Glerárvirkjun
Í Glerá á Akureyri eru tvær smávirkjanir sem sjá bæjarfélaginu fyrir rafmagni. EFLA hefur komið að virkjununum með ýmsum hætti, m.a. með forathugunum, hönnun og verkefnastjórnun.
Um hvað snýst verkefnið
Glerárvirkjun I var tekin í notkun 1922 og framleiddi rafmagn fyrir heimilin í bænum fram á sjöunda áratuginn. Virkjunin var endurbyggð árið 2014 og sá EFLA (áður Verkfræðistofa Norðurlands) þá um áætlanir, hönnun og verkefnastjórnun. Í þó nokkurn tíma hefur verið horft til aukinnar orkuframleiðslu á Eyjafjarðarsvæðinu og virkjunarkostir í nærumhverfinu skoðaðir.
Athuganir leiddu í ljós að álitlegt væri að virkja Glerá á Glerárdal. EFLU var falið að gera frumáætlun sem sýndi að slíkt væri mögulegt, bæði fjárhagslega og tæknilega. Árið 2016 var hafist var handa við framkvæmdirnar við Glerárvirkjun II.
Fjölbreytt aðkoma að Glerárvirkjun II
Hlutverk EFLU að verkefninu fólst meðal annars í framleiðslu- og kostnaðaráætlun, tilkynningu framkvæmdar vegna úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum, frumhönnun og útboð vél- og rafbúnaðar auk pípuefnis, hönnun þrýstipípu, verkhönnun stíflu og aðstoð við eftirlit og umsjón framkvæmda.
Vatnið ferðast sex kílómetra
Sjö metra há stífla hefur risið á Glerárdal og fer vatnið þaðan eftir pípu sex kílómetra leið í stöðvarhús í Réttarhvammi ofan Akureyrar. Vélbúnaður sér síðan um að búa til rafmagnið og senda inn á dreifikerfi rafmagns Norðurorku á Akureyri.
Virkjunin var gangsett 5. október 2018.
Umhverfismál
Mikið var lagt upp úr góðum frágangi á svæðinu og sex km göngustígur lagður frá stöðvarhúsi að stíflu sem eykur við útivistarmöguleika á Glerárdal til muna. Rannsökuð voru áhrif virkjunarinnar á umhverfið m.a. var fiskgengd, fuglalíf og annað náttúrufar skoðað en virkjunin var þó ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Hlutverk EFLU
- Forathugun, kostnaðarleg og tæknileg
- Framkvæmdatilkynning (fyrirspurn um umhverfismat)
- Frumhönnun og útboð vél- og rafbúnaðar
- Hönnun þrýstipípu og val á efni
- Verkhönnun stíflu
- Aðstoð við eftirlit og framkvæmdir
Ávinningur verkefnis
Virkjunin bætir raforkuöryggi á Eyjafjarðarsvæðinu. Afl Glerárvirkjunar II er 3,3 MW og getur hún séð 5000 heimilum fyrir rafmagni sem er um 17% af almennri orkuþörf Akureyrar.
- 1 / 3
- 2 / 3
- 3 / 3