„Sjálfboðaliðar Bjargráðs hafa fengið frábærar viðtökur framhaldsskólanema við fræðslunum og að okkar bestu vitund taka framhaldsskólanemar mjög vel í þetta framtak,“ segir Helga Húnfjörð Jósepsdóttir frá Bjargráði, félagi læknanema um endurlífgun. Félagið hlaut styrk úr Samfélagssjóði EFLU.
Ánægja hjá framhaldsskólum
Bjargráður, sem var stofnað árið 2013, hefur það að markmiði að fræða sem flest í endurlífgun. Starfsemi félagsins er alfarið unnin með sjálfboðaliðastarfi. Sérstök áhersla er á að fræða nemendur á framhaldsskólastigi um endurlífgun. Fræðslan fer fram í fyrirlestraformi ásamt verklegum æfingum með skyndihjálpardúkkum.
Helga segir þau telja þetta vera góða tilbreytingu frá bóklegri kennslu hversdagsins. „Við leggjum áherslu á að kennslan sé skemmtileg og gagnvirk. Bjargráður hefur einnig getið sér góðan orðstír meðal starfsfólks í þeim skólum þar sem fræðsla hefur verið haldin og uppskorið ánægju skólameistara og kennara og höldum við góðu sambandi við tengiliði innan skóla sem skipuleggja kennslu,“ útskýrir hún.
Fræðsla til framhaldsskólanema er stærsti hluti af starfsemi Bjargráðs, en langt frá því að vera það eina sem félagið gerir. „Einnig tökum við reglulega þátt í Vísindasmiðjunni, Vísindavökunni og öðrum ráðstefnum, höldum fræðslur fyrir grunnskólanemendur og sjáum um stórslysakennslu fyrir læknanema í samstarfi við Kennslu- og fræðslumálanefnd læknanema sem er haldin annað hvert ár og er mikilvæg æfing fyrir framtíðar lækna,“ segir Helga.
Bjargar lífum
Rannsókn sem Ívar Elí Sveinsson gerði árið 2016 sýndi að stutt fræðsla sjálfboðaliða Bjargráðs í endurlífgun fyrir nemendur á framhaldsskólastigi er áhrifarík. „Mun hærra hlutfall nemenda sem hlotið höfðu fræðslu hjá Bjargráði stóðst krossapróf þar sem könnuð var þekking á grundvallaratriðum endurlífgunar heldur en þeir sem ekki höfðu hlotið fræðslu,“ segir Helga.
En hvað er það nákvæmlega sem gerist við endurlífgun? „Endurlífgun er ferli sem hefur það markmið að koma sjúklingum í hjartastoppi til lífs á ný. Tilgangur endurlífgunar er að viðhalda blóðflæði til vefja líkamans, sér í lagi heilans sem er viðkvæmur fyrir viðvarandi blóð- og súrefnisskorti. Þetta er gert þangað til að sérhæfð aðstoð berst eða hægt er að veita einstaklingi rafstuð með þar til gerðu tæki. Ef einstaklingur svarar ekki áreiti og andar ekki eðlilega er þörf á því að beita endurlífgun í formi hjartahnoðs og blásturs,“ segir Helga.
„Bjargráður er því mikilvægt verkefni þar sem aukin þekking samfélagsins á endurlífgun getur stuðlað að því að bjarga lífum,“ bætir hún við að lokum.