Framtíðin

Vottaðar kolefniseiningar á Íslandi

koldíoxíðsígildi, loftslagsmarkmið, kolefniseining, gróðurhúsalofttegundir, Umhverfisstofnun, ICROA, Nýsköpunarsjóður námsmanna, kolefnisbókhald

sep. 27, 2022 Framtíðin

reykjavik-bloggEFLA vann rannsóknarverkefni sumarið 2022, styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna, sem sneri að því að gera samantekt á stöðu valkvæðra kolefnismarkaða og kortleggja þau tækifæri sem eru til staðar á Íslandi við framleiðslu á vottuðum kolefniseiningum. Ein kolefniseining (e. verified carbon unit), sem getur gengið kaupum og sölum, felur í sér sönnun þess að komið hafi verið í veg fyrir losun á einu tonni koldíoxíðsígilda út í andrúmsloftið eða það bundið miðað við óbreytt ástand. Eins og staðan er í dag er þátttaka íslenskra aðila á markaðinum mjög lítil þrátt fyrir að valkvæðir kolefnismarkaðir séu sívaxandi á heimsvísu.

Valkvæðir kolefnismarkaðir voru settir á laggirnar fyrir tæpum þrjátíu árum til að örva þáttöku einkaaðila í aðgerðum sem taka þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða stuðla að bindingu koldíoxíðs úr andrúmslofti. Valkvæðir kolefnismarkaðir stækkuðu um tæp 50% milli áranna 2020 og 2021 og spá greiningaraðilar að eftirspurn eftir kolefniseiningum gæti margfaldast fyrir árið 2030. Valkvæð loftslagsmarkmið fyrirtækja og stofnana eru helsti drifkrafturinn á bakvið aukna eftirspurn eftir vottuðum kolefniseiningum á valkvæðu mörkuðunum og fer verðið á einingum hækkandi.
Blogg-3Umhverfisstofnun hefur gefið út leiðbeiningar varðandi kolefnisjöfnun og er þar mælt með að kaupendur og seljendur kolefniseininga skuli eingöngu notast vottaðar kolefniseiningar sem styðjast við ICROA viðurkennda staðla, þ.e.a.s. staðla sem hafa fengið viðurkenningu frá Alþjóðasamtökum seljenda kolefnisvottorða. Verkefni sem eru vottuð af þeim stöðlum þurfa að uppfylla kröfur um aukanleika (e. Additionality), s.s. að verkefnið sé viðbót, ekki skyldugt samkvæmt lögum og hefði ekki orðið til nema án aðkomu valkvæðra kolefnismarkaða.

Nokkrir aðilar á Íslandi bjóða upp á kolefnisjöfnun, en ekki er um vottaðar kolefniseiningar að ræða samkvæmt ICROA viðurkenndum stöðlum. Hefur verið ákall úr mörgum áttum hérlendis um staðal fyrir kolefniseiningar, og hefur vinnuhópur Staðlaráðs unnið að tækniforskrift til að styðja við uppbyggingu trúverðugs kolefnismarkaðar sem verður gefin út á haustmánuðum 2022.

Til þess að leggja mat á tækifærum á Íslandi var annars vegar skoðuð mismunandi aðferðafræði hjá starfandi vottunarkerfum, og hins vegar verkefni að baki staðfestra og sannreyndra kolefniseininga sem eru skráð í opnu skráningarkerfi hjá útgefendum. Verkefni sem komu til greina voru flokkuð eftir efnisflokkum; Landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt (LULUCF), landbúnaður, kolefnisföngun og förgun, iðnaðarferlar og efnanotkun (IPPU), úrgangur og orka.

Þau verkefni sem talin eru mikilvægust fyrir íslenskan markað eru skógrækt, endurheimt votlendis, og kolefnisföngun og -förgun, en þetta eru einmitt þau verkefni á Íslandi sem hafa nú þegar hafið ferli til að öðlast vottun á alþjóðlegum kolefnismörkuðum.

Þessir efnisflokkar skipta miklu máli fyrir losunarbókhald Íslands til næstu ára en tæp 70% af kolefnislosun Ísland árið 2020 kom frá LULUCF flokknum (landnotkun, breytt landnotkun og skógrækt) sem er að mestu vegna losunar koltvísýrings frá framræstu votlendi. Þó að IPPU sé næststærsti losunarflokkurinn í bókhaldinu (efnanotkun og iðnaður) fellur nærri því öll losun frá honum undir EU ETS kerfið hérlendis sem kemur í veg fyrir að hægt sé að framleiða valkvæðar kolefniseiningar. Til skemmri tíma væri áhugavert að skoða ýmis verkefni tengd orkuskiptum eins og orkuskipti skipa, eða landbúnaðarverkefni eins og bætta fóðrun til að draga úr losun vegna iðragerjunar, bætta áburðanotkun eða ræktun en þetta eru stórir losunarvaldar innan orku- og landbúnaðarflokks í losunarbókhaldinu.

Augljóst er að valkvæðir kolefnismarkaðir munu breytast mikið á næstu árum, bæði vegna aukinnar eftirspurnar frá fyrirtækjum og samtökum til að kolefnisjafna rekstur sinn, og með tilkomu A6.4ERs kolefniseininga frá 6. grein Parísarsmáttmálans. Einnig er von á nýrri tilskipun frá Evrópusambandinu varðandi sjálfbærniskýrslur fyrirtækja „ CSRD“, sem búist er við í október 2022. Mun CSRD innihalda staðla sem fyrirtæki sem eru skráð eða starfa á skipulögðum mörkuðum ESB þurfa að fylgja og fá óháða vottun á. Líklegt er að mikil áhersla verði lögð á loftslagsbókhald fyrirtækja í náinni framtíð og getur það ýtt undir frekari sölu kolefniseininga á valkvæðum mörkuðum á heimsvísu, sem og innanlands.

Nánari upplýsingar


Blogg-1Þróun á vottuðum kolefniseiningum. Stærstu hluti eininganna í dag kemur frá sjálfstæðum vottunarkerfum eða 74% og er þar Verified Carbon Standard stærstur (World Bank, 2022)


Viltu vita meira?

Velkomið að senda okkur línu ef þú vilt fræðast meira um þjónustu EFLU varðandi þetta verkefni.

Hafa samband