Mikilvægi landtenginga fyrir umhverfi og öryggi

23.12.2019

Blogg
Varðskipið Þór í höfn, tveir hafnarstarfsmenn í gulum öryggisklæðnaði á höfninni

Varðskipið Þór sá Dalvík fyrir rafmagni eftir veðurofsann í desember 2019. Mynd: Landhelgisgæslan.

Mikilvægi rafmagns og fjarskipta aukast stöðugt fyrir alla landsmenn í daglegu lífi. Þau áföll sem urðu í óveðrinu í desember 2019 vegna rafmagnsleysis urðu mikil og eiga jafnvel eftir að koma enn betur í ljós og þá sérstaklega hjá bændum og framleiðslufyrirtækjum.

Starfsfólk iðnaðarsviðs skrifaði greinina.

Rafmagni komið á bæinn með ljósavélum skips

Rafveitur landsmanna keppast við að koma línum í jörðu þar sem það er hægt ásamt því að koma húsi yfir allan búnað þannig að raforkukerfið verði ekki eins útsett fyrir veðurguðunum eða hvers konar náttúruhamförmum. Það verður hins vegar seint þannig að dreifikerfið verði 100% öruggt.

Á svona stundum veltir maður fyrir sér hvað sé til ráða til að minnka skaðann sem slíkar veðurhamfarir eða hvers konar aðrar náttúruhamfarir hafa. Margt kemur til greina en það vakti mikla athygli þegar varðskipið Þór var bundið við bryggju á Dalvík og ljósavélar skipsins notaðar til að fæða bæinn með rafmagni og þar með bjarga verðmætum bæjarbúa. Töluverð vinna var við að koma upp búnaði til að þetta gæti gengið þar sem það þurfti að koma fyrir rafmagnsspenni á bryggjunni til að aðlaga rafspennuna í skipinu við rafspennuna á landi. Þetta lukkaðist prýðilega og Dalvíkingar fengu rafmagn allt að 2 MW.

Síðustu misseri hafa verið töluverðar umræður um að stærri skip skulu tengjast rafmagni úr raforkukerfi landsins til að ekki verði þörf á að keyra rafstöðvar skipsins á meðan skipin eru bundin við bryggju. Nokkuð er um að slíkt sé gert og eru slíkar tengingar þá venjulega aðlagaðar hverju skipi fyrir sig.

Landtenging skipaflotans skiptir miklu máli fyrir land og þjóð í baráttunni gegn loftslagsvánni ásamt því sem það dregur úr kolefnispori Íslendinga.

Orkustofnun áætlar að slík aðgerð mundi skila um 4% samdrætti í losun gróðurhúsaloftegunda í sjávarútveginum ef öll skip gætu tengst landtengingu við Faxaflóahafnir einar.

Fjárfesting og aðlögun næstu skref

EFLA hefur undanfarið skoðað landtengingu skipa og þá aðallega stærri skipa s.s. skemmtiferðaskipa og stórra ferja bæði hvað varðar nauðsynlegan búnað um borð í skipunum sem og nauðsynlega innviði í landi svo hægt sé að tengja skipin án mikillar fyrirhafnar við landskerfið. Það er þó ljóst að slíkt kallar á miklar fjárfestingar í raforkukerfum hafna á Íslandi og einhverrar aðlögunar og breytinga í skipunum sjálfum.

Með góðu skipulagi og samræmdum aðgerðum mætti slá tvær flugur í einu höggi og gera mörg skip að vararafstöðvum við allar hafnir landsins. Skip eru almennt ekki á sjó þegar veðurofsi ríður yfir landið og því líklegt að þau séu bundin við bryggju og jafnvel tengd við landsnetið.

Hægt er að nota landtengingu skipa í vá ef bæir verða rafmagnslausir því hægt er að senda rafmagn úr skipunum inn á landsnetið og bregðast þannig að einhverju leyti við staðbundið rafmagnsleysi.

Slíkar aðgerðir munu kalla á víðtækt samráð bæjarfélaga, rafveitna, útgerðafélaga, opinberra aðila og annarra sem hagsmuna hafa að gæta við ákvörðun um slíkt kerfi. Mikilvægt er að laga- og reglugerðarumgjörð raforku verði þróað til að auðvelda slíkar aðgerðir samhliða tæknilegum útfærslum á dreifikerfunum sem nauðsynlegar eru.

Allir landmenn munu njóta góðs af því ef slíku kerfi væri komið upp bæði hvað varðar rafmagnsöryggi í vá sem og orðspor Íslands um hreina orku og bættrar stöðu í loftlagsmálum.