Sökkræsi í stað skólpdælustöðva?

13.05.2019

Blogg
Loftmynd af Fjarðará á Seyðsifirði

Fjarðará á Seyðisfirði. Sökkræsið nær undir ána yfir í sniðræsið handan árinnar

Við hönnun fráveitukerfa er við ákveðnar aðstæður hægt að velja milli þess að hanna sökkræsi eða skólpdælustöð. Sökkræsi er einföld og umhverfisvæn lausn sem hentar við ákveðnar aðstæður í stað dælustöðva. Í sumum tilvikum getur sökkræsi komið í staðinn fyrir eldri dælustöðvar sem þarfnast endurnýjunar sem í kjölfarið er hægt að taka úr rekstri og fjarlægja.

Kostir sökkræsis umfram skólpdælustöð

Möguleikar á flutningi fráveituvatns með sökkræsi í stað skólpdælustöðvar eru fyrir hendi þegar nægilegur hæðarmunur er til að flytja fráveituvatnið um sökkræsi. Kostir sökkræsis umfram skólpdælustöð eru helstir:

  • Ekki er notaður vélbúnaður eins og dælur eða stýribúnaður.
  • Ekki þarf dælustöð eða dælubrunn.
  • Ekki þarf að nota raforku á dælur.
  • Sökkræsi er einfaldari og umhverfisvænni lausn og ódýrari í rekstri.

Ef nota á sökkræsi í stað skólpdælustöðvar við fráveituhönnun þurfa ákveðnar aðstæður að vera fyrir hendi. Til að þessi lausn sé möguleg þarf kóti á sniðræsi sem leiða á skólpið í að vera lægri en kótinn sem flutt er frá en munurinn þarf ekki að vera mikill.

Skýringarmynd sem sýnir á skematískan hátt muninn á skólpdælukerfi og sökkræsi

Mynd: Sveinn Torfi Þórólfsson, kennsluefni á námskeiði um skólpdælukerfi og sökkræsi, 1992.

Hönnun sökkræsis

Hönnun sökkræsis lýtur ákveðnum straumfræðilegum lögmálum sem tryggja flutning á skólpinu og tryggir að botninn í sökkræsinu hreinsi sig.

Myndin sýnir á skematískan hátt muninn á þessum lausnum og á einfaldan hátt þær aðferðir sem notaðar eru við hönnun sökkræsisins. Pípan er þrengd niður þar sem hún liggur undir ána í þessu dæmi sem eykur straumhraðann og tryggir að pípan hreinsi sig.

Sniðræsi og skólpdælustöð á Seyðisfirði

EFLA fékk það verkefni fyrir nokkrum árum að hanna sniðræsi og skólpdælustöð á Seyðisfirði. Mynd af Fjarðará á Seyðisfirði er hægt að sjá efst í fréttinni, sökkræsið nær þar undir ána yfir í sniðræsið handan árinnar.
Verkefnið var að leggja af rotþróarkerfi á svæði þar sem nokkur hús stóðu lágt á árbakka og vegna þess að sniðræsið í götunni fyrir ofan var mun hærra hafði verið valin sú lausn fyrir nokkrum áratugum að setja rotþrær við hvert hús. Frá þeim lagði óþef sem var hvimleiður sérstaklega á heitum sumardögum þegar íbúar vildu sóla sig í góða veðrinu. Eftir að hafa skoðað aðstæður stungum við upp á því að hanna í staðinn fyrir skólpdælustöðina sökkræsi undir ána yfir í sniðræsið handan árinnar. Verkkaupi samþykkti þessa lausn og var kerfið hannað þannig.

Sökkræsi er ekki algeng lausn hérlendis og verktakarnir sem aldrei höfðu séð hana töldu að hún stangaðist á við öll eðlileg náttúrulögmál og lögðu hart að okkur að endurskoða þessar hugmyndir. Að lokum féllust þeir þó á að framkvæma verkið eins og það var hannað enda væri lausnin alfarið á okkar ábyrgð. Kerfið hefur nú verið í notkun í rúm 5 ár og hafa engin vandkvæði komi upp og myndir sem teknar hafa verið í lögninni sýna enga botnfallsmyndun.

Oft er vandamálið við litlar dælustöðvar í fráveitukerfum að þær vilja gleymast. Gróðurinn hylur þær og viðhaldi og eftirliti er ekki sinnt sem skyldi. Það getur því verið áhugaverður kostur þar sem réttar aðstæður eru fyrir hendi að leggja í staðinn sökkræsi til að flytja fráveituvatnið og aftengja og fjarlægja dælustöðvarnar.