Göngubrú yfir Breiðholtsbraut
Ný göngu- og hjólabrú sem tengir saman Selja- og Fellahverfi í Breiðholti var tekin í notkun haustið 2018. EFLA sá um verkfræðihönnun brúarinnar ásamt hönnun göngu- og hjólastíga.
Um hvað snýst verkefnið
Nýja göngubrúin er veruleg samgöngubót og eykur umferðaröryggi gangandi og hjólandi á milli Fella- og Seljahverfa. Auk brúarhönnunar annaðist EFLA hönnun á endurbótum á stígum og lýsingu næst brúnni ásamt því að sjá um jarðkönnun. Brúin er bitabrú úr eftirspenntri steinsteypu í fjórum höfum, 3ja metra breið og 86 metra löng. Hún er hönnuð í samstarfi EFLU og Studio Granda og svipar að gerð og formi til göngubrúa sömu hönnuða yfir Hringbraut og Njarðargötu í Reykjavík. Lega brúarinnar og þversniðsform fylgja mjúkum ávölum línum sem falla að umhverfinu við Breiðholtsbraut. Með þægindi notenda í huga mætir brúin landi í nokkurri fjarlægð frá götunni.
Hönnun og útlit
Til að ná fram léttu yfirbragði var valið að fyrirskrifa hvíta steypu í sýnilegt steypuvirki brúarinnar. Notað var hvítt sement og ljóst fylliefni.
Til að lágmarka viðhaldskostnað er brúin hönnuð án lega og þensluraufa. Þess í stað eru brúarendarnir studdir af niðurgröfnum liðtengdum súlum sem leyfa formbreytingar brúarinnar við hitabreytingar án þvingunar. Aðrar burðarsúlur eru ryðfrí stálrör sem fyllt eru með steinsteypu.
Handriðið er gert úr stálrörum og neti úr ryðfríu stáli og er það einnig útfært með það fyrir augum að lágmarka viðhald og tryggja hámarks sjónlengdir fyrir notendur. Í hönnun var lögð áhersla á hreinleika tenginga í handriði. Við gerð handriðsins var beitt kerfisbundinni reisingaraðferð sem byggðist á innsteyptum stálþynnum og kjarnaborun fyrir stólpum. EFLA annaðist einnig eftirlit fyrir Vegagerðina við framkvæmdirnar, sem gengu vel.
Umhverfismál
Burðarvirki brúarinnar er úr eftirspenntri steinsteypu. Eftirspennt burðarvirki eru efnisminnstu steyptu burðarvirkin, þannig að val á þeim hefur jákvæð áhrif á ásýnd og lágmarkar um leið umhverfisfótspor mannvirkis. Öll útfærsla brúarinnar miðar að því að lágmarka viðhaldskostnað.
- Eftirspennt burðarvirki eru mjög þétt þannig að niðurbrotsvaldar ná síður að skaða steinsteypuna,
- Legu- og fúgulaus brúarlausn lágmarkar viðhald við brúarenda
- Ryðfrítt stál krefst ekki endurmálunar
Hlutverk EFLU
- Verkfræðihönnun brúarinnar
- Hönnun göngu- og hjólastíga
- Hönnun stígalýsingar
- Framkvæmdaeftirlit við byggingu brúarinnar
- Útlits- og ásýndarmótun brúarinnar ásamt arkitektum Studio Granda
- Jarðkönnun
Ávinningur verkefnis
Nýja göngubrúin er samgöngubót sem eykur verulega umferðaröryggi gangandi og hjólandi á leið milli Fella- og Seljahverfa. Brúin hefur verið mikið notuð allt frá opnun hennar haustið 2018.
- 1 / 4
- 2 / 4
- 3 / 4
- 4 / 4