Samgöngur

Göngubrýr yfir Hringbraut og Njarðargötu

EFLA, ásamt Studio Granda arkitektum, varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar um hönnun á þremur nýjum göngubrúm yfir Hringbraut og Njarðargötu í tengslum við færslu Hringbrautar. Verkið fól einnig í sér hönnun göngu- og hjólastíga.


Brýrnar hafa vakið athygli bæði hér heima og erlendis. Göngubrýrnar yfir Njarðargötu og Hringbraut hlutu Steinsteypuverðlaunin árið 2010 og viðurkenningu Vegagerðarinnar árið 2009 fyrir gerð og frágang mannvirkja.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Reykjavíkurborg og Vegagerðin

Verktími
2003-2005

Staðsetning
Reykjavík

Tengiliðir

Um hvað snýst verkefnið

EFLA, í samvinnu við Studio Granda arkitekta, hannaði tvær nýjar göngubrýr yfir nýju Hringbrautina auk nýrrar göngubrúar yfir Njarðargötu. Bogaform brúnna og mýkt í lögun yfirbyggingar þeirra hafa vakið verðskuldaða athygli. Yfirbygging brúnna er úr eftirspenntri steinsteypu, studd af hringlaga súlum úr ryðfríu stáli sem fylltar eru með steinsteypu.

Handrið brúnna var hannað til að gefa létt yfirbragð til samsvörunar við brúargólfið og er úr mjóum, ryðfríum rörum. Allar brýrnar eru samfelld burðarvirki, án þensluraufa.

  • Göngubrúin yfir Hringbraut við Njarðargötu er lengst brúnna, alls 169 m. Lengsta haflengd er 27.5 m og hæð yfirbyggingar er 70 cm. Brúin liggur í láréttum spíral frá friðlandinu í Vatnsmýrinni og í boga yfir Hringbrautina þar sem hún tengist göngustígum Hljómskálagarðsins sem og systurbrú sinni yfir Njarðargötu.
  • Þriðja brúin er sunnan við Landspítalann og er 86 m löng. Hún þverar Hringbrautina í skörpum, láréttum boga og endar brúin samsíða Hringbrautinni í suðri.

Brýrnar eru allar staðsteyptar og eftirspenntar sem reyndist hagkvæm lausn þar sem engin umferð var um vinnusvæðið á framkvæmdatíma.

Auk þess að gegna fagurfræðilegu hlutverki, eru bogaform brúnna vel til þess fallin að tengja saman aðliggjandi göngu- og hjólastíga. Hvítt sement, sem notað var í steypuna í brýrnar, undirstrikar ljósa og létta ásýnd mannvirkjanna.

Umhverfismál

Brúin yfir Hringbraut við Njarðargötu teygir sig inn að friðlandinu í Vatnsmýrinni sem setti legu brúarinnar skorður. Spíralform í suðurenda brúarinnar takmarkar rask við friðlandið en á sama tíma hækkar legu göngustígsins til að ná tilsettri hæð yfir Hringbrautina.

Uppspennt steinsteypa gerir hönnuðum kleift að minnka þversnið brúarinnar og þannig draga úr efnisnotkun og sýnileika og um leið minnka umhverfisfótspor mannvirkisins.

Hlutverk EFLU

  • For- og verkhönnun á tveimur nýjum göngubrúm yfir Hringbraut
  • For- og verkhönnun á nýrri göngubrú yfir Njarðargötu
  • Forhönnun á göngu- og hjólastígum
  • Gerð kostnaðaráætlunar og útboðsgagna
  • Þjónusta við verkið á framkvæmdatíma

Ávinningur verkefnis

Brýrnar hafa vakið athygli og unnið til verðlauna fyrir hönnun og frágang. Þær gegna mikilvægu hlutverki í göngu- og hjólastígakerfi borgarinnar auk þess sem þær stórauka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda um þessar umferðarþungu stofnæðar.

Hringbraut - brýr

Brú yfir hringbraut

Brú við HringbrautVar efnið hjálplegt? Nei