Öruggt og þægilegt vinnuumhverfi

18.01.2024

Fréttir
Maður.

Benedikt Guðbrandsson.

„Ég er að vinna að Rannís nýsköpunarverkefni sem tengist úrgangsmálum á Íslandi með einum gömlum skólafélaga úr HÍ. Við erum að rannsaka lausn á sorpvandamáli Íslands,” segir Benedikt Guðbrandsson, 23 ára Árbæingur, sem var í hópi sumarstarfsfólks EFLU árið 2023.

Auðvelt að fá aðstoð, hugmyndir og ráð

Benedikt lauk BS námi í efnaverkfræði frá Háskóla Íslands en stundar nú mastersnám í Konunglega Tækniháskólanum í Stokkhólmi. Þar leggur hann stund á Chemical Engineering for Energy and Environment eða efnaverkfræði með sérstaka áherslu á orku og umhverfi.

Síðasta sumar voru fyrstu kynni Benedikts af starfi hjá EFLU. Hann segir spennandi að fá loksins að vinna við eitthvað sem hann er fást við í skólanum og þar sem þekkingin úr náminu nýtist í raun. „Í því felst upplýsingaöflun um m.a. fýsileikakönnun og tæknilausnir. Samhliða þessu verkefni fæ ég smærri aukaverkefni en t.d. var eitt þeirra að kanna möguleikann á að nýta metangas úr urðunarhólfi í kornþurrkun hér á landi. Verkefnin eru mjög opin og krefjast aðallega rökhugsunar” útskýrir Benedikt.

Benedikt er ánægður með þær móttökurnar hjá EFLU og segir samstarfsfólk hafa aðstoðað hann mikið. „Vinnuumhverfið er öruggt og þægilegt sem hvetur mann til að spyrja spurninga og læra af öðrum. Það hefur gengið vel að takast á við verkefnin þar sem það er auðvelt að fá aðstoð, hugmyndir og ráð. Starfsfólkið hjá EFLU kemur úr fjölbreyttum starfsgreinum og er á mismunandi aldri en myndar góða heild,” segir Benedikt.

Lærdómurinn er ekki síst fólginn í því að fá að takast á við raunveruleg verkefni. Stóri munurinn frá skólaverkefnunum sé hugarfarið: „hér veit maður að vinnan sem maður leggur fram mun koma að góðum notum. Því vill maður skila af sér góðu verkefni sem maður verður stoltur af. Maður lærir margt og mikið um raunverulega heiminn,” segir Benedikt.

Framtíð Benedikts er að mestu óráðin að frátöldu meistaranáminu í Svíþjóð: „þegar ég lýk námi mun ég bara sjá hvað bíður. Ég vil vera opinn fyrir öllu en EFLU mun ég án efa hafa á bakvið eyrað,” segir hann að lokum.