Ánægja með matjurtakassa við Hlíðabæ

11.10.2019

Fréttir
Two individuals assembling a wooden garden bed in a small green garden setting

Matjurtakassarnir voru settir upp við Hlíðabæ síðastliðið vor. Mynd: Hlíðabær.

Eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem Samfélagssjóður EFLU hefur lagt lið við er uppsetning matjurtakassa fyrir skjólstæðinga Hlíðabæjar.

Hlíðabær er sérhæfð dagþjálfun fyrir fólk sem greinst hefur með heilabilunarsjúkdóm. Þar er leitast við að koma á móts við hæfni og áhuga hvers og eins og að finna viðfangsefni við hæfi. Starfsmenn Hlíðabæjar fengu þá hugmynd að koma upp matjurtakössum við húsnæðið í Reykjavík með það markmið að auka fjölbreytni viðfangsefna og stuðla að útiveru skjólstæðinga. Hlíðabær sótti um styrk úr Samfélagssjóði EFLU síðastliðið vor og fékk úthlutað fjárstyrk úr sjóðnum sem var notaður í uppsetningu matjurtakassa til að rækta grænmeti.

Eigin uppskera í garðinum

Starfsfólk Hlíðabæjar hafði frumkvæði að verkefninu og Katrín Guðmundsdóttir, sjúkraliði, var þar fremst í flokki. „Sjálf hef ég brennandi áhuga á matjurtaræktun, garðvinnu og útiveru. Eftir spjall hér innandyra hjá okkur í kjölfar umræðu um þá vitundarvakningu sem á sér stað í þjóðfélaginu að rækta hluti og vera meira sjálfbær fórum við á flug um að það væri nú gaman að geta farið út í garð hér í Hlíðabæ og tekið upp eigin grænmetisuppskeru.“ sagði Katrín. Í kjölfarið hófst umræða um útfærslu á verkefninu, hvað ætti að rækta og með hvaða hætti. „Við komum öll að þessari umræðu og hugmyndin fékk mikinn meðbyr innanhúss og fólk var afar áhugasamt um þetta framtak.“ sagði Katrín.

Samvinnuverkefni og þátttaka úr mörgum áttum

Verkefnið átti sér nokkurn aðdraganda, allt frá því hugmyndin vaknaði þar til kassarnir voru smíðaðir frá grunni. „Það voru mörg handtökin sem komu að hönnun og smíði kassanna og nutum við velvildar fjölskyldumeðlima við smíðavinnu, að klæða kassana að innan, fúaverja og koma moldinni fyrir. Þetta var því heilmikið samvinnuverkefni en áherslan frá upphafi var að leyfa skjólstæðingum okkar að vera með í öllu ferlinu.“ bætir Katrín við.

Aðspurð um uppskeru ársins segir Katrín hlæjandi. „Það varð nú aðeins uppskerubrestur í rófum og gulrótum, en við fengum flotta uppskeru hvítkáls, blómkáls og kartaflna. Enda erum við búin að gæða okkur á blómkálssúpu, hvítkáli og kartöflum upp á síðkastið og hefur grænmetið aldrei smakkast jafn vel. En við lærum af reynslunni og höldum ótrauð áfram með matjurtaræktunina á næsta ári og vonumst til að uppskeran verði enn gjöfulli þá.“

Mikil ánægja með framtakið

Verkefnið hefur veitt skjólstæðingum og starfsfólki Hlíðarbæjar mikla ánægju og segir Katrín það hafa verið gleðilegt að sjá hve margir tóku þátt í ferlinu. Allt frá því að setja niður grænmeti, hugsa um það, rífa upp arfa og taka upp uppskeruna. „Heilmargir rifjuðu upp gamla takta úr sveitinni og voru fljótir að tileinka sér réttu vinnubrögðin. Það var okkur ómetanlegt að fá þennan fjárstyrk úr Samfélagssjóði EFLU til að koma verkefninu á laggirnar. Ánægja skjólstæðinga okkar og starfsfólks við að fylgjast með grænmetinu vaxa og að borða eigin matjurtaræktun er einstök og hefur veitt okkur mikla gleði.“ bætir Katrín við að endingu.

Hægt er að sækja um í Samfélagssjóð EFLU á vefnum. Umsóknarfrestur fyrir haustúthlutun er til 15. október.