„Vöntun á keppnisvelli í frisbígolfi”

16.07.2024

Fréttir
Menn með blóm.

Frisbígolf Glúmur Björnsson, einn af forsvarsmönnum keppnisvallar í frisbígolfi í Selskógi við Egilsstaði, og Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU.

„Draumurinn er að þetta verði skemmtilegasti frisbígolfvöllur landsins fyrir lengra komna,” segir Glúmur Björnsson, einn af forsvarsmönnum keppnisvallar í frisbígolfi í Selskógi við Egilsstaði. Völlurinn og uppbygging hans var eitt þeirra verkefna sem fékk styrk úr Samfélagssjóði EFLU.

Opna formlega sumarið 2025

Vinna við völlinn hófst haustið 2023 og stendur enn yfir. Hingað til hefur öll vinnan verið unnin í sjálfboðavinnu. „Við stefnum að því að völlurinn opni formlega á næsta ári, sumarið 2025,” segir Glúmur.

Enginn keppnisvöllur fyrir frisbígolf er fyrir á svæðinu. „Hugmyndin kviknaði vegna þess að það er vöntun á keppnisvelli í frisbígolfi frá Akureyri og suður á suðvesturhornið. Við eigum mjög skemmtilegt útivistarsvæði í Selskógi og okkur fannst upplagt að gera keppnisvöll þar,“ útskýrir Glúmur.

Hann segir að hugmynd með þessu verkefni sé einnig að búa til menningu og hefð fyrir þessari íþrótt á svæðinu. „Það er erfitt að meta fjölda iðkenda enda hefur ekki verið neitt skipulagt starf í gangi hingað til en við erum að reyna að breyta því. Mér finnst líklegt að breiður hópur muni heimsækja völlinn enda eru til diskar á flestum heimilum,“ segir Glúmur að lokum.

Nánari upplýsingar um Samfélagssjóð EFLU.