Iðnaður

Heilsuprótein | Sauðárkróki

Sauðárkrókur, Akureyri

EFLA hefur unnið að spennandi verkefni með Heilsupróteini ehf. Viðfangsefnið er smíði nýrrar verksmiðju á Sauðárkróki sem vinna mun próteinduft úr mysu sem fellur til við framleiðslu osta á Sauðárkróki og Akureyri.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Heilsuprótein ehf

Verktími
2016 - 2017

Staðsetning
Sauðárkrókur

Tengiliður

Um hvað snýst verkefnið

EFLA, í samstarfi við forsvarsmenn Heilsupróteins, hafði yfirumsjón með verkefninu og mun fylgja því allt að gangsetningu verksmiðjunnar. 

Framleiðsluferlið er hefðbundið og eru helstu einingar verksmiðjunnar: gerilsneyðing, UF sía, 400 bara dæla og láréttur þurrkari. Þurrkarinn er knúinn með heitu vatni, gufu og rafmagni. Orkugjafinn, sem er heitt vatn og gufa, er hannaður hjá EFLU í samstarfi við bandarísku fyrirtækin Customs Fabrication and Repair og Complete Filtration Resources. Þess má geta að EFLA hannaði svipaðan orkugjafa fyrir Mjólkursamsöluna á Selfossi þar sem undanrenna er þurrkuð. 

Starfsmenn EFLU hafa m.a. hannað gufu- og vinnslulagnir, spennustöð, móttöku fyrir mysuþykkni, auk allrar kerfishönnunar og forritunar. Þá mun EFLA sjá um CE merkingu búnaðarins.

Framleiðsla í nýju verksmiðjunni hófst um mitt ár 2017.

Hvernig er mysuprótein búið til?

Vinnsla mysupróteins felst í að þurrka mysu sem fellur til við ostaframleiðslu. Mysuprótein er verðmæt afurð sem notuð er í ýmis matvæli eins og vaxtarvörur og fæðubótarefni. Algengt er að íþróttafólk neyti mysupróteins, einnig þekkt sem "whey protein", til að auka vöðvauppbyggingu.

Mysa sem drykkur er Íslendingum að góðu kunn, því áður fyrr drakk fólk hana við þorsta. Mysa, eins og hún kemur frá ostavinnslu, er rík af próteini og fitusnauð. Til að varðveita próteinin verður að þurrka mysuna með "Ultra Fine" síun og loftþurrkun.

Tæknilega séð verður mysan til eftir hleypingu mjólkur í ostagerðinni. Efnainnihald mysunnar er fyrst og fremst allt sem er vatnsleysanlegt í mjólkinni eftir að sýrustig hennar hefur verið lækkað niður fyrir pH 4,6 í ostagerðinni. Í mysunni geta verið allt að 5% mjókursykurs ásamt steinefnum og mysupróteini. Algengasta geymsluaðferðin er þurrkun. 

Mikilvægt er að mysan sé rétt unnin því auðvelt er að skemma virkni próteinanna með t.d. of háu hitastigi og rangri meðhöndlun. Búnaður Mjólkursamlagsins er af nýjustu gerð, framleiddur af viðurkenndum framleiðanda.

Umhverfismál

Einn mikilvægasti þáttur verkefnisins er ábyrg nálgun við umhverfið á svæðinu. Til þessa hefur mysunni verið fargað og er því verið að sporna gegn sóun matvæla, minnka umhverfismengun og ná fram aukinni verðmætasköpun. 

Hlutverk EFLU

EFLA sér um alla samhæfingu verkefnisins og sér að auki um:

  • Iðntölvuforritun búnaðarins og stoðbúnaðar í núverandi verksmiðju
  • CE merkingar og samræmingar við tilskipanir Evrópusambandsins
  • Samskipti við birgja og vélaframleiðendur

EFLA hefur unnið í nánu samstarfi við Tengil ehf á Sauðárkrók en Tengill sér um hönnun og útboð raflagna og stjórn- og stýriskápa.

Ávinningur verkefnis

Verkefnið spornar við sóun matvæla, minnkar umhverfismengun og eykur verðmætasköpun. 


Var efnið hjálplegt? Nei