Fagið

Að takast á við óvissu í hafnarskipulagi

hafnarframkvæmdir, rannsóknarverkefni, greining, hagsmunaaðila, hafnarskipulag, spálíkön, Ísafjarðarhöfn, fiskveiðistarfsemi, fiskeldisstarfsemi, farmafgreiðsla, flutningastarfsemi, leiðangur, skemmtiferðastarfsemi,

nóv. 7, 2022 Fagið

Höfundur

Hafnir eru flókin kerfi sem innihalda mismunandi innviði þar sem hver hefur sína sérstöku virkni/tilgang. Flækjustig kerfisins mótast af viðskiptaneti þess, löngum líftíma, fjölda hagsmunaaðila (sjá Skipulagsgerð fyrir hafnir og skilvirk þátttaka hagsmunaaðila), nærsamfélagi og umhverfi og þjóðhagsstærðum (sjá Greining á farmflæði).

Hafnir hafa þróast til að fullnægja nýjum eða breyttum kröfum hagsmunaaðila, til dæmis til að mæta kröfum um grænni og snjallari hafnir. Hins vegar standa hafnarframkvæmdir frammi fyrir margvíslegum óvissuþáttum og óvæntum truflunum, til dæmis fjármálakreppunni 2008, snjóflóðinu á Flateyri 2020 og COVID-faraldrinum 2019-2021. Í óstöðugu umhverfi eykur það skilvirkni hafnarframkvæmda ef tekist er á við óvissu í skipulagsferlinu.

Í þessu rannsóknarverkefni er þróaður rammi, sem byggir á þremur þáttum til að greina óvissu sem getur komið fram á áætluðum líftíma hafnar og takast á við hana í skipulagsferlinu. Þættirnir eru:

1 - Greining hagsmunaaðila til að a) finna hagsmunaaðila hafnarinnar, b) setja fram markmið hagsmunaaðila og skilgreina þar af leiðandi árangur hafnarskipulagsins (sjá Árangur hafnarskipulags), c) greina óvissu í starfsemi og markmiðum hagsmunaaðila og d) ákvarða mismunandi tímaramma skipulagsins.

2 - Meðhöndlun óvissu í þróun. Þetta er mikilvægt vegna þess að spálíkön geta ekki alltaf fangað breytingar og óvissu í markaðsumhverfi (sjá Spá um afköst hafna), og gerð sviðsmyndaáætlunar fyrir líklegustu framtíð gæti mistekist ef sú framtíð verður ekki að veruleika.

3 - SVÓT (Strengths, Weaknesses, Opportunities, Threats) greining til að bera kennsl á styrkleika og veikleika hafnarinnar og ákvarða þannig tækifæri og ógnanir sem stafa af óvissu í framtíðinni. Til að bregðast við óvissu eru nokkrir kostir þróaðir innan mismunandi tímaramma. 

Til að takast á við óvissu með því að grípa tækifæri og stjórna veikleikum eru skilvirkar aðgerðir skipulagðar.

blogg-unnid-1Mynd 1. Ísafjarðarhöfn. Mynd | Majid Eskafi.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur umsjón með fjórum höfnum: Ísafjarðarhöfn, Suðureyrarhöfn, Flateyrarhöfn og Þingeyrarhöfn (Mynd 2).

Mynd 2. Hafnir Ísafjarðarbæjar. Rannsóknarsvæðið er sýnt á kortinu.

Í þessu rannsóknarverkefni er litið til fimm ára (2020-2025) og 25 ára (2025-2050) sem skammtíma- og miðlungstímatímabil. Þessir tímarammar eru valdir vegna þess að þeir eru í samræmi við markmið og stefnur helstu hagsmunaaðila. Lykilhagsmunaaðilar eru 1- fiskveiðistarfsemi, 2- fiskeldisstarfsemi, 3- farmafgreiðsla og flutningastarfsemi, 4- leiðangurs- og skemmtiferðastarfsemi, 5- Hafnasamband Íslands, 6- Hafnarstjórn og 7- Vegagerðin.

Mynd 3 sýnir greiningu á óvissu í þróun byggða á starfsemi hafnarinnar.

Mynd 3. Óvissa í þróun í skipulagsferli hafnarinnar

Niðurstöðurnar benda til þess að veiðar og fiskeldi, auk ferðaþjónustu og skemmtiferðastarfsemi, skapi helstu óvissuþætti í uppbyggingu hafnarinnar. Útgerð og fiskeldisstarfsemi vex hratt með örum breytingum. Gert er ráð fyrir að útflutningur á eldis- og villtum, frystum og ferskum, unnum og óunnum fiski verði sjálfbærasti reksturinn og farmurinn í framtíðinni. Þess vegna mun farmflæði gáma halda áfram að aukast og skipastærð eykst til að bæta stærðarhagkvæmni.

Annar ört vaxandi hluti er ferðaþjónustu og skemmtisiglingamarkaðurinn. Þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr komum leiðangra og skemmtiferðaskipa til hafna Ísafjarðarbæjar vegna COVID-19 heimsfaraldursins, er búist við að þessi markaður haldi áfram að vaxa á miðlungstíma áætlunarinnar. 

Aukning í komum leiðangra og skemmtiferðaskipa mun auka strandferðir og ferðaþjónustu.


Óvissa í þróun tengdri virðisaukandi iðnaðarstarfsemi, þar með talið sjávarframleiðslu og endurnýjanlegri orkunotkun, stendur frammi fyrir margvíslegum drifþáttum (pólitískum, samfélagslegum, umhverfislegum og fjárhagslegum).

Óvissa felur aðallega í sér tækifæri til skamms tíma. Það er vegna þess að hafnir Ísafjarðarbæjar hafa sterka samkeppnisstöðu á svæðinu. Hafnir Ísafjarðarbæjar, einkum Ísafjarðarhöfn, búa yfir sterkum innviðum, þjónustu og rekstraraðstöðu til að fullnægja kröfum notenda, þar á meðal fiskveiðum og fiskeldi, flutningi og meðhöndlun á gámaflutningum og farmi sem ekki er í gámum og skemmtiferðaskipum/ferðaþjónustu.

Hins vegar, þegar til lengri tíma er litið, standa hafnir Ísafjarðarbæjar frammi fyrir mörgum veikleikum. Þessir veikleikar eru einkum vegna fjölgunar hafnarnotenda og takmarkaðrar afkastagetu og fjármagns, t.d. innviða og framboðs á landi.

Til skamms og meðallangs tíma, til að grípa tækifæri og stjórna veikleikum, er þróaður yfirgripsmikill listi yfir aðgerðir (sjá Framework for Dealing with Uncertainty in the Port Planning Process), svo sem fjárfestingar og endurbætur á innviðum og að bæta markvisst smærri hafnir í Ísafjarðarbæ.

Þessar upplýsingar gagnast hafnarstjórn við upplýsta ákvarðanatöku í hafnarskipulagi og uppbyggingu í óvissu. Í þessari grein eru kynntar niðurstöður hluta rannsóknar á skipulagsgerð hafna sem var studd af Rannsóknarsjóði Háskóla Íslands, Ísafjarðarbæ, Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar og Hafnasambandi Íslands. Rannsóknin var hluti af doktorsrannsóknum höfundar.


Höfundur er verkfræðingur með doktorspróf í umhverfisverkfræði frá Umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá EFLU.


Viltu vita meira?

Velkomið að senda okkur línu ef þú vilt fræðast meira um þjónustu EFLU varðandi hafnarskipulag.

Hafa samband


Nánari upplýsingar:

Eskafi, M., A. Dastgheib, P. Taneja, G. F. Ulfarsson, G. Stefansson, and R. I. Thorarinsdottir. 2021. “Framework for Dealing with Uncertainty in the Port Planning Process”, Journal of Waterway, Port, Coastal, and Ocean Engineering, 147 (3). https://doi.org/10.1061/(ASCE)WW.1943-5460.0000636