Ferðaþjónusta

Raufarhólshellir | Uppbygging

Raufarhóll ehf, Þrengslavegur, Hellir, Hellaskoðun

Hönnun og aðstoð við framkvæmdir við uppbyggingu staðarins fyrir ferðaþjónustu. Bílastæði var stækkað, þjónustuhús byggt ásamt öllum veitum fyrir það ásamt gönguleiðum, pöllum og lýsingu inni í hellinum.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Raufarhóll ehf

Verktími
jún. 2016 - 2017

Staðsetning
Þrengslavegur

Tengiliðir

Um hvað snýst verkefnið

Umgengni um Raufarhólshelli og slys í honum voru orðið mikið vandamál svo landeigendur fengu Raufarhól ehf til að byggja staðinn upp til að vernda hellinn, gera fólki mögulegt að njóta hans með öruggari hætti og stýra umferð um hann. 

Í ljósi ríkrar reynslu starfsmanna af sambærilegum verkefnum var EFLA fengin til að fylgja verkefninu alla leið, frá hönnun til lokaframkvæmda. EFLA aðstoðaði við leyfismál og skipulag, hönnun aðkomu, bílastæðis og stíga, göngupalla í hellinum og hönnun raflagna og lýsingar í samráði við jarðfræðinga og leiðsögumenn sem sýna munu hellinn. 

Mikil áhersla var lögð á öryggismál og því þurftu jarðverkfræðingar að meta hellisloftið með tilliti til hrunhættu. Staðsetning stíga og palla í hellinum var fyrst og fremst valin út frá öryggissjónarmiðum en einnig þurfti að velja bestu leið með tilliti til stórgrýtis á botninum og íss sem safnast upp í hellinum á veturna. EFLA vann því mikið samræmingarverk og aðstoðaði við val á verktökum til að útkoman yrði sem allra best en framkvæmdir í helli sem þessum eru á margan hátt mikil áskorun.

Umhverfismál

Þar sem verkefnið felst í að gera náttúrperlu aðgengilegri og öruggari var lögð mikil áhersla á verndargildi og afturkræfni framkvæmda í hellinum. Einnig var mikil áhersla lögð á að menga ekki grunnvatn en vatnsvernd er á svæðinu. Vegna vatnsverndarinnar var gætt að öllu efnisvali og sérstök úrfærsla gerð á fráveitu til að draga úr mengun frá svæðinu.

Hlutverk EFLU

  • Verkefnisstjórnun og hönnunarstjórnun
  • Skipulagsmál og leyfismál
  • Öryggisúttekt á hellinum
  • Hönnun á bílastæði og stígum
  • Hönnun á göngupöllum í hellinum
  • Lýsingarhönnun og hönnun rafkerfis í hellinum
  • Hönnun á veitum að og frá svæðinu, þ.e. vatnsveitu, fráveitu og rafveitu
  • Aðstoð á framkvæmdatíma

„Að byggja aðstæður í og við helli er tæknilega mjög krefjandi þar sem þú þarft að aðlaga þig að verndun náttúrunnar og tryggja um leið upplifun þeirra sem þangað sækja til að njóta. 

Við erum mjög ánægðir að hafa valið EFLU með okkur í að leysa þetta verkefni og útkoman talar sínu máli.“

Hallgrímur Kristinsson
framkvæmdastjóri The Lava Tunnel

Lýsingarhönnun

Lýsingarhönnun og ljósastýring Raufarhólshellis gegnir mikilvægu hlutverki og er henni ætlað að auka stemningu svæðisins og skapa eftirminnilega upplifun. Markmið lýsingarhönnunar var að kalla fram sterkt samspil skugga og ljóss og ná fram sem náttúrulegustum litum. Lýsing skyldi stigmagnast eftir því sem innar væri komið í hellinn og lýsa vel upp jarðfræðilega hápunkta hellisins. Göngustígalýsing var hönnuð með það í huga að spila vel saman við umhverfið með hnitmiðaðri og lágtónaðri birtu.

Þá miðaði hönnunin við að allur rafbúnaður yrði sem minnst sjáanlegur og allar framkvæmdir tengdar lýsingu og raflögnum væru að fullu afturkræfar.

Verðlaun og tilnefningar

Lýsingarhönnun Raufarhólshellis fékk Íslensku lýsingarverðlaunin 2017 í flokki útilýsingar og var að auki tilnefndur til Norrænu lýsingarverðlaunanna. Þá fékk hönnunin alþjóðlegu lýsingarverðlaunin Darc Awards 2018.

Ávinningur verkefnis

Þess er vænst að hér eftir geti gestir notið hellisins mun betur og öruggar en áður. Fólk sem á erfiðara með gang mun eiga þess kost að sjá hellinn og öll aðstaða utan við hellinn verður til fyrirmyndar hvað salerni og þjónustu varðar.

Raufarhólshellir - LýsingarhönnunGöngustígum var komið fyrir í hellinum til að auðvelda allt aðgengi.

RaufarhólshellirEndastopp hellisins og lýsingu komið fyrir í syllum og á veggjum.

RaufarhólshellirVið einn af göngupöllum hellisins.

RaufarhólshellirVið upphaf framkvæmda, áður en göngustígum var komið fyrir.

Við eitt af þremur opum hellisins.

Magnaðir litir í hellinum.
Var efnið hjálplegt? Nei