Ferðaþjónusta

Útsýnispallur á Bolafjalli

Verkefnið felst í hönnun útsýnispalls á Bolafjalli við Bolungarvík. Stefnt er á að pallurinn verði sterkur ferðamannasegull þar sem hægt verður að njóta stórbrotins útsýnis yfir Ísafjarðardjúpið. EFLA sá um alla verkfræðiráðgjöf í verkefninu.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Bolungarvíkurkaupstaður

Verktími
2019-2021

Staðsetning
Bolafjall við Bolungarvík

Tengiliðir

Um hvað snýst verkefnið

Haldin var hönnunarsamkeppni vegna mótunar landsvæðis á Bolafjalli árið 2019. Teymi Sei Studio, Argos og Landmótunar bar sigur úr bítum með tillögu sem fól meðal annars í sér byggingu 60 metra langs útsýnispalls í halla niður með stórstuðluðum klettahamarinum. Samið var við EFLU um burðarþolshönnun mannvirkisins en ljóst var að útfærsla tillögunnar yrði krefjandi á marga vegu.

Festingar í klettahamarinn

Staðsetning útsýnispallsins var hönnuðum mikil áskorun, en pallur verður festur utan í þverhníptan klettahamarinn. Hönnuðum voru þröngar skorður settar með að festingar skyldu ekki vera sjáanlegar ofan dekks pallsins, og því ekki mögulegt að hengja hann fram yfir klettabrúnina. Til að uppfylla þessar kröfur þurftu allar festingar og burðarvirki pallsins að vera staðsettar undir honum. Niðurstaðan varð sú að bora um hundrað bergbolta í klettahamarinn, jafnt til gerðar tengipunkta fyrir burðarvirkið, sem og að negla stuðla bergsins saman og tryggja þar með festu þeirra.

Þegar tengipunktar burðarvirkisins voru ákveðnir var mikilvægt að næg festa yrði til staðar og því var stuðst við þrívíddarlíkan sem gert var með yfirborðsmælingum af klettahamrinum þar sem gögnum var safnað með drónaflugi. Með hjálp líkansins mátti forðast að tengipunktar hittu á sprungur, laus jarðlög eða klettanibbur.

Vindgreiningar framkvæmdar

Önnur áskorun fyrir hönnuði voru gífurlegir veðuröfgar umhverfis Bolafjall. Gera þarf ráð fyrir mikilli snjósöfnun á pallinum, þar sem hann stendur fyrir neðan klettabrúnina, fyrir opnu hafi og reynsla heimamanna á þá vegu að mikil ísing geti myndast á svæðinu. Mest verður pallurinn um það bil 2,5 metra neðan klettabrúnar, og því ljóst að snjófarg getur orðið umtalsvert. Það álag bliknar þó í samanburði við vindálagið sem reikna má með að reyni á pallinn. Hjá EFLU starfa sérfræðingar á sviði vindgreininga og sáu þeir um að gera reiknilíkan af vindafari á svæðinu svo hægt væri að áætla vindálag á pallinn sem magnast við þær sérstöku aðstæður þar sem pallurinn er byggður.

Umhverfismál

Mikilvægt er að halda landinu að sem mestu óspjölluðu að framkvæmdum loknum til þess að heildarásýnd svæðisins haldist náttúruleg og undirstriki þá ósnortnu náttúrufegurð sem þar er til staðar. Það var því einn af þeim þáttum sem tekið var tillit til við ákvörðun á tilhögun framkvæmdarinnar og hönnun festinga við bergið.

Hlutverk EFLU

  • Burðarþolshönnun
  • Framkvæmdaráðgjöf
  • Jarðtækniráðgjöf
  • Vindgreining

Bolafjall - útsýnispallurMikilvægt verður að halda svæðinu að sem mestu ósnortnu að framkvæmdum loknum. Mynd: Sei Studio.

Bolafjall - útsýnispallurBolafjall er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og frá fjallinu stórbrotið útsýni. Mynd: Sei Studio.


Var efnið hjálplegt? Nei