Framhluti á skrifstofubyggingu.

Útreikningur á kolefnisspori íslensks prentiðnaðar

ReykjavíkSjálfbærni og umhverfi

EFLA gerði útreikninga á kolefnisspori fyrir tvær af vörum íslensks prentiðnaðar; öskju og bók sem kemur hagstætt út þegar er borið saman við sambærilega framleiðslu í helstu upprunalöndum innfluttrar vöru.

Viðskiptavinur
  • Samtök Iðnaðarins
Verktími
  • 2023 - 2024
Þjónustuþættir
  • Kolefnisspor og kolefnisbókhald
  • Umhverfis- og efnamælingar
  • Umhverfis- og öryggisstjórnun og vottanir
  • Vistferilsgreiningar og umhverfisyfirlýsingar

Um hvað snýst verkefnið

Kolefnisspor var reiknað fyrir ákveðin prentverkefni, annars vegar 1 tonn af öskjum og hins vegar staka bók. Reikningar voru gerðir í samræmi við alþjóðlega staðla ISO 14040 og 14044 um gerð vistferilsgreininga, en auk þess var stuðst við staðalinn ISO 14067 um útreikning gróðurhúsaáhrifa fyrir vörur. Kerfismörk greiningarinnar náðu yfir öflun og vinnslu hráefna, framleiðslu, og flutninga bæði erlendis og til Íslands. Vörurnar voru auk þess bornar saman við vörur framleiddar með sams konar prentferli erlendis.

Helstu niðurstöður

Kolefnisspor framleiðslu bókarinnar er 691 gCO2-ígildi á hverja bók, eða -42 gCO2-ígildi á bók ef tekið er tillit kolefnis frá lífrænum uppruna. Um neikvætt gildi er að ræða þar sem reiknað er með bindingu sem á sér stað með skógarvexti, en ekki losun þess við lok líftíma sem er utan kerfismarka. Kolefnisspor prentunar á Íslandi kemur hagstætt út þegar borið er saman við sambærilega prentun erlendis þaðan sem mestur innflutningur bóka á sér stað. Kolefnisspor öskju er 365 gCO2 ígildi á hvert tonn af öskjum, eða -547 gCO2 ígildi á tonn ef tekið er tillit til kolefnis frá lífrænum uppruna, sem einnig kemur vel út borið saman við sambærilega framleiðslu í Litáen og Kína. Helsti munurinn felst í þeirri raforku sem notuð er við framleiðslu varanna, en íslenskur prentiðnaður notast við endurnýjanlega orku. Þar að auki hafa íslensk prentfyrirtæki undanfarið lagt mikla áherslu á sjálfbærni aðfanga og pappír sem hlotið hefur viðeigandi vottanir til að stuðla enn frekar að umhverfisvænni framleiðslu.

Umhverfismál

Upplýsingarnar sem koma fram í skýrslum EFLU um kolefnisspor prentiðnaðarins á Íslandi nýtist íslenskum prentfyrirtækjum í að veita neytendum sínum og almenningi gagnsæjar og áreiðanlegar upplýsingar um umhverfisáhrif askja og bóka. EFLA hefur framkvæmt reikninga kolefnissporsútreikninga um árabil sem er mælikvarði á losun gróðurhúsalofttegunda á vistferli vöru eða þjónustu.

Hlutverk EFLU

  • Skilgreining markmiðs og umfangs vistferilsgreiningarinnar og upplýsingasöfnun í samstarfi við íslenskan prentiðnað.
  • Uppsetning líkans í sérhæfðum hugbúnaði fyrir vistferilsgreiningar (Sphera LCA FE).
  • Túlkun á niðurstöðum, rýni og framsetning.

Ávinningur verkefnis

Íslensk prentfyrirtæki hafa sett sér markmið í umhverfismálum, t.d. með endurvinnslu, umhverfisvænu hráefni og endurnýjanlegri orku. Með því að fá EFLU til að reikna út kolefnisspor á vörum hjá sér geta fyrirtækin fylgst með umhverfisáhrifum starfsemi sinnar með það að markmiði að gera eins vel og mögulegt er í loftslagsmálum og sýna ábyrgð gagnvart samfélaginu.

Viltu vita meira?