Umhverfi

Kolefnisreiknir

Kolefnisspor, OR, Reiknir

Nú er hægt að reikna út kolefnisspor einstaklinga sem tekur mið af íslenskum aðstæðum. Að kolefnisreikninum standa EFLA og OR og geta allir áhugasamir notað reiknirinn sér að kostnaðarlausu.

Upplýsingar um verkefnið

Samstarfsaðilar
Orkuveita Reykjavíkur og EFLA

Verktími
2019

Staðsetning
Ísland

Tengiliðir

Um hvað snýst verkefnið

Kolefnisspor er mælikvarði fyrir beina og óbeina losun gróðurhúsalofttegunda vegna athafna mannsins. Kolefnisreiknirinn sýnir eina gerð umhverfisáhrifa, þ.e. stærð kolefnisspors, en hafa skal í huga að önnur umhverfisáhrif vegna athafna mannsins eru ekki síður mikilvæg eins og súrnun sjávar, eyðing auðlinda og áhrif á líffræðilega fjölbreytni, svo einhver dæmi séu tekin.

Kolefnisreiknir EFLU og ORKolefnisreiknir EFLU og OR finnur kolefnisspor einstaklinga m.v. íslenskar aðstæður. 

Kolefnisreikninum er skipt upp í þá neyslu- og lifnaðarhætti sem hafa mest áhrif á kolefnissporið, þ.e. vörur, þjónustu, ferðamáta,matvæli og húsnæði. Ferðavenjur skipta miklu máli því meginhluti samgangna hér á landi knúinn jarðefnaeldsneyti en val okkar varðandi mataræði, vörur og þjónustu hefur einnig mikil áhrif á kolefnissporið. Í samanburði við önnur lönd hefur orkunotkun húsnæðis vegna hitaveitu og rafmagns hins vegar lítil áhrif á kolefnissporið því bæði rafmagnsnotkun og upphitun húsnæðis á Íslandi er með umhverfisvænni og endurnýjanlegri orku. Með því að auðvelda fólki til að taka upplýstar ákvarðanir um eigin neyslu og lifnaðarhætti er stigið mikilvægt skref í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Umhverfismál

Til að sporna gegn hnattrænni hlýnun vegna losunar gróðurhúsalofttegunda og til að halda losun innan 1,5°C markmiðs í samræmi við ítrustu markmið Parísar· samkomulagsins í loftslagsmálum er nauðsynlegt að grípa til aðgerða. Kolefnisreikninum er ætlað að varpa ljósi á kolefnisspor þeirra sem búa á Íslandi og benda á leiðir til að draga úr kolefnissporinu.

Hlutverk EFLU

Sem leiðandi ráðgjafarfyrirtæki í samfélagslegri ábyrgð , vistvænum lausnum og útreikningum á kolefnisspori sinnti EFLA því hlutverki í verkefninu.

  • Söfnun og greining niðurstaðna úr vistferilsgreiningum fyrir neyslu
  • Söfnun upplýsinga um matarvenjur og tenging við gagnagrunn Matarspors
  • Þátttaka í þróun reiknis og viðmóts
  • Þátttaka í forritun vegna útreikninga í kolefnisreikni

Við vonum að fólki líki vel við kolefnisreikninn okkar og að hann hjálpi fólki að átta sig á hvaða hluti neyslu okkar hefur mest áhrif á stærð kolefnissporsins og hvernig hægt er minnka það. Við erum jafn misjöfn og við erum mörg. Þess vegna skiptir það máli að hvert og eitt okkar sjái hvar við getum breytt hegðunarmynstri okkar.
Hólmfríður Sigurðardóttir
Umhverfisstjóri OR
Með kolefnisreikninum viljum við færa landsmönnum upplýsingar sem þeir geta nýtt til að bæta eigið kolefnisspor. Með vali sínu geta neytendur haft gríðarleg áhrif á framleiðendur og þjónustuaðila og bæði hvatt þá til að bæta vörurnar sínar og til að upplýsa betur um umhverfisáhrif þeirra. Tækifæri til umbóta eru því fjölmörg.
Helga Jóhanna Bjarnadóttir
Sviðsstjóri Samfélagssviðs EFLU

Fræðilegar forsendur

Ávinningur verkefnis

Með kolefnisreikninum geta allir fundið sitt kolefnisspor út frá íslenskum aðstæðum, borið niðurstöðurnar saman við aðra og við markmið Parísarsamkomulagsins um að stöðva hnattræna hlýnun við 1,5°C. Kolefnisreikninum er ætlað að stuðla að vitundarvakningu almennings um neyslumynstur og benda á leiðir til að minnka kolefnissporið.

Algengar spurningar og svör


Ef ég set alla neyslu í minnsta næ ég samt ekki 4 tonna markmiðinu, af hverju er það?

Í reikninum er verið að reikna svokallað neysludrifið kolefnisspor. Slíkt kolefnisspor inniheldur ekki aðeins kolefnislosun sem á sér stað á Íslandi heldur þá losun sem á sér stað yfir allt vistferli viðkomandi vöru eða þjónustu. Ef horft er á þetta neysludrifna kolefnisspor á Vesturlöndum er mjög erfitt að komast niður í markmið Parísarsamkomulagsins um að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5 gráðu markmiðsins.

  • Í fyrsta lagi er í Kolefnisreikninum sett fram "heimsjafnaðarhugmynd" þ.e. að árið 2019 þurfi kolefnissporið að vera 4 tonn eigi markmið Parísarsamkomulagsins að nást. Hugsunin er sú að ekki er gert ráð fyrir því að íbúar ríkja sem búa við lægra neyslustig en við á Íslandi, greiði upp þann yfirdrátt sem við sköpum með okkar neyslu. Það er hinn bitri veruleiki og því ekki hægt að komast mikið neðar en 3 tonn.

  • Í öðru lagi þá hafa framleiðendur vöru og þjónustu áhrif á sporið í gegnum neyslu einstaklinga á vörunni og þjónustunni. Þar ber helst að nefna framleiðslu á vörunni sjálfri sem á sér stað erlendis eða framköllun þjónustu. Vesturlönd flytja inn hátt kolefnisspor með mörgum þeim vörum sem framleiddar eru t.d. í Asíu þar sem framleiðslan fer fram með orku sem hefur mun hærra kolefnisspor en íslenska orkan.

Í Kolefnisreikninum er leitast við að veita nákvæmustu upplýsingar sem eru í boði og forðast bæði að vanmeta og ofmeta.

Það eru tæki­færi fólgin í því að fram­leið­endur merki vörur sínar og kol­efnis­sporið sem liggur að baki þeim. Það er erfitt fyrir einstaklinga að taka á­kvörðun um að breyta neyslumynstri ef hvergi kemur fram hvað sé að valda kol­efnis­sporinu. Ábyrgðin liggur því ekki einungis hjá einstaklingnum heldur einnig hjá fyrir­tækjum, framleiðendum, ríki og sveitar­fé­lögum. Þetta er samfélagsleg barátta þar sem allir þurfa að leggja sitt af mörkum.

Af hverju eruð þið ekki að beina þessu að fyrirtækjum sem losa mun meira eða stjórnvöldum? Skiptir kolefnisspor einstaklinga einhverju máli?

Stjórnvöld þurfa vissulega að taka á þessum vanda og hafa þegar gert það upp að vissu marki með þeirri aðgerðaáætlun um loftslagsmál sem þegar hefur komið fram og unnið er eftir. Á­byrgðin liggur ekki ein­göngu hjá ein­stak­lingum, heldur einnig hjá fyrir­tækjum, framleiðendum, og sveitar­fé­lögum.

Við sem einstaklingar höfum þó bein áhrif á fyrirtæki og framleiðendur í gegnum neysluhegðun okkar. Ef til dæmis nægilega margir tala með veskinu og beina viðskiptum sínum í átt að vörum og þjónustu með lægra kolefnisspor þá mun það hafa áhrif á framleiðendur og þjónustuaðila og skilaboðin komast til skila. Þrátt fyrir að á­byrgðin liggi ekki ein­göngu hjá einstaklingum er líklegt að þeir spyrji sig hver sé þeirra þáttur og hvert þeirra kol­efnis­spor sé. Kol­efnis­reiknirinn er ein leið til að komast að því.

Hvernig get ég treyst því að útreikningarnir séu réttir?

Nákvæmir útreikningar á kolefnisspori kalla eftir mjög nákvæmum upplýsingum um allan vistferil vöru og þjónustu og upplýsingar um neyslumynstur. Við höfum reynt að gera kolefnisreikninn eins notendavænan og mögulegt er til að fanga stóru myndina í samsetningu kolefnisspors einstaklinga, sem þýðir að við urðum að einfalda nokkrar af spurningunum og fórna einhverri nákvæmni fyrir einfaldleika. Mögulega finnur þú ekki samsvörun við þínar aðstæður í spurningunum.

Ef aðstæður þínar eru óvenjulegar, vinsamlegast reyndu að finna bestu samsvörun í svarmöguleikunum sem fylgja. Þannig eykst möguleikinn á því að niðurstöður reiknisins gefi þér nokkuð góða mynd af því hvar þú stendur og í hvaða átt æskilegt sé að stefna.

Hvernig hefur lánið mitt áhrif á kolefnissporið?

Við byggingu húsnæðis verður til kolefnisspor vegna framkvæmdanna. Hægt er að leggja mat á kolefnisspor húsnæðisins út frá þeim fjármunum sem lagðir voru fram vegna byggingar þess. Þegar afborganir eru greiddar af húsnæðisláni má segja að ásamt því að verið sé að borga niður lánið í peningum þá sé einnig verið að greiða niður kolefnisspor hússins.

En hafa vextir þá ekki áhrif á kolefnissporið þar sem þeir hækka lánið?

Jú, því miður hafa vextir áhrif á útreikningana. Það sama á við ef þú átt hús úti á landi sem er ódýrara en sambærilegt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en bæði eru með jafn stórt kolefnisspor. Í tilviki sem þessu var nákvæmni fórnað fyrir einfaldleika.

Er losun hjá álverum og stórum verksmiðjum með inní þessu hversdagslega kolefnispori íslendinga ?

Nei. Í Kolefnisreikninum er kolefnisspor stóriðju ekki tekið með inn í kolefnisspor einstaklinga á Íslandi


Var efnið hjálplegt? Nei