Hugleiðingar um flóðalíkön

08.06.2023

Blogg
Á sem rennur af krafti um hraun séð úr lofti og nálægt

Flóð

Flóð eru viðburðir sem við heyrum af alltaf annað slagið hérlendis, hvernig flóð sem það gætu verið. Flóð geta átt sér mismunandi uppruna, sjávarflóð, flóð frá árfavegum, innviðabrestir, sem og flóð frá uppfullu fráveitukerfi, svo eitthvað sé nefnt. Hér verður samt aðallega fjallað um flóð frá árfarvegum sem orsakast sökum breytinga á rennsli. Það geta verið ýmsar ástæður fyrir slíkum flóðum og er ein þeirra mikil úrkoma.

Aukin úrkoma er heitur umræðupunktur í dag, vegna þeirra óvissu tíma sem við búum á sökum loftslagsbreytinga. Það er búist við því að á Íslandi mun einhver úrkomuaukning eiga sér stað en óvíst hve mikil. Samkvæmt skýrslu Veðurstofunnar um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi gildir að fyrir hverja gráðu sem hækkar fylgir úrkomuaukning um 1,5%. Einnig kemur þar fram að rennslismynstur í ám muni breytast og eru líkur á að flóðaviðburðir eigi sér stað á árstímum sem við erum ekki vön að sjá flóð áður.1

Þó svo að loftslagsbreytingar geta verið ógnvekjandi og erfitt að upplifa slíka óvissutíma, þá erum við líka að upplifa ótrúlega spennandi tímum. Umhverfið er alltaf að fá meira vægi í hönnun og uppbyggingu bæja og borga. Samspil hins manngerða og hins náttúrulega á að vera betra. Eftirspurn eftir umhverfisvottunum er að aukast og er ein þeirra BREEAM vottun. BREEAM er umhverfisvottun þar sem hægt er að sækja stig eftir mörgum flokkum. Einn af þeim umhverfisþáttum sem hægt er að sækja stig fyrir er, einmitt, lágmörkun á flóðaáhættu. Þ.e. að innviði, skipulag eða bygging sem á að votta muni ekki stafa hætta frá flóðum. Þar er reyndar skoðuð flóðaáhætta frá mörgum upptökum, ekki aðeins flóð frá árfarvegum. Sem hluti af þessari vottun þarf að sýna fram á að t.d. byggingu stafi ekki hætta frá flóðum í dag og henni mun ekki stafa hætta frá flóðum í framtíðinni sökum loftslagsbreytinga. Mikilvægt er að geta sýnt staðfastlega og skýrt fram á að ákveðnum innviði eða byggingu stafi ekki hætt af flóðum.

Horft á skriðjökul yfir jökulvatn og mosavaxnar hlíðar við botn jökulsins.

Líkanagerð

Í þessu samhengi kemur líkanagerð inn. Líkön eru mikilvægt tól til að líkja eftir núverandi ástandi og sýna fram á hverjar eru mögulegar afleiðingar á breyttu ástandi. Fyrir athugun á úrkomuaukningu og breytingar á rennslismynstrum eru flóðalíkön sterk tól til að geta áttað sig á þeim áhrifum sem nýjar framkvæmdir, eða núverandi innviðir, geta orðið fyrir ef allt fer á flot. EFLA er leiðandi í líkanagerð og búum við til fullt af líkönum. Við sækjumst jafnframt eftir því að vera leiðandi í flóðalíkanagerð.

Líkanagerð spáir til um hvað getur gerst undir framtíðar kringumstæðum en er þó ekki nákvæm vísindi og fer þetta aðeins eftir því hve smiður líkansins er vanur, þekkir eða finnst. Í dag er staðan á Íslandi þannig að skýrar reglur og leiðbeiningar eru til um sumt en alls ekki allt. Gagnagæði þeirra gagna sem fara inn í líkanið geta verið mjög fín á einum stað en ábótavant á öðrum. Ekki er tekin skýr opinber stefna um það hvað er ásættanleg áhætta og hvað loftslagsbreytingar eiga að vega þungt í líkani. Það sem ég, sem líkanasmiður, áætla í mínu líkani er mögulega alveg langt frá því sem líkanasmiðurinn, þú, áætlar í þínu. Þetta skilar sér mögulega í að það sem ég geri er of varkár nálgun með því að gera ráð fyrir of miklu vatnsmagni. Á sama tíma gerir þú ekki nægilega varkára nálgun sem skilar sér í því að innviður brestur í minna flóði. Hvorugt okkar hafði hvorki rétt né rangt fyrir sér þar sem niðurstöðurnar voru í samræmi við þær forsendur sem við gáfum okkur.

Staðan á löndunum í kringum okkur sem við viljum svo oft bera okkur saman við er önnur en sú er á Íslandi. Þar eru skýrari verklög og reglur sem samræmir vinnu allra. Miðlægari gagnabankar og er það oft þannig að gæði gagna eru sambærileg alveg sama hvar á landinu þú ert að skoða. Við lítum mikið til landana í kringum okkur og sjáum hverjar þeirra reglur og staðlar eru til að reyna að yfirfæra á íslenskar aðstæður. Það getur verið í lagi í sumum tilfellum en í öðrum ekki, t.d. er rigning og áhrif loftslagsbreytinga mjög staðbundin.

Brosandi maður að tala við fólk.

Tækifæri á Íslandi til framtíðar

Fullt af fólki í heiminum vinnur við líkanagerð og er niðurstaða hvers og eins líklega mismunandi og því mögulega ekki sambærilegar ef hver og einn er ekki að nota sömu forsendur. Það er þó ekki slæmur hlutur því auðvitað er gott að fólk hugsi og nálgist verkefni á ólíkan hátt. En sumar forsendur ættu að vera eins, svo sem grunnforsendur loftslagsbreytinga. Þetta á ekki bara við um flóðalíkön heldur um fleiri tegundir á líkanagerð sem og önnur verkefni. Tækifæri liggja í að setja skýra stefnu um hvernig á að gera líkön og gera þau rétt svo lokaniðurstaðan verði áreiðanleg og samanburðarhæf, því það skilar betri vöru ekki bara fyrir verkkaupa heldur samfélagið í heild.

Til þeirra sem náðu að lesa þetta í gegn vel gert og við sendum ykkur út í daginn með eftirfarandi skilaboð: Er ekki kominn tími til að fólk á Íslandi hætti að þurfa að skoða erlendar leiðbeiningar fyrir svo margt og reyna að yfirfæra á íslenskar aðstæður – heldur að við tæklum málin rétt, setjum upp íslenska gagnabanka og íslenskar forsendur fyrir verkefni fyrir fólk á Íslandi til að fara eftir. Mikil vinna í að koma þessu öllu í rétt stand í byrjun sparar tíma í framtíðinni.

Heimildir

  1. Halldór Björnsson, Bjarni D. Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Jón Ólafsson, Ólafur S. Ástþórsson, Snjólaug Ólafsdóttir, Trausti Baldursson, Trausti Jónsson. 2018. Loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi – Skýrsla vísindanefndar um loftslagsbreytingar 2018. Veðurstofa Íslands.