Umferð í samkomubanni

20.03.2020

Blogg
Bílar að keyra á umferðargötu, Elliðárdalur í bakgrunn

Sérfræðingar EFLU á sviði samgöngumála og hagfræði fylgjast með áhrifum samkomubanns á umferðarmælingar og birta niðurstöðurnar í greininni.

Síðustu vikur | Umferðarmælingar í samkomubanni

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu nálgast sitt gamla form en umferð hefur aukist jafnt og þétt frá því að mestur samdráttur mældist í lok mars, eða þegar hert samkomubann tók gildi þann 24. mars. Nýjustu umferðartölur eftir að slakað var á samkomubanni benda til að umferð sé að verða sambærileg og í vikunni fyrir samkomubannið. Fjöldi gangandi og hjólandi vegfarenda eftir hjóla- og göngustígum hafa aftur á móti aldrei verið fleiri en í apríl síðastliðnum og var hlutfallsleg aukning yfir 100% að meðaltali miðað við sama mánuð í fyrra.

Umferð á höfuðborgarsvæðinu að nálgast sitt gamla form

Eftir að dregið hafði verið úr umferð jafnt og þétt á höfuðborgarsvæðinu frá því að samkomubann var sett á og eftir að samkomubann var hert, þá hefur umferð byrjað að aukast aftur frá því eftir páska. Mesta umferð á höfuðborgarsvæðinu frá því að samkomubann var sett á, mældist síðastliðinn mánudag 4. maí þ.e. sama dag og slakað var á samkomubanninu. Mælingarnar eru byggðar á gögnum úr 79 umferðarteljurum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið sem fengust frá Reykjavíkurborg og má sjá þróunina frá því í febrúar á myndinni hér að neðan.

Þegar horft er á umferðardreifingu yfir sólarhringinn í apríl, þá sýna mælingar að enn er umferð talsvert minni árdegis en á móti kemur að umferð seinni partinn er að verða sambærileg og um „hefðbundna“ umferð sé að ræða. Dæmi um þetta má sjá á grafinu hér að neðan sem sýnir sólahringsumferð eftir Miklabraut við Kringlumýrarbraut þar sem umferð á miðvikudögum núna í apríl er borin saman við umferðina á miðvikudegi í byrjun mars síðastliðnum.

Aldrei mælst fleiri gangandi vegfarendur

Fjöldi gangandi og hjólandi vegfarenda á göngu- og hjólastígum rúmlega tvöfalt fleiri en gerist og gengur í apríl

Ekki hefur farið fram hjá neinum íbúa á höfuðborgarsvæðinu að talsvert fleira fólk hefur sést á gangi á útivistarsvæðum borgarinnar en gengur og gerist á þessum árstíma. Þessi áhrif samkomubannsins á ferðahegðun íbúa höfuðborgarsvæðisins má sjá nokkuð glögglega þegar bornar eru saman mælingar á fjölda gangandi og hjólandi vegfarendum eftir hjóla- og göngustígum. Mælingarnar eru fengnar úr 10 sjálfvirkum mælisniðum eftir hjóla- og göngustígum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið sem settir voru upp á árunum 2017 til 2018 og eru þær aðgengilegar á borgarvefsjá Reykjavíkurborgar.

Þegar skoðuð eru gögn um gangandi vegfarendur aftur til ársins 2017/2018, þá hafa aldrei mælst jafn margir gangandi vegfarendur í einum og sama mánuðinum og í apríl síðastliðnum. Því er væntanlega um met að ræða – þessa þróun fyrir valda mæla (Elliðaárdal, Nauthólsvík og Hafnarfirði) er sýnd hér að neðan. Í átta af tíu mælisniðum, þá mældust í apríl um og yfir tvöfalt fleiri gangandi og hjólandi vegfarendur sé miðað við sama mánuð í fyrra. Þetta má einnig skoða nánar á gröfunum hér að neðan.

Fjöldi hjólandi vegfarenda mældust einnig langt um fleiri en gengur og gerist í apríl og er fjöldinn á sama pari og mældist mest í maí í fyrra og toppar alla mánuði ársins 2019.

Það sama gildir um hjólandi vegfarendur og um gangandi; flest mælisnið í apríl mældu um eða yfir tvöfalt fleiri vegfarendur samanborið við sama mánuð í fyrra, sjá gröfin sem á eftir fylgja.

Hvort áhrif samkomubanns verða tímabundin eður ei, kemur væntanlega í ljós yfir næstu mánuði og misseri. Nú þegar fleiri snúa aftur til vinnu og skóla verður forvitnilegt að fylgjast áfram með þróun bílaumferðar og notkun annarra fararmáta.

Vika 2 | Umferðarmælingar í samkomubanni

Áfram heldur að draga úr umferð á höfuðborgarsvæðinu vegna samkomubanns. Samkvæmt mælingum úr umferðarteljurum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið sem fengust frá Reykjavíkurborg hefur umferð á virkum dögum dregist töluvert saman. Dregið hefur jafnt og þétt úr umferðinni á höfuðborgarsvæðinu frá því að samkomubann var sett á og hefur umferð í þessari viku (23. - 26. mars 2020) dregist saman sem nemur nærri 40% sé miðað við sömu vikudaga (þri-fim) síðustu tvær vikurnar í febrúar.

Samkvæmt mælingum úr umferðarteljurum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið sem fengust frá Reykjavíkurborg dró úr umferð á götum höfuðborgarinnar sem nemur um 24% þegar samkomu bannið var sett á, en þetta hlutfall lækkaði niður í 38% þegar samkomubannið var hert síðastliðinn þriðjudag. Samanburður á daglegum umferðarmælingum frá því í byrjun febrúar sýnir glögglega hver þróunin hefur verið á undanförnum vikum. Eini dagurinn fyrr á þessu ári sem er í líkindum við umferðina sem nú er á götum höfuðborgarsvæðisins var 14. febrúar þegar rauð viðvörun var í gildi á höfuðborgarsvæðinu þar sem skólahald féll niður og fólk hvatt til þess að halda sig heima, ekki ósvipað núverandi aðstæðum!

Þegar horft er á umferðardreifingu yfir sólarhringinn þá sést að dregið hefur úr umferð nokkuð hlutfallslega jafnt yfir allan sólarhringinn. Á annatíma má sjá að verulega hefur dregið úr umferðartoppum eins og sjá má úr mælisniði á Miklabraut við Kringlumýrarbraut í grafinu hér neðan.

Misjafnt er hversu mikið hefur dregið úr umferð eftir einstaka götum en dregið hefur verulega úr umferð miðsvæðis í Reykjavík samanborið við mælisnið austar á höfuðborgarsvæðinu. Það verður áhugavert að fylgjast með þróun í þessum málum enn frekar á komandi vikum.

Vika 1 | Umferðarmælingar í samkomubanni

Áhrif samkomubanns á umferð fyrstu vikuna í samkomubanni hafa verið umtalsverð. Samkvæmt mælingum úr umferðarteljurum víðsvegar um höfuðborgarsvæðið sem fengust frá Reykjavíkurborg dró úr umferð á götum höfuðborgarinnar sem nemur um 23% í byrjun vikunnar sé miðað við sömu vikudaga fyrir 3-4 vikum síðan. Þessi áhrif samsvara mögulega minnkun í akstri sem nemur um 900.000 km á dag eða 685 hringferðum eftir þjóðvegi 1 um landið.

Þessa minnkun má án efa rekja til samkomubannsins. Misjafnt er hversu mikið umferð minnkaði hlutfallslega innan höfuðborgarsvæðisins en mest virðist hafa dregið úr umferð á Kringlumýrarbraut (Hafnarfjarðarvegi) og vestan hennar. Sem dæmi, þá er um þriðjungsfækkun í kringum Bústaðarveg og á Hringbraut. Mögulega má rekja þessa miklu fækkun til þess að kennsla hefur ekki farið fram í háskólum og framhaldsskólum ásamt því að búið er að fresta viðburðum sem margir hverjir fara fram miðsvæðis í Reykjavík.

Þegar dreifing umferðar er skoðuð um einstakar götur sést að það hefur dregið úr umferð yfir allan daginn og rennir því stoðum undir það að dregist hefur úr umferðartöfum sem hefur líklega ekki farið fram hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins.

Þessi samdráttur umferðar er áhugaverður að mörgu leyti, en hann endurspeglar mikið til hver áhrifin eru á umferð ef markvisst er hægt að hvetja til annarra fararmáta en einkabílsins og aukinnar fjarvinnu. Ef dregin er sú ályktun að þessi samdráttur (23%) endurspeglist í sama hlutfalli í heildarakstri íbúa innan höfuðborgarsvæðisins, þá endurspeglast það í akstri sem nemur um 900.000 km á dag eða 685 hringferðum eftir þjóðvegi 1 um landið.1

Út frá sömu ályktun, þá sparast á hverjum degi 145 tonn CO₂ af útblæstri frá umferð sem samsvarar árslosun 70 meðal fólksbíla.2

Vert er að taka fram að niðurstöður hér að ofan byggja aðeins á samanburði fyrstu tvo daga samkomubannsins og skal því taka niðurstöðum með fyrirvara.

Línurit sem sýnir umferð á Miklubraut við Kringlumýrarbraut

Skýringar

  1. Miðað er við að heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu sé 4,6 milljón kílómetrar á dag (Mkm/dag) og að þar af er sé akstur sem rekja megi til íbúa sé 85% af heildarakstri.

  2. Miðað er við útblástursgildi umferðar sem nemur 156,8 g CO₂/km.