Fjölmiðlar leita reglulega til starfsfólks EFLU til að fá sérfræðiálit þess á fjölbreyttum málefnum og í ár var engin undantekning. Þeir komu ekki að tómum kofanum þar því starfsfólk EFLU hefur gríðarlega mikla og fjölbreytta þekkingu sem það vill gjarnan deila með öðrum.
Annáll 2023 | Fjölmiðlar, fyrirbæri og fræðsla
Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, var í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 í janúar. Þar fræddi hann hlustendur þáttarins um lífmassa í heiminum og hvernig hlutdeildin skiptist á milli lífvera. Þar kom m.a. fram að villtum spendýrum fækkar viðstöðulaust, helst vegna útþenslu mannsins.
Alexandra Kjeld, umhverfisverkfræðingur hjá EFLU, var gestur á Morgunvaktinnni á Rás 1 í febrúar. Þar ræddi hún um vottaðar kolefniseiningar, hvernig kerfið virkar í kringum sölu vottaðra kolefniseininga og söguna þar á bakvið.
Erlendis, eftirlit og Energy focus
Í febrúar var EFLA til umfjöllunar í útgáfu Energy Focus. Þar ræddu þeir Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri, og Steinþór Gíslason, sviðsstjóri orkusviðs, um alþjóðlegan uppgang félagsins og hvernig hann er tilkominn.
Birta Kristín Helgadóttir og Steinþór Gíslason voru í viðtali við Orkublað Orkuklasans í mars. Þar var fjallað um orkuverkefni EFLU hér á landi og erlendis þar sem EFLA sinnir fjölda verkefna fyrir rekstraraðila flutningskerfa fyrir raforku.

Landspítali, Langjökull og löng ísgöng
Í maí birtist grein í blaði ráðstefnunar World Tunnel Congress um gerð ísganganna í Langjökli. Þeir Reynir Sævarsson, fyrirliði viðskiptaþróunar og nýsköpunar hjá EFLU, og Hallgrímur Örn Arngrímsson, fyrrum starfsmaður EFLU og nú viðskiptastjóri á samgöngu- og umhverfissviði Verkís, skrifuðu greinina saman.
Uppbygging nýs Landspítala var til umfjöllunar í Kastljósi í maí. Þar var rætt við Rúnar Jón Friðgeirsson, byggingartæknifræðing hjá EFLU, sem hefur eftirlit með framkvæmd uppbyggingarinnar og Runólf Pálsson, framkvæmdarstjóra Landspítalans.

Þarfir, þögn og þess háttar
Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur hjá EFLU, var í viðtali um almenningssamgöngur á Íslandi í Speglinum á Rás 2 í ágúst. Hann hefur verið ráðgjafi við hönnun nýs leiðarnets Strætó sem á að vera talsvert skilvirkara en það gamla, í takt við kröfur og þarfir notenda og opinbera stefnu ríkis og sveitarfélaga í umhverfis- og loftslagsmálum.
Í nóvember fjallaði Guðrún Jónsdóttir, hljóðverkfræðingur um fyrirbærið þögn, í innslagi í Uppástand á Rás 1. Þar var fjallað um ýmis fyrirbæri frá ólíkum hliðum.
Nóttina eftir að eldgos hófst á Reykjanesskaga í lok árs var Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá EFLU, í viðtali við Stöð 2 þar sem hann lagði mat sitt á stöðuna. Hann hafði vikurnar á undan unnið að gerð varnargarða í kringum Svartsengi að undanförnu.