Aksturshraði í hringtorgum

15.01.2020

Fréttir
An aerial view of a roundabout with several exits and vehicles

EFLA rannsakaði aksturshraða ökutækja við sex hringtorg.

EFLA vann rannsóknarverkefni þar sem skoðað var samspil hönnunar hringtorga og umferðarhraða í þéttbýli og dreifbýli. Helstu niðurstöður sýna að hraði við inn- og útkeyrslur hringtorga í þéttbýli er meiri en æskilegt er. Hringtorg í dreifbýli draga almennt séð úr umferðarhraða en hönnun á slíkum hringtorgum er síður æskileg í þéttbýli.

Aksturshraði í hringtorgum

Síðastliðið ár vann EFLA að verkefni um aksturshraða í hringtorgum sem styrkt var af Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Í rannsókninni var notast við dróna til að mynda ökutæki sem keyrðu í gegnum hringtorg. Skoðuð voru sex hringtorg, fjögur á höfuðborgarsvæðin og tvö utan þéttbýlis, en leyfilegur hámarkshraði var sá sami við öll hringtorgin í þéttbýli (50 km/klst.) sem og við hringtorgin í dreifbýli (70 km/klst).

Dróni og myndgreining notuð til að rannsaka hraða ökutækja

Til að meta hraða ökutækja voru myndbönd myndgreind í samstarfi við Logiroad. Hraði í ákveðnum sniðum var borinn saman (sjá dæmi um snið á mynd 2) til að meta áhrif hringtorga á hraða ökutækja og ýmsa hönnunarþætti þeirra s.s. stærð miðeyju og radíus innkeyrslu/útkeyrslu. Ýmsar aðrar upplýsingar fást úr myndgreiningu, til dæmis flokkar ökutækja og greining akstursleiða.

Niðurstöður verkefnisins sýna meðal annars að hringtorgin draga öll markvisst úr hraða ökutækja en þó mismikið. Niðurstöður sýna að 85%1 hraði við inn- og útkeyrslu mældist yfir 30 km/klst fyrir öll hringtorgin í þéttbýli. Þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur þvera götur er hins vegar æskilegt að 85% hraði sé um og undir 30km/klst.

An aerial view of a roundabout with labels in Icelandic

Mynd 2 sýnir dæmi um snið þar sem hraði ökutækja var mældur.

Meiri hraði í tvíbreiðum hringtorgum

Niðurstöðurnar sýna einnig að hraði er meiri í tvíbreiðum hringtorgum (hringtorg með tvær akreinar í sömu akstursstefnu). Ástæðan fyrir því er að ökutæki hafa þá möguleika á að nýta sér breiddina til að hraða á sér. Vegna þessa og að sökum skerðinga á sjónlengdum er ekki ráðlagt að láta gangandi og hjólandi þvera hringtorg sem hafa tvær akreinar í sömu akstursstefnu, án þess að vera með sérlausnir. Svíar hafa til dæmis leyst þetta með því að hafa milli-miðeyjur fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur staðsettar á milli akreina í sömu akstursstefnu.

Hringtorg í dreifbýli draga úr hraða

Helstu niðurstöður fyrir hringtorg utan þéttbýlis gefa til kynna að hringtorg í dreifbýli (sænsk hönnun) séu góð leið til að draga úr hraða ökutækja fyrir utan þéttbýli en þau henta hins vegar ekki vel innan þéttbýlis. Með það til hliðsjónar þjóna hringtorg utan þéttbýlis vel hlutverki sem þéttbýlishlið og draga úr hraða ökutækja þegar þéttbýli nálgast.

85% hraði er sá hraði sem 85% ökumanna halda sig innan.

Nánari upplýsingar um verkefnið veita Daði Baldur Ottósson og Berglind Hallgrímsdóttir.

An aerial view of a roundabout with blue traffic flow lines

Dæmi um niðurstöður úr myndgreiningu á myndböndum úr dróna. Skærari litur táknar hærri hraða.