Tækifæri í alvöru verkefnum

10.01.2024

Fréttir
Maður.

Haukur Friðriksson, umhverfis- og byggingarverkfræðingur.

„Þetta var virkilega spennandi tími og allir af vilja gerðir til að hjálpa mér að komast inn í verkefnin af krafti,” segir Haukur Friðriksson, umhverfis- og byggingarverkfræðingur, sem var hluti af hópi sumarstarfsfólks EFLU sumarið 2023.

Samstarfsfólkið hjálplegt

Haukur er 25 ára og stundar meistaranám í burðarþolsverkfræði í Chalmers University of Technology í Gautaborg. Hann starfaði hjá EFLU í fyrsta skipti síðasta sumar. „Ég held að það hafi gengið bara mjög vel. Ég fékk mikla aðstoð innanhúss en það er mjög mikið af gögnum sem þarf að taka tillit til. Ég þurfti líka að kynna mér hönnunarferla og gagnastrúktúra, sem getur verið flókið í svona sérhæfðum geira,” útskýrir Haukur.

Hann sinnti aðallega verkefnum tengdum raforkumannvirkjum, bæði á Íslandi og í Svíþjóð. „Ég vann mestan tímann við undirstöðuhönnun á háspennumöstrum í Horred-Breared línunni, sem liggur rúma 30 km sunnan við Gautaborg. En ég vann einnig í jarðkönnunum á fyrirhuguðum mastrastæðum fyrir Holtavörðuheiðalínu 1 hér á Íslandi,” segir Haukur.

Hann segir að starfsfólk EFLU hafi verið einkar hjálplegt og tekið vel á móti honum. „Bæði innan teymisins og utan þess. Fyrstu tveir dagarnir fóru alfarið í að læra inn á húsnæðið og EFLU sem fyrirtæki svo ég vissi alltaf hvernig ég ætti að snúa mér. Síðan þá hafa öll hérna verið ekkert nema almennileg og lipur við að taka á móti mér,” segir Haukur.

Maður úti á túni.

Finna bestu niðurstöðuna

Hann er á því að reynsla sumarsins eigi eftir að nýtast honum vel í framtíðinni. „Í gegnum mína skólagöngu hef ég ekki oft fengið að velja lausnir til að máta að verkefnum. Þess í stað hefur meira verið einblínt á að beita ákveðnum kerfum eða aðferðum við að leysa verkefni. Til dæmis að velja víddir á sökkli svo hann beri ákveðið álag,” rifjar Haukur upp.

Hjá EFLU hafi hann hins vegar fengið tækifæri til að nýta þekkinguna á annan hátt. „Hérna kem ég að því að velja hvernig undirstöðu skal byggja, hvort skipta eigi út jarðvegi, hvort jafna eigi út landslagið eða láta leggina vera mislanga o.s.frv. Maður fær að hugsa um verkefnin í stærra samhengi. Þar er allt mögulegt og það er þitt hlutverk að finna bestu niðurstöðuna,” segir Haukur.

Hann segist hafa áhuga á því að snúa aftur til starfa hjá EFLU eftir að námi lýkur. „Ég vonast til að koma aftur til EFLU og starfa í raforkumannvirkjum, hvort sem ég flytji strax aftur heim til Íslands eða vinni á sænsku skrifstofunni í Stokkhólmi,” segir Haukur að lokum.