Inni í ísgöngum.

Ísgöngin Langjökli

LangjökullByggingar

Þróun ganga fyrir ferðamenn inn í jökulinn, sinna öllum undirbúningi og hönnun og hafa umsjón með framkvæmdum. Vegna eðlis verkefnisins var mikil áhersla lögð á umhverfis- og öryggismál.

Viðskiptavinur
 • Into the glacier ehf.
Verktími
 • 2010 - 2015
Þjónustuþættir
 • Áhættustjórnun og áhættugreiningar
 • Byggingarstjórnun
 • Framkvæmdaeftirlit
 • Lýsingarhönnun

Um hvað snýst verkefnið

Verkefnið er óvenjulegt fyrir þær sakir að EFLA þróaði verkefnið um langt skeið áður en samið var við verkkaupa um yfirtöku á því. Sumarið 2010 hóf EFLA að skoða möguleikann á gerð ísganga í Langjökli. Úr varð að EFLA myndi þróa verkefnið nógu langt til að mögulegir fjárfestar gætu lagt í það fjármagn án mikillar óvissu. Meta þurfti hvort slík göng yrðu örugg, hve lengi þau myndu endast og hve mikið slík framkvæmd myndi kosta. Í árslok 2013 var samið við Icelandic Tourism Fund um yfirtöku verkefnisins og um leið var samið um ráðgjöf við lúkningu þess.

Verkefnið fólst í að búa til nýjan, öruggan og eftirsóknarverðan ferðamannastað sem byggir á aðdráttarafli íslensku jöklana. Mikil vöntun var á nýjungum í ferðaþjónustu­geiranum og var verkefnið svar við því.

Snúin skipulags- og leyfismál

Í þróunarfasanum var lagt mat á öryggi, endingu og kostnað við ísgöngin en einnig unnið að öflun allra leyfa. Skipulags- og leyfismálin voru afar snúin vegna sérstöðu verkefnisins en með góðu samráði og kynningu tókst að veita verkefninu brautargengi.

Mat á öryggi, endingu og kostnaði hefur í öllum meginatriðum staðist. Ending hellisins er betri en áætlað var en kostnaður við verkefnið í heild varð um 500 milljónir króna ef með er talið þjónustuhús og öll tæki.

Verðlaunuð lýsingarhönnun

Lýsingarhönnun EFLU í ísgöngunum vann til hinna virtu og eftirsóttu Darc Awards verðlauna sem „Best Landscape Lighting Scheme“ ásamt því að vera valinn „Best of the Best“ eða sigurvegari allra tilnefndra verkefna árið 2016. Þess má geta að tilnefnd verk voru yfir 500 talsins.

Markmiðið með lýsingarhönnuninni var að gera sem mest úr upplifun gesta í jöklinum og leggja áherslu á náttúrulega liti jökulsins þannig að ísþykktin (massinn), árhringir og öskulög komist sem allra best til skila. Engir ljósgjafar eru sýnilegir og er jökullinn baklýstur að mestu leiti. Það var meðal annars gert með því að koma LED ljósgjöfum fyrir inni í ísnum en borað var fyrir ljósgjöfum (LED lengjum) í gólf, veggi og loft. Með þessari aðferð koma öskulög frá nýlegu eldgosi Eyjafjallajökuls vel í ljós.

Umhverfismál

Framkvæmdin var undirbúin í miklu og góðu samráði við alla leyfisveitendur, yfirvöld og opinbera aðila eins og; Borgarbyggð, Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun, Mannvirkjastofnun og Orkustofnun.

Framkvæmdin var tilkynnt til Skipulagsstofnunar með fyrirspurn um matsskyldu. Niðurstaðan var að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum en þó voru ýmis umhverfismál skoðuð rækilega á þessu stigi.

Sér í lagi voru áhyggjur vegna mengunarhættu á jöklinum og grunnvatni við framkvæmdir og rekstur. Niðurstaða þeirrar skoðunar var að mjög lítil hætta er talin á að jökullinn og grunnvatn geti mengast vegna starfseminnar.

Hlutverk EFLU í verkefninu

EFLA gegndi mjög margvíslegu hlutverki í verkefninu. Eins og áður segir var EFLA þróunaraðili verkefnisins í 3 ár áður en verkefnið var selt fjárfestingarsjóði. Þá tók EFLA við því hlutverki að vera tæknilegur ráðgjafi en sinnti samt sem áður ýmsum öðrum verkefnum allt þar til stofnað var félag utan um verkefnið og framkvæmdastjóri ráðinn. Jafnt og þétt var fyrirtækið byggt upp og tók það þar með yfir fleiri hlutverk.

Sem ráðgjafi sinnti EFLA nær öllu sem þurfti til að verkefnið yrði að veruleika:

 • Skipulags- og leyfismál. Breyta þurfti aðalskipulagi og vinna deiliskipulag fyrir svæðið. Afla þurfti ýmissa leyfa, svo sem starfsleyfis, framkvæmdaleyfis og leyfis frá Umhverfisstofnun.
 • Greina þurfti áhættur í verkefninu, við framkvæmdir og rekstur og bregðast við þeim. Unnin var öryggishandbók fyrir starfsmenn til að vinna eftir.
 • Öll tæknileg hönnun hellisins, lögun hans, loftræsing, afvötnun, lýsing, orkuöflun og lagnir.
 • Framkvæmdaeftirlit og mælingar á hreyfingum í ísnum.
 • Lýsingarhönnun og þátttaka í sýningarhönnuninni með Árna Páli Jóhannessyni.

Ávinningur verkefnis

Afurð verkefnisins er magnaður ferðamannastaður sem hefur notið mikilla vinsælda og hlotið ýmis verðlaun, líkt og fyrrnefnd Darc Awards lýsingarhönnunarverðlaun. Aðsókn í göngin hefur verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og strax á framkvæmdatíma vakti framtakið mikla athygli erlendis og innanlands.

Ákveðið var að auka umfang ganganna nægilega til að þau teldust stærsti manngerði jökulhellir í heiminum en rúmtak þeirra eru alls um 7000 rúmmetrar.

Viltu vita meira?