Á rennur meðfram fjalli.

Uppbygging ferðamannaaðstöðu

ÍslandSjálfbærni og umhverfi

Þrjár skýrslur voru unnar varðandi uppbyggingu salernisaðstöðu fyrir ferðamenn. Gerð var ástandsgreining á öllu landinu, kostnaður metinn við uppbyggingu og rekstur og tillögur gerðar.

Viðskiptavinur
 • Stjórnstöð ferðamála
Verktími
 • 2016
Þjónustuþættir
 • Ferðamannastaðir
 • Fráveitu- og ofanvatnskerfi

Um hvað snýst verkefnið

Stjórnstöð ferðamála óskaði eftir ráðgjöf EFLU varðandi umfang á þörf á salernisaðstöðu um landið og forgangsröðun staða þar sem nauðsynlegt þykir að fjölga salernum fyrir ferðamenn. Ráðast þarf í mikla vinnu til að geta með betri hætti tekið á móti þeim mikla fjölda ferðamanna sem búist er við á komandi árum. Ljóst er að mismunandi staða innviða, skipulagsmála og umfang ferðaþjónustu á hverjum stað ásamt mismunandi eignarhaldi á ferðamannastöðum kallar á sérstaka nálgun fyrir hvern stað.

Það er ekki raunhæft að ætla að leysa þennan vanda fyrir allt landið í einum áfanga en vinna EFLU miðar að því að hægt sé að forgangsraða þeim stöðum á landinu þar sem mikilvægast þykir að fjölga salernum. Þannig verði lögð áhersla á að bæta sem fyrst salernisaðstöðu á stöðum þar sem skipulagsmál og eignarhald leyfa skjótar aðgerðir.

Umhverfismál

Aukinn aðgangur ferðamanna að salernisaðstöðu minnkar álag á náttúruna, bætir hreinlæti ásamt því að draga úr rusli á og við ferðamannastaði.

Hlutverk EFLU

Gerðar voru þrjár skýrslur er varða salernisaðgengi ferðamanna um landið en verkefninu var skipt upp í eftirfarandi áfanga:

Ástandsgreining:

Til að afla upplýsinga um stöðu mála á ferðamannastöðum víða um land var ákveðið að eiga samtöl við starfsfólk innan ferðaþjónustunnar sem hefur persónulega reynslu af þessum stöðum og heimsækir þá mjög reglulega. Í mars og apríl 2016 var haft samband við leiðsögumenn, rútubílstjóra, fulltrúa þjóðgarða, fulltrúa sveitarfélaga og fleiri sem hafa ólíka aðkomu að viðfangsefninu til að afla upplýsinga um ástand og stöðu salernismála á ferðamannastöðum um land allt. Alls var rætt við rúmlega 50 aðila í þessum tilgangi.

Fengnar voru tölur um fjölda ferðamanna á hverjum stað og eftir samtöl við aðila innan ferðaþjónustunnar og fulltrúa sveitarfélaga voru ferðamannastaðir greindir í fjóra flokka eftir því hversu gott eða slæmt ástand salernisaðstöðu var metið á hverjum stað.

 1. Ásættanlegir eru staðir þar sem viðunandi salernisaðstaða er fyrir hendi og hún annar þeim fjölda gesta sem staðinn sækja.
 2. Við þolmörk eru staðir þar sem viðunandi salernisaðstaða er fyrir hendi en hún nær varla að anna þeim fjölda gesta sem að staðinn sækja.
 3. Ábótavant er þar sem salernisaðstaða er til staðar en er ekki viðhaldið eða annar ekki þeim fjölda gesta sem staðinn sækja. Einnig eru þetta staðir þar sem engin salernisaðstaða er fyrir hendi en ekki jafn brýnt forgangsatriði að bæta úr að mati ferðaþjónustuaðila.
 4. Slæmt ástand er þar sem engin salernisaðstaða er fyrir hendi en nauðsynlega vantar eða þá að hún er svo fátækleg miðað við fjölda ferðamanna að úrbætur eru nauðsynlegar

Þarfagreining og kostnaðarmat

Í kjölfar ástandsgreiningar var hægt að forgangsraða ferðamannastöðum eftir alvarleika ástandsins og þannig hjálpa til við ákvörðunartöku þegar kemur að fjármögnun og uppbyggingu á salernisaðstöðu. Við forgangsröðun ferðamannastaða var horft til ýmissa atriða:

 • Fjöldi gesta
 • Heimsóknartímabil
 • Staðsetning
 • Viðkomutími

Til að geta með góðu móti áætlað þann fjölda salerna sem þarf á ferðamannastaði voru fengnar upplýsingar um fjölda salerna á nokkrum fjölsóttum ferðamannastöðum á Íslandi þar sem salernisfjöldi nær að mestu leyti að anna fjölda gesta. Við ákvörðun á fjölda salerna sem þarf til að anna þeim fjölda gesta sem að ferðamannastaði sækja var meira horft til reynslu annara ferðamannastaða heldur en lágmarkskröfur reglugerða.

Við kostnaðarmat á uppbyggingu salernisaðstöðu var notast við reynslutölur EFLU en EFLA hefur komið að uppbyggingu salernisaðstöðu á nokkrum ferðamannastöðum á undanförnum árum. Kennitölur sem byggja á reynslu EFLU nýtast við að áætla heildarkostnað á uppbyggingu salernisaðstöðu á ferðamannastöðum miðað við nokkrar mismunandi forsendur.

Rekstur salernisaðstöðu

Fengnar voru tölur frá rekstraraðilum salerna á ferðamannastöðum sem sýna að heildarkostnaður við að reka salerni á ferðamannastað hleypur á milljónum króna á ári hverju. Settar voru fram reynslutölur til viðmiðunar um rekstrarkostnað salerna á nokkrum gerðum ferðamannastaða, en algengt er að kostnaður við hvert salerni sé um 40-50 þúsund krónur á mánuði. Á bakvið þessar tölur er launakostnaður, kaup á hreinlætisvörum og aðföngum, tæming rotþróa og ferðakostnaður til og frá salernisaðstöðunni þar sem það á við.

Í dag ber enginn einn aðili ábyrgð á því að tryggja það að ferðamenn hafi aðgang að salernisaðstöðu. Hefur það orðið þess valdandi að margir aðilar benda á hvern annan og hefur sú krafa orði sífellt háværari að ríkið skuli koma að uppbyggingu og rekstri og að tryggja þessa grunnþjónustu. Lög 20/2016 um nýja landsáætlun taka að hluta til á þessum vanda og er fjallað um hvernig aðkomu ríkisins að salernismálum skal háttað skv. landsáætluninni.

Einnig var fjallað um muninn sem felst í því að reka nútímaleg þurrsalerni og hefðbundin vatnssalerni.

Ávinningur verkefnis

Skýrslurnar munu nýtast við gerð landsáætlunar um uppbyggingu innviða (lög 20/2016).

Viltu vita meira?