Tækifæri í stærstu áskorun samtímans

10.03.2023

Mastur í grasi grónni hlíð í Svíþjóð - blár himinn og fallegt skýjafar

Framundan er gríðarlegt verkefni orkuskiptanna. Samfélög allra þjóða eiga það verkefni sameiginlegt, enda virða loftslagsmálin engin landamæri. Enginn er stikkfrí – allir þurfa að taka þátt.

Verkefni til framtíðar

Í sinni einföldustu mynd ganga orkuskiptin út á að skipta út notkun jarðefnaeldsneytis fyrir orku úr grænum, endurnýjanlegum orkugjöfum. Græn orkuframleiðsla heimsins þarf að margfaldast – á methraða. Helstu uppsprettur orku verða vindurinn og sólin.

Heimurinn stendur frammi fyrir risavöxnu umbreytingarverkefni. Hugarfari þarf að breyta, tækni þarf að þróa, nýjar virðiskeðjur þarf að byggja upp, grænt atvinnulíf og innviðir þurfa að verða til og samfélög þarf að aðlaga. Og þetta þarf að gerast um allan heim.

Ljóst er að áhrifa loftslagsbreytinga er þegar farið að gæta, og er gríðarlegt verkefni að styrkja seiglu samfélaga og koma vörnum við. Heimurinn er í kapphlaupi við tímann.

Ef þjóðir heims taka höndum saman má hins vegar snúa þróuninni við. Það mun ekki gerast eins og hendi sé veifað, en skrefin þarf að taka strax, ákveðið og markvisst. Þetta er langtíma verkefni, margt er ófyrirséð og óleyst, og óvissa í hverju skrefi. En við verðum að ýta úr vör.

Sýnt hefur verið fram á, bæði hérlendis og fyrir heiminn í heild, að efnahagslegur ávinningur orkuskiptanna er gríðarlegur þó kostnaður fjárfestinga sé mikill. Því er ekki einungis um að ræða umhverfislegan ávinning til loftslagsins og heilbrigðari samfélaga, heldur einnig arðsama fjárfestingu til framtíðar og nýja verðmætasköpun með tækifærum fyrir heimsbyggðina.

Orkusaga Íslendinga er undirstaða velferðarsamfélagsins hér við heimskautsbaug. Þessum árangri hefur auk annars fylgt uppbygging framúrskarandi tækniþekkingar hérlendis, sem smitast hefur um allt samfélagið, gert ný tækifæri möguleg á fjölmörgum sviðum, og skapað verðmætar útflutningsvörur.

A single wind turbine against a snowy landscape with low sun on the horizon

EFLA er lýsandi dæmi um þekkingarfyrirtæki sem sprottið er úr þessu umhverfi. Afar fjölbreytt þekking fyrirtækisins byggist að verulegu marki, beint og óbeint, á nýtingu endurnýjanlegrar orku hérlendis.

Grípum tækifærið

Talandi dæmi er árangur EFLU í ráðgjöf við uppbyggingu orkuflutningskerfa. Nú nýlega birtist frétt í fjölmiðlum um nýtt og veigamikið verkefni EFLU fyrir Svenska Kraftnet í Svíþjóð. Einungis EFLA uppfyllti gæðakröfur í samkeppni um þetta krefjandi verkefni. Fyrirtækið er raunar í forystu á þessu sviði á heimsvísu, og stendur gjarnan best að vígi þegar kröfurnar eru mestar. Fyrirtæki EFLU í Noregi, Svíþjóð, Póllandi, Frakklandi og Þýskalandi eru öll leiðandi á þessu sviði.

Fram kom þegar EFLA hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands á síðasta ári að fyrirtækið hefði flutt út þekkingu fyrir um 20 milljarða króna á síðasta áratugnum, mest á sviði orkuflutnings, en einnig m.a. tengt stjórnkerfum í iðnaði og jarðvarma, sem líka byggja á orkutengdum verkefnum.

Með tilkomu nýrra og óstöðugra orkugjafa s.s. sólar- og vindorku á nýjum svæðum verður orkuflutningurinn lykillinn að árangri orkuskiptanna. Þar mun reyna á og pressa orkuskiptanna verður mikil. EFLA er hér í kjörstöðu til stuðnings, vegna orkuuppeldis og þekkingar úr heimahögum.

En tækifærin eru fleiri – svo miklu fleiri. Íslendingar eru í þeirri stöðu að geta lagt verulega af mörkum í orkuskiptunum, jafnframt því að nýta tækifæri og verðmætasköpun sem í þeim felast.

Tökum því áskorun orkuskiptanna af fullum krafti, rennum frekari stoðum undir íslenskt velferðarsamfélag og búum til ný dæmi um framúrskarandi árangur með leiðandi þekkingu.