Byggingar

Hús íslenskunnar

Nýtt og glæsilegt mannvirki, Hús íslenskunnar, er að rísa við Arngrímsgötu í Reykjavík. EFLA sinnti hlutverki byggingarstjóra í verkefninu auk þess að sjá um hljóðvistarhönnun, bruna- og öryggishönnun og umhverfisráðgjöf í tengslum við BREEAM vistvottun.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Framkvæmdasýsla ríkisins

Verktími
2019 - 2022

Staðsetning
Arngrímsgata 5, 101 Reykjavík

Tengiliður

  Um hvað snýst verkefnið

  Hús íslenskunnar verður á þremur hæðum auk bílakjallara undir hluta þess. Heildarfermetrar hússins er 6.500 fermetrar auk 2.200 fermetra bílakjallara. Húsnæðið kemur til með að verða miðstöð rannsókna og kennslu í íslenskum fræðum; tungu, bókmenntum og sögu ásamt því að hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands. 

  Húsið mun sömuleiðis varðveita frumgögn um íslenska menningu; handrit, skjöl, orða- og nafnfræðisöfn og þjóðfræðasöfn.

  Framkvæmdir við Hús íslenskunnar hófust í júlí 2019 og er áætlað að byggingarframkvæmdum ljúki um sumarið 2022 og að húsið verði tekið í notkun á árinu 2023.

  Umhverfismál

  Húsið var hannað og byggt samkvæmt umhverfisvottunarstaðli BREEAM og var tekið tillit til umhverfisáhrifa byggingarinnar yfir allt vistferli hennar.

  Hlutverk EFLU

  Byggingarstjórn og framkvæmdaeftirlit

  Framkvæmdaeftirlit og byggingarstjórn var í höndum EFLU en í því fólust m.a. allar áfangaúttektir samkvæmt kröfum byggingarreglugerðar. Einnig var fylgst með því að allt efni, sem notað var við framkvæmdirnar uppfyllti kröfur staðla og reglugerða.

  Hljóðvist

  Mikil áhersla var lögð á vandaða hljóðvist í húsinu og er miðað við að uppfylla kröfur er gerðar eru til skóla- og skrifstofubygginga bæði er snýr að lofthljóðeinangrun og högghljóðstigi.

  Umhverfisvottun

  EFLA sinnti hlutverki ráðgjafar í tengslum við vistvottun húsnæðisins. Stefnt er að því að húsið verði vottað skv. kröfum BREEAM.

  Bruna- og öryggishönnun

  Við brunahönnun byggingarinnar voru m.a. gerðir reykflæðiútreikningar, flóttaleiðir skilgreindar og virkni brunatæknilegra kerfa við rýmingar- og viðbragðsmál tryggð. Sérstök áhersla er lögð á að vernda handritin, sem eru í vörslu Árnastofnunar.

  Hönnuðir hússins eru Hornsteinar arkitektar, Verkís og Lota og sér Ístak um framkvæmdina. EFLA sá um bruna- og öryggishönnun og hljóðhönnun hússins ásamt því að veita umhverfisráðgjöf í tengslum við BREEAM vottun. Það er Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR) sem sér um framkvæmdina.

  Ávinningur verkefnis

  Húsnæðið kemur til með að varðveita þau íslensku handrit sem skilað var frá Danmörku og sinna mikilvægu hlutverki varðandi íslenska tungu og fræði. 


  Var efnið hjálplegt? Nei