Undanfarin ár hefur EFLA haslað sér völl í Noregi og unnið fjölmörg áhugaverð verkefni. Meðal verkefna sem EFLA hefur séð um er hönnun göngubrúa og göngu- og hjólastíga fyrir Norsku vegagerðina í Osló.
Brýr og göngustígar fyrir norsku vegagerðina
Göngu- og hjólastígur meðfram Ring 3
EFLA sá um hönnun og ráðgjöf vegna um 1 km langs göngu- og hjólastígs meðfram Ring 3 stofnbrautinni í norðanverðri Osló og ýmissa tengdra aðgerða. Ráðgjöf EFLU fólst í hönnun stígsins og nýrrar akreinar fyrir almenningsvagna á Ring 3, jarðkönnun, hljóðverkfræði, gerð útboðsgagna, hönnun fráveitu og götulýsingar.
Gerð stígsins er hluti af átaki um bættar hjólasamgöngur í Osló en stígurinn er skilgreindur sem stofnstígur í hjólastígakerfi Osló.
Göngubrýr við Borgenveien og Ris skole
EFLA sá um hönnun tveggja nýrra göngubrúa við Ring 3 stofnbrautina. Brýrnar eru Borgenveien gangbru, 15 m steypt brú sem tengir stíga á svæðinu á aðgengilegan hátt og Ris skole gangbru, um 100 m löng stálbrú með aðalhaf yfir Ring 3. Aðalhafið við Ris skole gangbru er 45 m langt, stutt af köplum, en turnarnir sem tengja kaplana setja mikinn svip á mannvirkið.
Framkvæmdir við göngu- og hjólastíginn og brúargerðina hófust árið 2014 og lauk síðastliðið sumar. Samstarfsaðili EFLU við hönnun Ris skole gangbru var arkitektastofan Studio Granda.
Göngu- og hjólabrú við Ullevaal stadion
EFLA hefur undanfarna mánuði unnið að hönnun nýrrar göngu- og hjólabrúar við norska þjóðarleikvanginn Ullevaal stadion. Brúin þverar bæði hina umferðarþungu stofnbraut Ring 3, þar sem keyra um 60 þúsund ökutæki á dag, og Sognsveien tengibrautina. Brúin mun leysa af hólmi núverandi brýr sem uppfylla ekki lengur þarfir gangandi og hjólandi vegfarenda um svæðið.
Nýja brúin er stálkassabrú þar sem 6 m heildarbreidd milli handriða skiptist í gangstétt og hjólastíg. Segja má að tvenn T-gatnamót á brúnni séu leyst með mjúkum línum og staðbundinni breikkun brúargólfsins. Heildarlengd brúarinnar er um 420 m. Auk brúarhönnunar fólst verkefnið í aðlögun stígakerfis að nýjum brúm, landslagshönnun, hönnun nýrra fráveitu- og götulýsingarkerfa, skipulagningu á nauðsynlegum flutningum á rafmagns- og fjarskiptalögnum í jörð og jarðvegs- og umhverfisrannsóknum á svæðinu.
Verkið er unnið fyrir austursvæði norsku vegagerðarinnar, Statens vegvesen Region øst, en EFLA er með rammasamning á því svæði vegna framkvæmda í Oslo og Akershusfylkjum. Samstarfsaðili EFLU í brúarhönnuninni við Ullevaal stadion er arkitektastofan Brownlie Ernst and Marks Ltd. Gert er ráð fyrir að byggingarframkvæmdir hefjist vorið 2017.
Ofangreind verkefni hafa verið unnin í samstarfi við starfsstöð EFLU í Osló, EFLU AS.