Starfsfólk EFLU birtir grein í virtu bandarísku tímariti

15.01.2024

Þorp séð frá hafi.

Majid Eskafi og Björgvin Brynjarsson, sérfræðingar hjá EFLU, birtu nýlega grein í bandaríska tímaritinu American Society of Civil Engineers Journal of Waterway, Port, Coastal and Ocean Engineering. Tímaritið er það virtasta á sínu sviði í Bandaríkjunum. Greinina skrifuðu þeir í samstarfi við Sigurð Sigurðarson og Kjartan Elíasson, verkfræðinga hjá Vegagerðinni.

Um rannsóknina

Greinin, „Icelandic-Type Berm Breakwater: A Nature-Based Structure with a Low Carbon Footprint,“  fjallar um rannsókn á byggingu umhverfisvænna strandmannvirkja og hlaut þann heiður að vera valin sérstaklega af ritstjóra tímaritsins sem hápunktur tölublaðsins.

Auknar áskoranir vegna loftslagsbreytinga hafa skapað grundvöll fyrir frekari þróun á vistvænum lausnum við byggingu strandmannvirkja og þar spilar byggingarferlið lykilhlutverk.

Rannsakaður var hnatthlýnunarmáttur (GWP) vegna byggingar strandmannvirkja útfrá vali á byggingarefni. Niðurstaðan var að val á byggingarefni hefur töluvert að segja um áhrif framkvæmdanna á loftslagið.  

Með vistferilsgreiningu (LCA) reiknuðu höfundar greinarinnar kolefnisspor byggingarefna í tveimur mannvirkjum af sitthvorri gerðinni og gátu þannig metið hvor þeirra kæmi betur út.