Allt um steypu á árlegum Steinsteypudegi

17.11.2021

Fréttir
Two individuals standing in a room with a banner of EFLA in the background

Guðni Jónsson og Vigdís Bjarnadóttir á Steinsteypudeginum árið 2021.

Árlegur Steinsteypudagur fór fram nýverið og voru fulltrúar EFLU með kynningarbás, fluttu erindi um steypt burðarvirki í Landsbankanum og birtu grein í Sigmáli, tímariti Steinsteypufélagsins.

Allt um steypu á árlegum Steinsteypudegi

Steinsteypufélagið hefur veg og vanda að ráðstefnunni en markmið þess er m.a. að stuðla að hagnýtri og fræðilegri þróun á sviði steinsteypu og steinsteyputækni á Ísland. Ráðstefnan fór fram föstudaginn 5. nóvember á Grand Hóteli og voru þátttakendur sammála um að mjög vel hafi tekist til með Steinsteypudaginn í ár.

Vistvæn hampsteypa

Það var mál manna að mikilvægt væri að huga að vistvænum lausnum þegar kemur að efnisvali í byggingarframkvæmdum, en eitt af viðfangsefnum EFLU er að þróa og rannsaka lausnir fyrir byggingaiðnaðinn sem eru umhverfisvænni. Af því tilefni birti Ingimar Jóhannsson, byggingarverkfræðingur, áhugaverða grein í fréttablaðinu Sigmáli, og fjallaði um rannsókn EFLU á nýtingu hampsteypu, framleidda úr iðnaðarhampi, við íslenskar aðstæður. Einnig voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar tilgreindar, en þær fóru fram á viðurkenndri og vottaðri rannsóknarstofu EFLU. Á kynningarbás EFLU á ráðstefnunni var hampsteypukubbur til sýnis og vakti hann töluverða athygli gesta.

Smelltu til að lesa greinina: Hvað er hampsteypa?

Steypt burðarvirki Landsbankans

Að auki hélt Daði Snær Pálsson, byggingarverkfræðingur hjá EFLU, erindi sem fjallaði um steypu og steypt burðarvirki í nýbyggingu Landsbankans við Austurbakka. Byggingin er með steyptu burðarvirki, aðallega steyptum súlum og plötum með steyptum kjörnum. Óregluleg lögun og aðstæður vegna mannvirkja sem liggja í kringum húsið varð til þess að beita þurfti fjölbreyttum lausnum í steypuhönnun. Steypan gegnir líka því hlutverki að halda grunnvatni frá kjallaranum. Í botnplötum og kjallaraveggi var valin umhverfisvænni steypa með auknu magni af kísilryki og flugösku á kostnað sements sem lækkar kolefnisspor byggingarinnar. Steypan gegnir lykilhlutverki í útliti byggingarinnar að innan þar sem margir fletir eru með sjónsteypu og munstursteypuáferð.

Glærukynning Daða | Steypt burðarvirki í Landsbankanum

Nemendaverðlaun fyrir lokaverkefni

Á Steinsteypudeginum er veitt viðurkenning til námsmanna sem hafa klárað lokaverkefni á sviði steinsteypu. Í ár hlaut Björgvin Grétarsson verðlaunin fyrir ritverð sína sem fjallar um sker í steypu s.s. skerflutning, helstu breytur sem hafa áhrif á skerstyrk, gerðir skerbrota og mismunandi skerstyrkslíkön. EFLA var eitt af fyrirtækjunum sem veitti styrk til nemendaverðlaunanna í ár og óskar handhafa verðlaunanna til hamingju með viðurkenninguna.