Aflmeiri landtengingar fyrir sjávarútveg

11.12.2018

Fréttir
A graphic includes a rope and tiny ships with emission symbols

Fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur vegna landtengingar skipa er umtalsverður.

Verkefni EFLU um fyrirhugaða landtengingu rafmagns fyrir uppsjávarskip hefur vakið töluverða athygli. Skoðaðir hafa verið fjárhagslegir og umhverfislegir ávinningar sem skapast við landtengingu uppsjávarskipa í sjávarútveginum.

Aflmeiri landtengingar fyrir sjávarútveg

Löndun á afla úr uppsjávarskipi í vinnslulínur fiskiðjuvera krefst töluverðrar orku. Í dag er sú orka framleidd með olíudrifnum rafölum um borð í skipi á meðan löndun stendur en löndunartími skips í uppsjávarvinnslu getur verið á annan sólarhring. Töluverður ávinningur er því fólginn í að nota raforku frá landi í stað olíu um borð í skipum við löndun á hráefni.

EFLA hefur útfært fyrir Síldarvinnsluna í Neskaupstað landtengingu fyrir uppsjávarskip fyrirtækisins þannig að hægt verður að taka út alla olíunotkun skips á meðan löndun stendur yfir.

Verkefnið og forsendurnar miðast við landtengingu sem aðlöguð er að rekstrarspennu viðkomandi skips.

Tæknilegar forsendur

Miðað var við eftirfarandi forsendur við útfærslu verkefnis:

 • Að kerfið ráði við 500kWst stöðugt álag frá skipi
 • Kerfið þarf að geta afgreitt bæði 440V/60Hz og 690V/60Hz
 • Kerfið þarf að hafa möguleika á samfösun við viðkomandi skip
 • Notast verður við rými sem þegar er til staðar undir tækjabúnað í landi
 • Einungis eitt skip tengist kerfi í einu

Umhverfisvænn og fjárhagslegur ávinningur

Fjárhagslegur og umhverfislegur ávinningur sem skapast við landtengingu uppsjávarskipa er:

 • Orkukostnaður lækkar
 • Minni óvissa gagnvart sveiflum á orkuverði (olíu)
 • Notaður er innlendur og „grænn“ orkugjafi
 • Loftmengun frá skipi ekki til staðar meðan skip er við bryggju
 • Minna slit á vélbúnaði um borð
 • Betra vinnuumhverfi þar sem hljóðmengun og titringur er ekki í vélarúmi skips
 • Styrkir ímynd fyrirtækisins

Fjárhagslegur kostnaður

Kostnaðaráætlun við 500 kW kerfi og breytingar á fyrirliggjandi skipum er eftirfarandi:

 • Kostnaður við kerfi í landi er áætlaður um 60 m.kr. (spennir, umbreytir, aflskápar og lagnir ásamt breytinu á rými og tengibúnaði á bryggju við skip).
 • Kostnaður við að breyta skipi fyrir landtengingu er áætlaður 9-12 m.kr.
 • Endurgreiðslutími fjárfestingar á kerfi í landi er um 3 ár
 • Ef þremur eldri skipum er breytt til að geta landtengst er endurgreiðslutími heildarfjárfestingar áætlaður um 5 ár.

Það er fjárhagslega hagstæðara að setja búnað fyrir landtengingu í skip þegar um er að ræða nýsmíði skips. Kostnaðurinn við slíkar breytingar er helmingi lægri en þegar breyta á kerfi í eldra skipi.

Getur tekið sex mánuði

Að útfærslu verkefnis koma að hönnuðir, tæknimenn og vélstjórar ásamt framleiðendum og söluaðilum búnaðar. Gert er ráð fyrir að verktími taki um 6 mánuði, þar sem afhending búnaðar (spennar/umbreytar) getur tekið allt að 4-5 mánuði.

Glærur | Aflmeiri landtengingar uppsjávarskipa