Innan veggja EFLU er ávallt handagangur í öskjunni. Vissulega snýst mest allt um verkefnin sem starfsfólk EFLU vinnur fyrir viðskiptavini og samstarfsaðila. Stökum sinnum þarf þó að sinna öðrum hlutum og hneppa öðrum hnöppum.
Óvenjulega stórt ár
Þetta ár var óvenjulega stórt fyrir félagið því EFLA fagnaði 50 ára afmæli á þessu ári. Þá var hálf öld síðan Verkfræðistofa Suðurlands, sem síðar varð hluti af EFLU, var stofnuð. Þessu var fagnað með því að halda nokkur EFLU-þing og veglega árshátíð fyrir starfsfólk samsteypunnar.
Einnig fékk EFLA viðurkenningu frá CreditInfo fyrir að vera framúrskarandi fyrirtæki árið 2023 og það 14. árið í röð. „Þessi árangur hefur ekki náðst af sjálfu sér heldur er afrakstur þrotlausrar vinnu starfsfólks og eigenda,“ sagði Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdarstjóri EFLU, af þessu tilefni.
EFLA tilheyrir hópi fyrirtækja sem setur sjálfbærni í forgang og undirritaði Sæmundur Sæmundsson yfirlýsingu hjá Global Compact fyrir hönd fyrirtækisins. EFLA sendi í júní frá sér sjálfbærni- og ársskýrslu með upplýsingum um árangur og framgang fyrirtækisins.
Sviðsstjóri, sumarstarfsfólk og skerðingarleysi
EFLA tók þátt í kvennafrídeginum 24. október með því að veita kvenkyns starfsfólki frí án launaskerðingar. Hjá EFLU er ríflega 32% starfsfólks konur, alls 141 talsins. Ein þeirra, Birta Kristín Helgadóttir, tók við stöðu sviðsstjóra Orku hjá EFLU á þessu ári og tók einnig sæti í framkvæmdastjórn félagsins.
Á hverju ári ræður EFLA til sín sumarstarfsfólk sem eru að lang stærstum hluta háskólanemar í verkfræði. Þetta árið var sumarstarfsfólkið 45 talsins og af þeim störfuðu 24% á landsbyggðinni. EFLA tekur við umsóknum fyrir sumarstarfsfólk ársins 2024 snemma á nýju ári.