Tíminn breytir öllu

13.06.2023

Blogg
Þrívíddar rendering á Listasafni Einars Jónssonar í miðbæ Reykjavíkur

Stafrænn tvíburi Listasafns Einars Jónssonar með áferð

Epic Games leikjaframleiðandinn stofnaði Epic Megagrants sjóðinn árið 2019 til að aðstoða leikjaframleiðendur og aðra fagaðila í afþreyingariðnaðinum, nemendur og forritara sem þóttu vera að gera spennandi hluti með Unreal Engine leikjavélinni. Árið 2020 hlaut EFLA styrk frá Epic Megagrants til að framleiða verkefnið „Tíminn breytir öllu”. EFLA hefur unnið með Unreal leikjavélina allt frá árinu 2017 og hefur meðal annars hlotið tilnefningu til ÍMARK markaðsverðlaunanna fyrir tölvuleikinn Talning Vatnsdalshóla. EFLA hefur einnig notað hugbúnaðinn Twinmotion í hönnunarframsetningu, en hugbúnaðurinn notar Unreal Engine fyrir grafísku hliðina.

Mesh Rendering á Listasafni Einars Jónssonar

Þrívítt módel af Listasafni Einars Jónssonar með engri áferð.

Sérfræðingar EFLU fremstir meðal jafningja

Það má segja að EFLA hafi verið með í Megagrants ævintýrinu alveg frá upphafi. Í júní 2019 var starfsfólk EFLU á ráðstefnu í Raleigh, North Carolina þar sem sjóðurinn var kynntur og þá var ekki aftur snúið. Umsóknar- og samþykktarferlið tók næstum tólf mánuði en að lokum kom jákvætt svar við umsókninni. Það vó þungt í samþykkt umsóknarinnar að sérfræðingar EFLU hafa sýnt og sannað að þeir eru fremstir meðal jafningja hérlendis þegar kemur að því að nýta nýjustu tækni og lausnir á sviði hönnunar og framsetningar.

Þegar allri skriffinnsku lauk var loksins hægt að ákveða hvaða svæði og staðir skyldu notaðir í verkefninu. Upprunalega hugmyndin var að nota tvö eyðibýli sem höfðu lagst í eyði vegna náttúruhamfara. Þessi hugmynd fæddist áður en allur heimurinn lagðist á hliðina í kjölfar Covid-19 og eftir því sem óvissan í kringum okkur jókst. Þá varð okkur ljóst að við vildum i ekki bara gera eitthvað sjokkerandi og tragískt, heldur einbeita okkur frekar að einhverju fallegu og friðsælu. Og þá jafnvel einhverju sem væri beint fyrir framan okkur, en þó svo vel falið.

Punktaský þrívíddarteikning sem sýnir Listasafni Einars Jónssonar

Fegurð og friður

Til þess að gera hárnákvæma stafræna tvíbura af viðfangsefninu var ákveðið að nota hugbúnaðinn Reality Capture, sem Epic Games keypti nýlega, í úrvinnslu á módelunum. Módelin voru svo snyrt og löguð í forritunum Maya og Z-Brush. Þar sem Twinmotion hugbúnaðurinn var þegar kominn í töluverða notkun innan EFLU var mesta vitið að nota hann til að sýna lokaútkomuna.

Lokaafurðin, sem kallast Tíminn breytir öllu, þróaðist frá því að sýna eyðileggingu og skaða yfir í að einblína á fegurðina og friðinn við Listasafn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti. Safnið og garðurinn eru griðastaðir sem eru með best geymdu leyndarmálum Reykjavíkur. EFLA aðstoðaði Listasafn Einars Jónssonar í öðru verkefni, ótengt Epic Megagrants verkefninu, en það snerist um að gera nákvæma stafræna tvíbura af öllum höggmyndunum í safninu, bæði inni og úti. EFLA sá eingöngu um myndmælingu og úrvinnslu í því verkefni. Listasafnið sá um alla fræðilega vinnu.

Skjáskot úr þrívíddarmyndbandi úr garði Listasafns Einars Jónssonar

Um myndbandið

Eins og áður hefur komið fram, þá var upprunalega hugmyndin að sýna hvernig tvö sveitabýli lögðust í eyði í náttúruhamförum en þróaðist yfir í að sýna fegurð og frið í staðinn. Í myndbandinu sést hvernig veðrið breytist frá sól og blíðu, yfir í rigningu og svo snjó. Fyrir ókunnuga kann þetta að virðast einfalt brelluatriði, hins vegar vita flestir sem hafa eytt einhverjum tíma á Íslandi, að hægt er að upplifa allar fjórar árstíðir á sama klukkutímanum. Þrívíddarmódelin í myndbandinu voru ýmist fönguð með dróna eða myndavél og síðar unnin í forritinu Reality Capture. Módelin voru svo sett saman í Twinmotion forritinu. Hægt er að skoða nokkrar af styttunum á Sketchfab síðu EFLU.

Lykilatriði sem við höfum lært af verkefninu

Eitt af því allra mikilvægasta sem við lærðum af þessu verkefni er að það getur verið gott að vera opin/n fyrir því að breyta um stefnu í verkefnum. Þó það sé vissulega háð því að vit sé í stefnunni og að teymið sé sammála breytingunum. Epic Megagrants styrkurinn gerði okkur kleift að prófa alveg nýja nálgun á verkefni sem hefði ekki verið mögulegt í hefðbundnu verkfræðistofuumhverfi. Eftirspurn eftir nýjum og sniðugum lausnum í tengslum við þrívíddar grafík og þróun rauntímalausna hefur aukist gríðarlega og við sjáum mikinn áhuga hjá okkar viðskiptavinum fyrir svona þjónustu.

EFLU teymið sem kom að verkefninu er mjög þakklátt fyrir þetta tækifæri og er mjög stolt af lokaafurðinni. Við notuðum margvíslega miðla til að koma því á framfæri og líka til að sýna alla þessa mismunandi „íhluti”. Upprunalega stóð til að skila verkefninu mun fyrr en þar sem við breyttum um stefnu seinkaði afhendingu aðeins. Við viljum þakka starfsfólki Listasafns Einar Jónssonar, Þórbergssetur og fólkinu hjá Epic Games. Að auki þökkum við öllum því samstarfsfólki okkar sem hjálpaði til innan EFLU.