Landslag í náttúrunni.

Mat vegna vindorku og vatnsaflsvirkjunarkosta í Snæfellsbæ

SnæfellsnesOrka

Vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Snæfellsbæjar var óskað eftir að EFLA ynni mat á vindorku á fyrirfram skilgreindu svæði auk þess sem frumathugun á vatnsaflsvirkjunarkostum yrði framkvæmd innan sveitarfélagsins.

Viðskiptavinur
  • Snæfellsbær
Verktími
  • 2016
Þjónustuþættir
  • Mat á umhverfisáhrifum
  • Vatnsaflsvirkjanir

Um hvað snýst verkefnið

Verkefnið er tvíþætt. Kannaðir voru möguleikar á vindorkunýtingu á svæðinu umhverfis Gufuskála og sett fram tillaga um skipulag svæðisins. Einnig var framkvæmd forskoðun á vatnsaflsvirkjunarkostum í Snæfellsbæ.

Vindorka: EFLA útbjó yfirlitskort af öllu svæðinu sem sýnir orkuþéttleika og meðalvindhraða í 2-3 hæðum yfir yfirborði. Gróðurgögn og hæðarlínur voru settar inn í forrit sem reiknar orkuþéttleikann, metur vindinn og notar útkomuna í líkanagerð og hermun. Þá voru fundin veðurgögn og gögn úr loftslagslíkönum til að áætla vindafarið á svæðinu. Orkugeta svæðisins var metin, skoðaðar voru hentugar gerðir vindmylla, sýnileiki, hljóðvist og skuggaflökt reiknað út og niðurstöður teknar saman í skýrslu. Fjallað var um skipulagsmál og tillaga sett fram um hvað væri mikilvægt að kæmi fram í greinargerð aðalskipulags Snæfellsbæjar.

Vatnsaflsvirkjanir: EFLA áætlaði samkvæmt frumathugun sex virkjunarkosti í Snæfellsbæ sem koma til álita við úttektina. Lagt var mat á áætlaðan kostnað hverrar virkjunar og mælt með ítarlegri skoðun til að leggja raunhæft mat á mögulegar framkvæmdir.

Umhverfismál

Gerð var gróf athugun á mögulegum sjónrænum áhrifum, skuggaflökti og hljóðvist vegna vindmylla á fyrirfram skilgreindum iðnaðarsvæðum í Snæfellsbæ. Farið var yfir hvaða umhverfisþætti þyrfti að skoða nánar ef farið yrði út í nánari hönnun á vindlundi. Að auki voru leyfis- og skipulagsmál skoðuð gróflega.

Við forskoðun vatnsaflsvirkjunarkosta var yfirlit yfir líkleg umhverfisáhrif útbúið.