Samgöngur

Tvöföldun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði

Vegir, Vegur, Ásland, Strandgata, Krýsuvíkurvegur, Suðurholt, Vegagerðin

Í árslok 2020 lauk tvöföldun Reykjanesbrautar í Hafnarfirði. EFLA, ásamt undirráðgjöfum, sá um útboðshönnun og aðra ráðgjöf vegna framkvæmdarinnar, sem fólst í breikkun vegarins úr tveim í fjórar akreinar á 3,2 km kafla með tilheyrandi fráveitu- og lýsingarkerfum, göngustígum, umfangsmiklum hljóðvörnum, tveimur nýjum göngubrúm, breikkun vegbrúar og nýjum undirgöngum við Strandgötu, undirgöngum við Suðurholt og mislægum vegamótum við Krýsuvíkurveg.

Upplýsingar um verkefnið

Verkkaupi
Vegagerðin og Hafnafjarðarbær

Verktími - Hönnun
2009-2010, 2013, 2017-2021
Framkvæmd
2013, 2017, 2019-2020

Staðsetning
Reykjanesbraut í Hafnarfirði

Tengiliðir

Um hvað snýst verkefnið

Markmiðið með framkvæmdinni er að bæta umferðarflæði og umferðaröryggi og bæta hljóðvist á þessu umferðarþunga svæði. Um er að ræða fyrsta vegkaflann sem endurbótum lýkur á og fellur undir Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá 2019.

Hönnunarvinna EFLU fór að mestu fram á árunum 2009 og 2010. Til að dreifa kostnaði valdi verkkaupi að skipta framkvæmdinni í þrennt; undirgöng við Suðurholt voru byggð 2013, mislæg vegamót við Krýsuvíkurveg 2017, og stærstur hluti vegagerðarinnar og aðrir hlutar þess 2019-2020.

Mikil áhersla lögð á hljóðvist

Ný Reykjanesbraut á kaflanum er 2+2 akreinar með þriggja metra breiða miðeyju milli akbrauta með vegriðum báðum megin. Til að bæta hljóðvist var brautin grafin niður um allt að fjóra metra á tveimur köflum, meðfram Áslandi og í gegnum Hvaleyrarholtið. Aðrar veigamiklar aðgerðir til að draga úr umferðarhávaða voru einnig hluti framkvæmdanna, má þar nefna nýja hljóðmön milli Reykjanesbrautar og Ásbrautar til móts við Erluás, hækkun á hljóðmön við Ásbraut við Álftaás, endurgerð hljóðmana við Hvamma og Vallahverfi með jarðvegshólfum sem ná allt að 8 m hæð. Hljóðveggir með gleri voru reistir við Suðurhvamm ofan á hljóðmön og á norðurkant Strandgötubrúar. Þá voru reistir hljóðveggir meðfram Þúfubarði þar sem áður var girðing og við undirgöngin við Suðurholt.

Tvær nýjar göngubrýr

Hluti af framkvæmdunum var að breikka brúna yfir Strandgötu og byggja ný undirgöng fyrir gangandi og hjólandi á sama stað til að skapa rými fyrir Borgarlínuna á Strandgötu í framtíðinni. Nýja brúin er eftirspennt plötubrú í einu 20 m hafi, en undirgöngin eru sambyggð henni og eldri brú að austanverðu.

Gerðar voru 2 nýjar göngubrýr yfir Reykjanesbraut, milli Hvamma og Áslands til móts við Álftaás, og í stað eldri undirganga sem rifin voru við Þorlákstún. Göngubrýrnar eru 46 m langar stálbogabrýr með timburgólfi og ryðfríu handriði, þar sem bogahafið sjálft er 36 m langt yfir Reykjanesbraut. Stálvirkið í brýrnar var smíðað í Póllandi og flutt yfir hafið og reist í heilu lagi í vel heppnaðri aðgerð Ístaks, sem var verktaki þessa hluta framkvæmdanna.

Mislæg vegamót við Krýsuvíkurveg eru steypt vegamótabrú sem rúmar 2 akreinar í hvora átt. Brúin er slakbent bogabrú í einu 30 m hafi með stoðveggjum til endanna. Undir brúnni er upplifunin eins og verið væri í stórri hvelfingu. Stoðveggirnir eru bognir í plani og halla 30° út frá lóðréttu og mynda hvelfingu utan við brúna báðum megin, sem kallast á við hraunið í umhverfinu. Veghlið efsta hluta stoðveggjanna er formuð sem steypt vegrið. Sjónsteypa er í öllu yfirborði mannvirkisins.

Vegamót við Krýsuvíkurveg

Undirgöng við Suðurholt eru bogagöng með stoðveggjum til endanna með svipuðu sniði og brúin við Krýsuvíkurveg. Byggingarefni er slakbent steinsteypa. Stígurinn í gegnum göngin er 3m breiður. Stoðveggirnir eru bognir í plani og spennivídd bogans er 10 m. Stoðveggirnir halla 30° út frá lóðréttu og mynda þannig hvelfingu utan við göngin báðum megin. Veghlið efsta hluta stoðveggjanna er formuð sem steypt vegrið. Norðan undirganganna eru tröppur og stígur að holtinu. Að sunnan liggur stígur að Vallahverfi. Meðfram göngustíg í undirgöngunum eru hraunhellur í yfirborði fláa.
Veitufyrirtækin (HS veitur, Landsnet, Míla og Veitur) stóðu fyrir foráfanga til að færa lagnir úr vegstæði Reykjanesbrautar í endanlegar lagnaleiðir út fyrir eða í jaðar framkvæmdasvæðis. EFLA annaðist einnig undirbúning hluta þessa áfanga.

Umhverfismál

Stóraukin umferðarrýmd á Reykjanesbraut eftir framkvæmdirnar dregur úr umferðartöfum og biðraðamyndun á þessu umferðarþunga svæði. Eitt af meginmarkmiðum framkvæmdarinnar var að bæta hljóðvist í íbúðabyggðinni meðfram Reykjanesbraut, og umfangsmiklar hljóðvarnir eru hluti hennar. Stuðst var við hljóðreikninga til að sannreyna virkni hannaðra hljóðvarna.

Umferðaröryggi og gæði göngu- og hjólastíga við Reykjanesbraut eru stórbætt með tveimur nýjum göngubrúm, tveimur undirgöngum og aðliggjandi göngu- og hjólastígum. Brú í mislægum vegamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar er hönnuð með tilliti til þess að lágmarka efnisnotkun, þar sem mjög hagkvæmt burðarform, steyptur bogi, er lagað að hagstæðum grundunaraðstæðum fyrir slíkt mannvirki.

Í samstarfi við Studio Granda arkitekta var hugað að ásýnd göngubrúa og steyptra mannvirkja með það að leiðarljósi að fella þau vel að náttúrulegu og manngerðu umhverfi sínu. Útfærð var ný lausn fyrir hljóðveggi við Strandgötuvegamót.

Hlutverk EFLU

Þjónusta EFLA í verkefninu samanstóð af eftirtöldum verkþáttum:

 • Hönnunarstjórn
 • Þjónusta á framkvæmdatíma
 • Gerð kynningarefnis
 • Gerð útboðsgagna og kostnaðaráætlana (3 útboð)
 • Hönnun vega og göngu- og hjólastíga
 • Hönnun fráveitu
 • Hönnun veglýsingar
 • Hönnun á eftirspenntri plötubrú og nýjum undirgöngum í mislægum vegamótum við Strandgötu
 • Hönnun göngubrúa við Ásbraut og Þorlákstún
 • Hönnun undirganga við Suðurholt
 • Hönnun brúar í mislægum vegamótum við Krýsuvíkurveg
 • Hönnun hljóðvarna (hljóðveggir, hljóðmanir og jarðvegshólf)
 • Umferðartæknileg ráðgjöf, m.a. á Suðurbraut
 • Skilgreining verkáfangaskiptingar

ReykjanesbrautTvöföld Reykjanesbraut séð frá nýjum mislægum vegamótum við Strandgötu til vesturs.

03Ný göngubrú yfir Reykjanesbraut við Ásland.

04Ný göngubrú yfir Reykjanesbraut við Ásland.

05_1633375017617Aðgengi fyrir alla að göngubrú við Ásland.

06Harðviðargólf og ryðfrítt handrið á göngubrú við Ásland.

ReykjanesbrautSteypt mannvirki í mislægum vegamótum við Strandgötu – ný vegbrú og sambyggð undirgöng.

08Ný undirgöng fyrir gangandi og hjólandi – skapa rými fyrir Borgarlínu framtíðarinnar í vegamótunum.

09Flísalögn og op í veggjum undirganga opna og lýsa rýmið.

10Ný göngubrú við Þorlákstún – stálbogabrú í einu hafi yfir Reykjanesbraut.

ReykjanesbrautUndirgöng fyrir gangandi og hjólandi við Suðurholt (2013).

ReykjanesbrautSjónsteypa og hraunhellur í bogaundirgöngum við Suðurholt.

ReykjanesbrautUppsteypa í mislægum vegamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar.

14Mislæg vegamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar (2017).

15Bogabrú í Krýsuvíkurvegamótum.

16Bogahvelfing í Krýsuvíkurvegamótum.

ReykjanesbrautSjónsteypa í bogabrú í Krýsuvíkurvegamótum.

Ávinningur verkefnis

 • Aukin umferðarrýmd og bætt umferðaröryggi á Reykjanesbraut
 • Bætt aðgengi og öryggi fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur milli hverfa í Hafnarfirði
 • Bætt hljóðvist í íbúðabyggð meðfram Reykjanesbraut
 • Brú í vegamótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar var tilnefnd til Norrænu brúarverðlaunanna fyrir hönd Íslands árið 2019


Var efnið hjálplegt? Nei