Vistferilsgreining fyrir orkuframleiðslu
Vistferilsgreining raforkuvinnslu með vindorku við Búrfell.
Um hvað snýst verkefnið
EFLA gerði vistferilsgreiningu á raforkuvinnslu tveggja rannsóknarvindmylla sem staðsettar eru á Hafinu við Búrfell (2 x 900 kW). EFLA stýrði verkefninu, annaðist upplýsingaöflun, líkangerð, útreikninga og skýrslugerð.
Verkefnið var unnið samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO 14040 og 14044 og varpa niðurstöður ljósi á þá þætti vistferilsins sem helst valda neikvæðum umhverfisáhrifum.
Reiknað var vistspor orkuframleiðslunnar og birtar tölulegar upplýsingar um umhverfisáhrif hennarí 13 umhverfisáhrifaflokkum m.a. gróðurhúsaáhrif og kolefnisspor.
Umhverfismál
Vistferilsgreining (e. Life Cycle Assessment, LCA) er aðferðafræði til þess að meta umhverfisáhrif vöru eða þjónustu frá vöggu til grafar. Vistferilsgreiningin er unnin í samræmi við alþjóðlegu staðlana ISO 14040 og ISO 14044 og má því nýta niðurstöður til samanburðar við sambærilega vöru eða þjónustu.
Hlutverk EFLU
EFLA annaðist alla helstu þætti vistferilsgreiningarinnar; verkefnisstjórn, upplýsingaöflun, líkanagerð, útreikninga og skýrslugerð. Skilgreind voru kerfismörk vistferils og aðgerðareining fyrir gefinn líftíma. Í upplýsingaöflun felst öflun grunnupplýsinga um magn efnis- og orkuþátta sem tengjast t.a.m. framleiðslu og flutningi búnaðar, uppsetningu og rekstri.
Að lokum var lagt mat á hugsanleg umhverfisáhrif m.t.t. mengunar jarðvegs, vatns eða lofts, gróðurhúsaáhrifa, eituráhrifa á fólk, súrs regns o.fl. Niðurstöður voru túlkaðar og birtar á myndrænan hátt í skýrslu.
Ávinningur verkefnis
Niðurstöður greiningarinnar veita upplýsingar um umhverfisáhrif vindorkunýtingar á Hafinu, meðal annars hvar megináhrifin sé að finna yfir allan vistferilinn. Greiningin nýtist rekstraraðilum sem grunnur til aðgerða í hönnun, undirbúningi framkvæmda, innkaupum og rekstri, í þeim tilgangi að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum raforkuvinnslu með vindorku.
Greiningin gagnast sem grunnur fyrir fleiri rannsóknir, t.d. vistferilsgreiningu á frekari vindorkunýtingu. Niðurstöður verkefnisins nýtast einnig til að veita viðskiptavinum upplýsingar um umhverfisáhrif raforkuvinnslu með vindorku sem setja má fram í umhverfisyfirlýsingu vöru (e. Environmental Product Declaration, EPD). Þannig er vistferilsgreiningin mikilvægt tól í upplýsingamiðlun, umhverfisstjórnun og vistvænni hönnun til að ná stöðugt betri árangri í umhverfismálum.