Bláa Lónið hlýtur Steinsteypuverðlaunin

18.02.2019

Fréttir
A group of men and women standing with certificates in their hands

Forsvarsmenn, hönnuðir og framkvæmdaaðilar sem unnu að gerð nýs hótels og heilsulindar Bláa Lónsins tóku við Steinsteypuverðlaununum þann 15. febrúar 2019.

Steinsteypuverðlaunin í ár voru veitt fyrir frumlega og vandaða notkun á steinsteypu í nýju hóteli og heilsulind Bláa Lónsins. EFLA ásamt Basalt Arkitektum sáu um hönnun og útlit steinsteypu í mannvirkinu og Jáverk sá um framkvæmdina.

Steinsteypudagurinn er haldinn árlega og þar koma saman aðilar úr byggingariðnaðinum til að fræðast og miðla þekkingu um málefni tengd iðnaðinum. Steinsteypufélag Íslands hefur veg og vanda að viðburðinum og er leitast við að vekja athygli á mikilvægi steinsteypu í umhverfinu, enda er steinsteypa helsta byggingarefni Íslendinga.

Mynsturveggur vekur eftirtekt

Steinsteypuverðlaunin eru einnig veitt á þessum degi en þau eru veitt fyrir steinsteypt mannvirki þar sem saman fer frumleg og vönduð notkun á steinsteypu í manngerðu umhverfi. Í ár bárust 13 tillögur til félagsins og hlutu 5 tilnefningu til verðlaunanna.

Það var síðan Bláa Lónið Retreat, hótel og heilsulind sem varð hlutskarpast og hlaut verðlaunin fyrir notkun steinsteypu í byggingunni með áherslu á mynsturvegg í móttöku hótelsins. Um er að ræða glæsilegan sjónsteyptan vegg með mynstri, bogadreginn, litaðan og án steypuskila í 7,5 metra hámarkshæð. Í umsögn dómnefndar kom m.a. fram: „Steinsteypa nýtur sín vel á mörgum stöðum í byggingunni, að innan sem utan og einstaklega vel hefur tekist til við framkvæmd á mynsturveggnum sjálfum. Mikil áhersla er lögð á frumleika og er hönnun og framkvæmd framúrskarandi.“

EFLA ásamt Basalt Arkitektum höfðu veg og vanda að útliti og hönnun steinsteypunnar sem er notuð í Bláa Lóninu, framkvæmd var í höndum JÁVERK og steypan kom frá Steypustöðinni.

Þess má geta að EFLA hefur komið að margskonar verkfræðihönnun fyrir Bláa Lónið í gegnum tíðina og kom að byggingu nýs hótels og heilsulindar með fjölbreyttum hætti. Þar má helst nefna hönnun burðarvirkis, lónslagna, raflagnahönnun, hljóðvist og verkefnastjórnun.

An image of a hotel lobby or similar setting which includes grey couches, coffee table, floor lamp and a fire place

Mynsturveggurinn í móttöku nýs hótels hefur vakið mikla eftirtekt. Mynd: Blue Lagoon Iceland.

Erindi EFLU um endurunna steypu

Fjölbreytt fræðsluerindi fóru fram á Steinsteypudeginum, en eitt erindanna hélt Þorbjörg Sævarsdóttir, verkfræðingur á samgöngusviði EFLU. Erindið fjallaði um hvernig mætti nýta endurunna steypu til vegagerðar.