakavandamála á Íslandi með því að senda út spurningalista á húseigendur. Þar kom í ljós að 30% húseiganda sem áttu hús sem voru fimm ára og yngri sögðu að þeir höfðu orðið varir við raka/leka.3 Búast má við að enn hærra hlutfall kæmi í ljós ef húsin væru rannsökuð af fagaðilum í stað þess að senda spurningalista á húseigendur. Í tilfellum um leka eða raka í húsum sem eru fimm ára eða yngri má líklegast rekja ástæðuna til byggingargalla en ekki skortur á viðhaldi hússins.

Vandamál af þessu umfangi hljóta að hafa neikvæð áhrif á traust á byggingariðnaðinn ásamt því að vera afar kostnaðarsöm. Ólafur H. Wallevik hjá Rannsóknarstofu byggingariðnaðarins telur að samfélagslegur kostnaður vegna rakavandamála sé af stærðargráðunni 10 milljarðar á ári á Íslandi.4

Á Íslandi er verið að notast við lausnir í byggingariðnaði sem virðast ekki tíðkast í nágrannalöndum okkar.
Til dæmis er það algengt hérlendis að steypt hús séu einangruð að innan og þök sem eru einangruð á milli sperra hafa almennt þynnra loftbil hérlendis en annars staðar og klæðning er ekki lektuð.

Vitneskjan um hvernig eigi að koma í veg fyrir rakavandamál er til staðar en það þarf að miðla henni áfram til þeirra sem starfa í byggingariðnaði, við hönnun og eftirlit, framkvæmdar- og rekstraraðila. Tilraunir stjórnvalda á Íslandi til þess að auka vægi rakaöryggis við hönnun og framkvæmd er tilgreind í greinargerð um einangrun og raka í skoðunarhandbókum Mannvirkjastofnunar. Krafan um skil á þessari greinargerð hefur verið til staðar frá 2012 en það virðist ekki hafa tíðkast að henni sé skilað inn.

Umfang rakavandamála i´Noregi og Finnlandi

Umfang rakavandamála í nágrannalöndum.

Umræða við fagaðila og hagsmunaaðila

Á árinu 2018 stóð EFLA fyrir sautján umræðufundum um rakaöryggi með ýmsum fagaðilum og þau umræðuefni sem komu ítrekað fram voru eftirfarandi:

  • Fagsvið fellur á milli arkitekta og verkfræðinga
  • Mikið um óvönduð vinnubrögð á markaði
  • Strangt eftirlit með hönnunargögnum en lítið eftirlit með því að hönnunargögnum sé framfylgt
  • Engin gögn um hvort að hönnunargögnum hafi verið fylgt við framkvæmd
  • Almennt lítil þekking á varma- og rakaflæði
  • Tilhneiging aðila til að forðast ábyrgð leiðir til minni samvinnu

Verklag EFLU

Grunnur ráðgjafar um rakaöryggi liggur í því að taka til greina alla helstu þætti sem snúa að upptökum raka og flutningsleiðum. Við mat á rakaöryggi fylgir Efla þar til gerðum gátlistum og metur hvaða atriði eiga við í hvert sinn.

Uppsprettur

  • Úrkoma
  • Raki í lofti innandyra og utandyra
  • Byggingarraki (umfram raki frá framkvæmdartíma)
  • Jarðraki
  • Ofanvatn
  • Vatnsnotkun innandyra
  • Leki frá lögnum

Flutningsleiðir

  • Rakasveimi (e. diffusions) rakaflutningur vegna mismunandi gufuþrýstings
  • Rakastreymi (e.convection) rakaflutningur vegna mismunandi loftþrýstings
  • Hárpípuvirkni
  • Vatnsflæði5

EFLA hefur á að skipa starfsmönnum sem hafa hvað mesta reynslu á ástandsskoðunum bygginga á Íslandi. Starfsfólk á sviðinu hefur skoðað þúsundir bygginga með tilliti til rakavandamála, hvort sem um er að ræða íbúðar- eða skrifstofuhúsnæði, og býr yfir sérhæfðri þekkingu í viðgerðum, viðhaldi, endurnýjun og breytingum á byggingum. Auk þess eru innan EFLU starfsfólk með áratugareynslu af ráðgjöf og rannsóknum á byggingareðlisfræðilegum þáttum.

Þannig hefur byggst upp mikil reynsla varðandi hvaða lausnir í byggingariðnaði virka og að sama skapa hvaða lausnir eru áhættusamar.

Með því að miðla þekkingu og reynslu inn í hönnun nýbygginga er hægt að draga úr áhættu á ótímabæru viðhaldi og rakavandamálum.

Frágangsdeili eru skoðuð með tilliti til hættu á leka, hættu á uppsöfnun á raka vegna rakasveimis eða rakastreymis, áhrif byggingarraka, mögulegrar útþornunar, kuldabrúaráhrifa og mögulegrar framkvæmdaráhættu. Lagt er mat á hvort það þurfi að gera betur grein fyrir ákveðnum frágangsdeilum.

Verklagsreglur við skoðun bygginga

Samkvæmt verklagi EFLU er byrjað á því að skoða gufuþrýsting og mettunarþrýsting í sniði byggingarhluta með glaseraðferðinni. Við matið er reiknað með óhagstæðum útiaðstæðum eða -15°C og 80% hlutfallsraka. Ef hætta er á rakaþéttingu í sniði er annað hvort skoðaðar aðrar lausnir eða gert betur grein fyrir rakaástandi með nákvæmari reikniaðferðum. EFLA framkvæmir hermanir í WUFI þar sem notuð eru klukkustundargildi frá Veðurstofu Íslands varðandi hitastig, loftraka, úrkomu, vindhraða og sólargeislun. Gagnaröð er skilgreind samkvæmt staðlinum ÍST EN 15026 sem fjallar um útreikninga á rakaflutningi með númerískum aðferðum. Í ákveðnum tilvikum eru snið skoðuð ítarlega þó svo að rakaþétting komi ekki fram með glaseraðferð, t.d. í tilvikum þar sem að talið er að áhrifaþættir s.s. sólargeislun, undirkælingu, slagregn, selta eða annað eru talin geta haft afgerandi áhrif.

Í byggingarreglugerð kemur fram að byggingarhlutar þurfa vera þannig úr garði gerðir að ekki verði uppsöfnun á raka, þ.e. að rakastig hækkar í byggingarhluta á ársgrundvelli. Krítísk skilyrði geta myndast án þess að uppsöfnun verði á raka í byggingarhluta á ársgrundvelli. Í byggingarreglugerð kemur einnig fram að mannvirki skulu hönnuð og byggð þannig að raki geti ekki skapað aðstæður fyrir myndun örveruvaxtar.

Aðferðir við að meta rakaskemmdir

Til eru nokkrar aðferðir við að meta áhættu á rakaskemmdum í byggingarhlutum. Fyrir timbur og trjákennd efni er oft litið á efnisraka en í ÍST EN 335 eru áhættumörk fyrir örveruvöxt skilgreind sem 20% efnisraki af þurri þyngd. Lægri áhættumörk fyrir efnisraka í timbri eru talin vera 18% af þurri þyngd6. Fyrir önnur byggingarefni er yfirleitt litið til hlutfallsraka og hitastigs en rakaþol er mjög mismunandi á milli byggingarefna, t.d. eru gifsplötur mun viðkvæmari fyrir raka en steinull. EFLA notast við niðurstöður ritrýndra rannsókna á rakaþoli byggingarefna. Ef upplýsingar um rakaþol byggingarefnis finnst ekki er reiknað með lægri áhættumörkum sem 80% HR og 0°C.6

Ráðgjöf EFLU miðar við að hönnun og framkvæmd sé þannig að rakaástand er alltaf undir lægri áhættumörkum fyrir rakaskemmdir.

Ef aðstæður kalla eftir frekari greiningum á mygluvexti þá notast EFLA við VTT módel fyrir mygluvöxt. Módelið er þróað af rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins í Finnlandi og byggir á rannsóknum Viitanens á örveruvexti. Módelið er hluti af forritinu WUFI og tekur til greina þróun hlutfallsraka og hitastigs, gerð byggingarefnis og spírunartíma.

Flækjustig verkefna

Með auknu flækjustigi og í stærri verkefnum eru taldar meiri líkur á að eitthvað fari úrskeiðis hvað raka varðar með tilheyrandi óþægindum og kostnaði við að lagfæra slíkt. Þess vegna er talið er að ráðgjöf varðandi rakaöryggi eigi sérstaklega við í verkefnum þar sem eftirfarandi á við:

  • Notkun á nýjum byggingarefnum/nýjum byggingaraðferðum
  • Flóknar byggingar
  • Mikill byggingarhraði
  • Alþjóðavæðing/innfluttar lausnir – þekking um staðhætti geta týnst
  • Óhefðbundnar byggingaraðferðir
  • Mikið rakaálag, sundlaugar og annað þess háttar
  • Stórar byggingar, kerfisbundinn galli væri stórtjón
  • Kröfur vegna starfssemi í húsi (sjúkrahús, flugvellir, opinberar byggingar)
  • Friðaðar byggingar
  • Endurbætur/breyting á starfssemi eða notkun húss

Hvert atriði sem dregur úr áhættu á rakavandamálum á hönnunar- eða framkvæmdarstigi yfir líftíma byggingar er verðmætt. Samkvæmt lögmáli Murphys mun það sem getur farið úrskeiðis gera það, fyrr eða síðar.

Heimildir

  1. Becher, R., Høje, A.H., Bakke, J. V., Holøs, S. B., & Øvrevik, J. (2017). Dampness and Moisture Problems in Norwegian Homes. International Journal of Environmental Research and Public Health

  2. Nevalainen, A., Partanen, P., Jääskeläinen, E., Hyvärinen, A., Koskinen, O., Meklin, T., Vahteristo, M., Koivisto, J., Husman, T. Prevalence of Moisture Problems in Finnish Houses. Indoor Air 1998, 8, 45–49

  3. Mannvirkjastofnun

  4. Listar úr SINTEF tímariti 421.132 Fukt i bygninger. Teorigrunnlag

  5. SINTEF blað 700.119 Fukt i bygninger. Uttørking