Sjálfbærni- og ársskýrsla EFLU
Sjálfbærni- og ársskýrsla hefur verið gefin út frá árinu 2015 og í þeim má finna upplýsingar um árangur og framgang fyrirtækisins. Þar er m.a. sagt frá mælanlegum umhverfismarkmiðum EFLU, verkefnum tengdum samfélagslegri ábyrgð, samfélagsuppgjör og birtar lykiltölur umhverfisþátta.
Efnisyfirlit
- Ársreikningur
Fjárhagsyfirlit EFLU samstæðunnar 2020-2022. - Árangur EFLU
Verðlaun og viðurkenningar EFLU árið 2022. - Verkefni 2022
EFLA hefur verið brautryðjandi í að kynna og innleiða nýsköpun þar sem vistvæn nálgun er höfð að leiðarljósi. - Menning EFLU
EFLA hefur á að skipa hæfu, reynslumiklu og áhugasömu starfsfólki, sem starfar á fjölbreyttum sviðum. - Umhverfismarkmið og árangur á Íslandi
EFLA vinnur eftir umhverfis-, öryggis- og samgöngustefnuog hefur sett sér markmið um að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum starfseminnar. - UFS Samfélagsuppgjör EFLA
EFLA birtir í annað sinn í samfélagsskýrslu sinni samfélagsuppgjör út frá UFS leiðbeiningum frá Nasdaq, Viðskiptaráði Íslands og fleirum.
EFLA - allt mögulegt
Allt er breytingum háð og það er óhætt að segja að við lifum á tímum sífelldra og hraðra breytinga. Ástæður breytinganna eru margvíslegar, sumar sjáum við fyrir en aðrar koma eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þannig höfum við um margra ára skeið séð fyrir að breytingar eru að verða á andrúmslofti og náttúru jarðarinnar vegna aukinnar mengunar. Fæstir sáu hins vegar fyrir að á síðasta ári myndi hefjast stríð í Evrópu. Í báðum tilfellum er um að ræða breytingar af manna völdum, breytingar sem hafa í för með sér auknar hættur og hörmungar fyrir milljónir manna ef ekki er brugðist við. Mannkynið hefur vissulega brugðist við vegna hlýnunar jarðar, en flestir eru sammála um að þau viðbrögð séu of svifasein og alls ekki nægjanlega öflug né markviss. Fjöldi ríkja hefur brugðist við ákalli Úkraínu um aðstoð í stríðinu við Rússa, en margir gagnrýna jafnframt að viðbrögðin þurfi að vera sneggri, öflugri og markvissari.
Bæði loftlagsbreytingar og stríðið í Úkraínu hafa skerpt fókusinn á mikilvægi þessa að þjóðir heims nýti tækni og þekkingu til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þrátt fyrir að Ísland sé í kjörstöðu þegar kemur að nýtingu grænna orkugjafa og geti verið leiðandi á því sviði höfum við sofið á verðinum undanfarin ár og nú er svo komið að stefnt getur í orkuskort á næstu árum. Á sama tíma og nágrannar okkar í Evrópu horfa upp á himin hátt orkuverð og þurfa jafnvel að gefa eftir í markmiðum sínum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda bendir margt til þess að markmið Íslands fyrir 2030 um að draga úr losun muni ekki nást og að hafa verði hraðar hendur ef markmiðin fyrir 2040 eiga að nást.
Við höfum eytt síðast liðnum áratug í að karpa um hvort og hvar eigi að virkja en engar ákvarðanir tekið. Ákvarðanafælni er að verða okkar versti óvinur. Við sem samfélag verðum að þora að taka ákvarðanir, finna leiðir sem meirihlutinn er sáttur við og hefjast svo handa við að vera sú leiðandi þjóð í nýtingu grænnar orku sem við höfum alla burði til að vera.
Við hjá EFLU erum svo heppin að hafa á að skipa sérfræðingum á fjölmörgum þekkingarsviðum sem hafa verið leiðandi í að finna nýjar, grænar lausnir.
EFLA tekur samfélagslega ábyrgð sína alvarlega og hefur sett sér krefjandi markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka sóun. Þetta á bæði við um eigin rekstur og ekki síður í þeim verkefnum sem við vinnum með viðskiptavinum okkar. Þannig leggjum við okkar af mörkum, sem hluti af stærri heild. Því það er ekkert eins öflugt og samtakamátturinn þegar takast þarf á við stór og flókin verkefni, þá er allt mögulegt.
Hér eftir sem hingað til ætlar EFLA að láta til sín taka og vera brautryðjandi við úrlausn brýnna
samfélagsverkefna. Árs- og samfélagsskýrsla EFLU er ætluð til að sýna svart á hvítu hvaða markmið við höfum sett okkur og hvaða árangri við höfum náð á öllum sviðum í rekstri fyrirtækisins. Upplýsingar og gagnsæi eru einmitt lykilþættir í rekstri samfélagslegra ábyrgra fyrirtækja.
Sæmundur Sæmundsson
framkvæmdastjóri EFLU.