Brú í sólarlagi.

Brú yfir Eldvatn

Vestur SkaftafellssýslaByggingarSamgöngur og innviðir

Ný brú yfir Eldvatn, hönnuð af EFLU í samstarfi við Vegagerðina, er fyrsta netbogabrúin sem byggð er á Íslandi.

Viðskiptavinur
  • Vegagerðin
Verktími
  • 2017 - 2019
Þjónustuþættir
  • Hönnun brúa
  • Hönnun í BIM umhverfi
  • Jarðtækni og grundun

Um hvað snýst verkefnið

Um er að ræða 80 m langa brú sem flytur 8 metra breiða akbraut Skaftártunguvegar yfir ána.

Við mikla vatnavexti í Skaftárhlaupi árið 2015 gróf undan stöplum eldri brúar, með tilheyrandi skerðingu á burðargetu, sem leiddi af sér þörf á nýrri brú yfir ána. Með tilliti til jarðtæknilegra aðstæðna og tíðra flóða í ánni er ný brú staðsett neðar í ánni þar sem netbogabrú var talin ákjósanleg lausn til að þvera ána í einu hafi.

Brúarhafið er 80 m langt og flytur 8 m breiða akbraut Skaftártunguvegar yfir ána. Burðarvirkið samanstendur af 12 m háum frístandandi stálbogum með loftþéttum trapisulöguðum kassaþversniðum sem tengjast langbitum brúargólfsins í stífum tengingum í endum brúarinnar og þjóna langbitarnir sem togband við upptöku á háum þrýstikröftum sem verka í bogunum. 9 m langir þverbitar liggja á milli langbitanna og styðja steypt brúargólfið sem er samverkandi við stálvirkið. Gólfið hangir í neti hengistanga milli boga og langbita þar sem netfyrirkomulag stanganna lágmarkar vægiáraun í bogunum og stuðlar að mjög skilvirku burðarkerfi.

Brúarvirkinu ýtt út yfir ána

Stálvirki brúarinnar var smíðað í Póllandi og flutt á staðinn í einingum í mars 2018 þar sem einingarnar voru soðnar saman á syðri bökkum árinnar. Í framhaldi var 190 tonna þungu stálburðarvirkinu ýtt út yfir ána í vel heppnaðri þriggja daga aðgerð. Er þetta í fyrsta skipti sem brú er reist á þennan hátt á Íslandi en vökvatjakkar voru notaðir til að ýta brúnni yfir turna í árfarveginum og yfir á nyrðri brúarundirstöðuna. Í framhaldi voru forsteyptar einingar lagðar milli þverbita og samverkandi staðsteypt brúargólf steypt.

Netbogafyrirkomulagið gaf möguleika á að hanna þversnið boganna sem þynnst og er það, ásamt því að bogarnir eru ótengdir hvor öðrum í toppinn, einkennandi fyrir mannvirkið þar sem leitast var við að skapa létta ásýnd og takmarka uppbrot í flötu landslaginu.

Brúin er tilnefnd til Norrænu brúarverðlaunanna 2020.

Brú í smíðum.

Umhverfismál

Nákvæm greining og hönnun stálboganna miðar að því að fullnýta burðargetu stálþversniða svo skapa megi létta ásýnd yfirliggjandi burðarvirkis í landslaginu.

Netbogafyrirkomulag brúarinnar stuðlar að mjög skilvirkri dreifingu krafta í burðarkerfi brúarinnar og skapar hagkvæmt burðarvirki m.t.t. þess að lágmarka efnisnotkun og umhverfisfótspor mannvirkisins.

Hlutverk EFLU

  • Verkfræðihönnun brúarinnar
  • Gerð útboðsgagna
  • Eftirfylgni f.h. Vegagerðarinnar við stálframleiðslu og uppsetningu
  • Þjónusta við verkkaupa á framkvæmdatíma

Ávinningur verkefnis

Nýja brúin bætir vega- og umferðaröryggi og myndar nauðsynlega tengingu Skaftártunguvegar við hringveginn í stað gömlu brúarinnar sem skemmdist í hamfarahlaupi í Skaftá 2015. Þá er brúin fyrsta netbogabrúin sem byggð er á Íslandi og hefur hönnunarferli og bygging hennar skapað verðmæta reynslu m.t.t. brúargerðar á Íslandi.