Skrifstofubygging.

Hátæknisetur í Vatnsmýri fyrir Alvotech

ReykjavíkByggingar

Verkefnið fólst í hönnun á hátæknisetri Alvotech á sviði lyfjaþróunar og lyfjaframleiðslu. Stærð byggingarinnar er um 13.000 m2. Húsið er allt í senn framleiðslu-, rannsóknar- og skrifstofuhúsnæði.

Viðskiptavinur
  • Fasteignafélagið Sæmundur hf.
Verktími
  • 2013 - 2017
Þjónustuþættir
  • Áhættustjórnun og áhættugreiningar
  • Brunahönnun
  • Burðarvirki
  • Framkvæmdaeftirlit
  • Hljóðvistarráðgjöf
  • Loftræsihönnun
  • Lýsingarhönnun
  • Rafmagns- og tæknikerfi mannvirkja
  • Verkefnastjórnun

Um hvað snýst verkefnið

Byggingin, sem er í Vatnsmýrinni, er ein tæknivæddasta bygging landsins og með mikið af flóknum tæknikerfum. Undir öllu húsinu er kjallari sem nýtist sem bílastæðahús, tæknirými og lager fyrir fullunna vöru.

Í húsinu þróar, fullvinnur og pakkar Alvotech hátæknilyfjum í fljótandi formi.

EFLA sá um eftirfarandi þætti verkefnisins:

Burðarvirki
Húsið er á 3-4 hæðum auk kjallara sem er vatnsþéttur. Burðarkerfi hússins er steyptar súlur, plötur og veggir, að undanskildu skrifstofuhúsi sem er stálgrindarhús með samverkandi stál/steypu gólfum.

Efsta hæð hússins er stálgrindarhús með timburþakeiningum.

Rafkerfi
EFLA hannaði raf- og smáspennukerfi byggingarinnar og voru gerðar miklar kröfur til rekstraröryggis og uppitíma kerfa. Uppsett afl byggingarinnar er um 2.4 MW. Í kjallara eru þrír 1.250 KVA spennar, hver í sínu brunahólfi.

Álaginu er skipt upp á milli spenna þannig að einn spennir aflfæðir tvo gufukatla, annar tæknikerfin og sá þriðji almenn rafkerfi og lýsingu.

Til að auka enn frekar rekstraröryggi er varaaflsstöð í byggingunni auk UPS aflgjafa. Kröfur til aðgangsstýringar og öryggiskerfa eru miklar en EFLA sá um alla hönnun á miðlægu neyðarlýsingarkerfi og brunaviðvörunarkerfi ásamt eftirfylgni og eftirliti með framkvæmdunum.

Lýsingarhönnun
Jafnframt sá EFLA um lýsingarhönnun byggingarinnar, bæði almenna lýsingu sem og neyðar- og öryggislýsingu.

Hreinrýmin eru hönnuð eftir ströngum stöðlum með LED ljósum og innfeldum hreinrýmislausnum. Víða er lýsingin þar breytileg þannig að hægt er að velja á milli hvítrar og gulrar lýsingar, allt eftir kröfum framleiðslunnar hverju sinni.

Allir lampar eru með DALI ljósastýrikerfi, ljósgjafar eru ýmist LED eða T5 flúrperulampar. Á skrifstofusvæðum er ljósstreymi með 300 Lux almennri lýsingu ásamt því að hver vinnustöð hefur borðlampa. Mikil áhersla var lögð á þægilega lýsingu og rekstrarhagkvæmni.

Hljóðvist
Við hljóðhönnun húsnæðisins var lögð sérstök áhersla á vandaða hljóðvist vinnurýma, hljóðeinangrun á milli rýma og lágmörkun hljóðs frá tæknibúnaði innanhúss.

Þá var hávaði frá tæknibúnaði utandyra lágmarkaður eftir fremsta megni gagnvart nærumhverfi. Hljóðstig frá umferð var reiknað og útveggir byggingarinnar hannaðir í samræmi við niðurstöður útreikninganna.

Brunamál
Við brunahönnun byggingarinnar þurfti að beita margvíslegum aðferðum til að tryggja að brunavarnir væru aðlagaðar þeirri starfsemi sem þar fer fram.

Reykflæðiútreikningar voru gerðir fyrir hreinrými vegna áhrifa á flóttaleiðir og til að besta burðarvirki og val á búnaði.

Rýmingarútreikningar voru framkvæmdir fyrir fjölmennari svæði og litið til rekstraröryggis við útfærslu brunavarna. Þá voru virkni brunatæknilegra kerfa og tenging við rýmingar- og viðbragðsmál tryggð.

Áhættugreiningar
Gerðar voru áhættugreiningar vegna geymslu og meðhöndlunar hættulegra efna. HAZOP greining var gerð vegna gass, þar sem tekið var tillit til útfærslu byggingar, lagna, geymslufyrirkomulags og átöppunar.

Tölulegar áhættugreiningar voru gerðar fyrir margvíslega hættu í starfseminni.

Hlutverk EFLU

Aðkoma EFLU að hönnun og byggingu hússins var með fjölbreyttum hætti og var verkefnið hannað í þrívídd (Revit og MagiCAD). Miklar kröfur voru gerðar til hönnunar hússins vegna viðkvæmrar starfssemi og loftþéttni hreinrýma.

Viltu vita meira?