Brúahönnun í Drammen

21.02.2018

Fréttir
Blue river running through a city with a bridge spanning across it

Borgaryfirvöld í Drammen í Noregi hafa hleypt af stokkunum undirbúningi og hönnunarvinnu vegna endurnýjunar á Bybrua, brúnni sem tengir saman tvo meginborgarhluta Drammen. EFLA er hluti af hönnunarteyminu sem kemur að verkefninu.

Brúahönnun í Drammen

Bybrua þverar Drammenselva, ána sem rennur í gegnum þessa fimmtu stærstu borg Noregs, en brúin var byggð fyrir rúmum 80 árum.

EFLA er hluti af hönnunarhópnum sem ásamt tveim öðrum urðu hlutskarpastir í forvali borgaryfirvalda á ráðgjöfum til að forhanna nýja Bybrua. Auk þess mun vinnan fela í sér forhönnun nýrrar göngu- og hjólabrúar, sem ætlað er að auka enn hlut vistvænna samgangna um miðborgina, en Drammen hefur hlotið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir vistvæna nálgun í borgarskipulagningu. EFLA mun annast verkfræðihluta brúarhönnunar innan hópsins.

Alls sóttust 14 ráðgjafahópar víða að úr Evrópu eftir því að koma að verkefninu, en afrakstur þeirra þriggja sem valdir voru mun verða kynntur íbúum í Drammen í júní á þessu ári.

Samstarfsaðilar EFLU í verkefninu eru:

Alt.arkitektur AS , sérfræðingar í borgarskipulagi

Brownlie Ernst and Marks Architechts , brúararkitektar

Dronninga Landskap, landslagsarkitektar

Frétt borgaryfirvalda í Drammen um verkefnið