Eftir vel unnin verk er vel þegið að fá klapp á bakið sem hvetur okkar fólk til áframhaldandi góðra verka. Starfsfólk EFLU tók á móti nokkrum viðurkenningum fyrir verk sín á þessu ári auk þess sem verkefni þar sem EFLA var á meðal þátttakanda voru verðlaunuð.
Steinsteypuverðlaunin 2023
Á Steinsteypudeginum í febrúar fengu VÖK baths Steinsteypuverðlaunin 2023. Óli Grétar Metúsalemsson, byggingarverkfræðingur EFLU á Austurlandi, tók við verðlaununum fyrir hönd EFLU en hann stjórnaði hönnun steyptra eininga í verkinu.
Byggð, BREEAM og betri framtíð
Hönnun á nýju húsnæði Landsbankans hlaut frábæra einkunn (e.excellent) samkvæmt alþjóðlega BREEAM-umhverfisstaðlinum. EFLA sá um alla verkfræðihönnun og sjálfbærniráðgjöf ásamt því að útvega sérfræðing í BREEAM matsmannshutverk húsnæðisins.
Hjúkrunarheimilið Móberg á Selfossi fékk Grænu skófluna á degi Grænnar Byggðar í september. EFLA sá um umhverfisráðgjöf og vistferilsgreiningu (LCA) fyrir bygginguna ásamt BREEAM vottun.
Hornsteinar arkitektar báru sigur úr býtum í flokknum Staður ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands fyrir hönnun á Eddu, húsi íslenskunnar. EFLA sinnti hlutverki byggingarstjóra í verkefninu auk þess að sjá um hljóðvistarhönnun, bruna- og öryggishönnun og umhverfisráðgjöf í tengslum við BREEAM vistvottun.
Þekking, þróun og þurrkað timbur
Fjögur verkefni frá starfsfólki EFLU fengu styrki úr Aski – mannvirkjasjóði. Styrkirnir eru veittir til mannvirkjarannsókna með áherslu á aukna þekkingu, umbætur og nýsköpun til að mæta samfélagslegum áskorunum á sviði mannvirkjagerðar.
EFLA hlaut í maí styrk frá Loftslagssjóði fyrir verkefnið Þurrkun á timbri með jarðvarma. Markmið verkefnisins var að skoða hvernig nýta megi jarðvarma til þurrkunar á timbri og kanna loftslagsávinninginn samanborið við innflutning á erlendu timbri.
EFLA hlaut í september styrki fyrir sex nýsköpunar- og rannsóknarverkefnum frá Nýsköpunarsjóði námsmanna á liðnu sumri. Átta sumarstarfsmenn unnu að verkefnunum ásamt sérfræðingum EFLU.
Síðast en alls ekki síst hlaut EFLA viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu. EFLA var eitt af þeim fyrirtækjum sem undirrituðu viljayfirlýsingu Jafnvægisvogarinnar þess efnis að hafa jafnað kynjahlutfall í framkvæmdarstjórn félagsins.