EFLA hefur verið ráðgjafi starfshóps Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar um brú yfir Fossvog og skilaði starfshópurinn greinargerð sinni í síðustu viku. Hlutverk hópsins var að skoða legu og útfærslu brúar yfir Fossvog sem skuli fyrst og fremst þjóna vistvænum ferðamátum, gangandi og hjólandi umferð og mögulega strætisvögnum.
Brú yfir Fossvog
Í greinargerðinni er farið yfir mögulega staðsetningu brúarinnar, kostnað, byggingartíma og áhrif hennar á siglingafélög í Fossvogi, umhverfið og fleira.
Kópavogsbær og Reykjavíkurborg hafa hvort í sínu lagi skilgreint umhverfisáætlun og hjólreiðaáætlun sem hafa það að markmiði að auka vistvænar samgöngur og stuðla að breyttum ferðavenjum íbúanna. Bygging hjóla- og göngubrúar yfir Fossvog samræmist þeim markmiðum vel. Talningar á umferð hjólandi og gangandi á vegum Reykjavíkur og Kópavogsbæjar við botn Fossvogs árið 2011 gefa til kynna að um 500-1000 manns séu á ferðinni þar á hverjum degi.
Brú yfir Fossvog bætir stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins ásamt því að gefa skemmtilega möguleika á útivistarleiðum. Neikvæðu áhrif brúarinnar eru á starfsemi siglingafélaga í Fossvoginum þar sem hún setur þeim nokkrar skorður.
Skoðaðir voru mismunandi valkostir um lengd brúarinnar. Áætlað er að 270 m hjóla- og göngubrú með stuttum landfyllingum við hvorn enda kosti um 950 milljónir kr., 100 m brú með lengri landfyllingum er áætlað að kosti um 640 milljóni kr.
Sjá má hvernig brú yfir Fossvog getur litið út á meðfylgjandi myndum.
Verði breytingar á aðalskipulagi Kópavogsbæjar og Reykjavíkurborgar samþykktar af Skipulagsstofnun má gera ráð fyrir að tími frá samþykkt skipulagsáætlana að opnun brúar sé allt að 3 árum.