BIM við hönnun Fossvogsbrúar

06.06.2024

Fréttir
A modern sail boat sailing under a large bridge

Föstudaginn 7. júní verður örráðstefna á vegum EFLU og BIM á Íslandi þar sem fjallað verður um notkun BIM við hönnun Fossvogsbrúar.

Tækifæri til umræður

Í kynningunni sem Kristján Uni Óskarsson, byggingarverkfræðingur hjá EFLU, verður með mun hann fjalla um notkun BIM við hönnun Fossvogsbrúar, hvernig líkön eru gerð hluti af útboðsgögnum og hvernig verktaki getur byggt brúna út frá líkönum.

„Við vonumst eftir góðri mætingu þvert á fyrirtæki og stofnanir og umræðum eftir fyrirlesturinn um hvernig staðan er á notkun BIM í innviðaverkefnum, tækifæri og áskoranir miðað við aðra geira, hvernig verktökum líst á að fá gögnin á þessu formi og þarfir verkkaupa,“ segir Ingvar Hjartarson, byggingarverkfræðingur hjá EFLU og einn skipuleggjenda örráðstefnunnar.

Teikningalaus bygging Fossbrúar

BIM (e. Building Information Modelling) er aðferðafræði sem er notuð til að búa til hönnunarlíkan fyrir byggingu og kerfin sem henni tilheyra. Hönnunarlíkanið, ásamt þeim upplýsingum sem í því eru, er síðan hægt að greina, herma og sannreyna áður en byggingin er byggð. Fyrir EFLU snýst BIM að miklu leyti um að upplýsingaflæði sé gott milli viðskiptavinar, verktaka og sérfræðinga okkar á meðan hönnun og framkvæmd stendur.

BIM aðferðarfræðin var notuð við hönnun Fossvogsbrúar, en EFLA, ásamt BEAM Architects, hönnuðu brúna sem varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni Vegagerðarinnar, í samstarfi við Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ. Fjallað verður sérstaklega um þau skref sem hafa verið stigin í átt að þessu teikningalausa samgönguverkefni.

Örráðstefnan verður haldin í Herðubreið, sal á fimmtu hæð í höfuðstöðvum EFLU að Lynghálsi 4, og stendur frá kl. 10 til 12. Öll eru velkomin á viðburðinn en takmörkuð sæti í boði og skráning áskilin. Hægt er að skrá með því að smella á þennan hlekk.